„Sjúkraþjálfarar veita þjónustu sem miðar að því að bæta, viðhalda og endurhæfa hreyfigetu og virkni fólks. Þeir aðstoða fólk á öllum lífsskeiðum þegar sótt er að hreyfigetu og virkni vegna öldrunar, slysa, sjúkdóma, kvilla, ástands eða umhverfislegra þátta,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.

Yfir 50.000 þjónustuþegar

Starf sjúkraþjálfara er að efla sjálfshjálp einstaklinga, gera mörgum kleift að búa sjálfstætt og minnka þörf á utanaðkomandi aðstoð. Sjúkraþjálfun getur komið í veg fyrir eða stytt sjúkrahúslegu, fækkað aðgerðum og minnkað lyfjagjöf. „Það kemur mörgum á óvart hversu mikið þjónusta sjúkraþjálfara er notuð, en árlega njóta yfir 50.000 manns þjónustu sjúkraþjálfara. Sumir einstaklingar koma í 1-3 skipti til sjúkraþjálfara á meðan aðrir eru að glíma við langvarandi fatlanir og kvilla og sækja þjónustuna árum saman. Á bak við þessa tölu er því gríðarlegur fjölbreytileiki í þjónustu. Sjúkraþjálfarar eru enda afar fjölbreytt stétt og starfa á mörgum mismunandi stöðum,“ segir Unnur.

Ef kerfið ætlar ekki að sligast undan álaginu þá eru forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir lykilatriði og þar spila sjúkraþjálfarar stórt hlutverk.

Öldrun er áskorun

Að sögn Unnar er helsta áskorunin í endurhæfingu næstu árin öldrun þjóðarinnar og afleiðingar hennar. „Það var mikið fjallað um öldrunarmál á víðum grunni á heilbrigðisþingi í lok ágúst. Ef kerfið ætlar ekki að sligast undan álaginu þá eru forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir lykilatriði og þar spila sjúkraþjálfarar stórt hlutverk.

Einnig er nú mikið rætt um lífsstílssjúkdóma og afleiðingar hreyfingarleysis á heilbrigðiskerfið. Þetta vandamál hrjáir alls konar fólk, allt niður í börn og unglinga, og mun verða vaxandi vandamál þegar þessar kynslóðir eldast.

Fólk er að átta sig á því hversu gríðarlega stórt hlutverk endurhæfing spilar í krabbabeinsmeðferðum og ekki síður eftir meðferð. Hér áður fyrr átti fólk bara að vera þakklátt fyrir að ná bata. Nú er gríðarlegur vöxtur í vitund um nauðsyn endurhæfingar hjá þessum hópi fólks og eru sjúkraþjálfarar farnir að sinna þessu fólki í mun meiri mæli. Við fáum fólk á öllum aldri til okkar sem þarf að ná fyrri þrótti, þreki og lífsgæðum og þarna er þörfin að springa út. Fólk talar jafnvel um lífgjöf númer tvö.“

Endurhæfing eftir Covid

„Nýjasti vinkillinn hjá okkur er svo endurhæfing eftir Covid-19. Íslenskir sjúkraþjálfarar fylgjast vel með öllum rannsóknum sem eru að koma fram. Þar hefur komið í ljós að aðstæður fólks sem hefur fengið Covid eru sérstakar að því leyti að þar kemur inn óvæntur síþreytuþáttur. Þetta þarf að hafa ofarlega í huga í endurhæfingu þessa hóps. Það fylgja þessu sérstök langvarandi einkenni sem eru ólík þeim sem eru eftir til dæmis krabbameinsmeðferð eða lífsstílssjúkdóma. Stignun er til að mynda ákveðið hugtak sem notað er yfir stigvaxandi viðbætur á álagi hjá skjólstæðingum sjúkraþjálfara. Í tilfelli einstaklings sem er að ná bata eftir Covid er nauðsynlegt að stilla allri stignun í hóf. Margir eru æstir í að komast af stað og ná bata. En staðreyndin er sú að það er ekki hægt að hlaupa sig í gegnum langvarandi Covid-áhrif. Að taka endurhæfingu með trukki í þessu tilfelli er einfaldlega ávísun á skipbrot. Í flestum tilfellum eru sjúkraþjálfarar að hvetja fólk til hreyfingar, en hjá þessum hópi þurfa þeir frekar að bremsa fólk af.

Þess vegna hefur alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfara, 8. september, verið tileinkaður endurhæfingu í kjölfar Covid-19, en í fyrra var dagurinn tileinkaður endurhæfingu í lungnasjúkraþjálfun á meðan fólk var með Covid-sjúkdóminn. Þá hefur öllum gögnum úr birtum rannsóknum sem hafa verið gerðar á þessu tiltekna málefni verið safnað saman í alþjóðlegan gagnabanka sem sjúkraþjálfarar geta leitað í.“

Ég gleymi því aldrei þegar ég komst eitt sinn að því hjá íbúum blokkar, sem var hönnuð fyrir eldri borgara, að fólk treysti sér ekki út úr húsi ef það hreyfði vind, vegna sviptivinda sem sköpuðust vegna gallaðrar hönnunar.

Tækifæri sem má ekki glatast

„Margsannað er að sjúkraþjálfun er tiltölulega ódýrt úrræði fyrir samfélagið allt. Sjúkraþjálfun hefur gríðarlegt forvarnargildi og seinkar til dæmis þörf eldra fólks á dýrari þjónustu síðar meir. Þó svo stór hópur eldri borgara geti nýtt sér heilsuúrræði sem standa öllum til boða, þá er samt mikilvægt að fólk fái notið heilsueflingar sjúkraþjálfara sem hefur þekkingu á og getur samræmt úrræði í samræmi við heilsufarsástand viðkomandi. Þá felst fræðsla og hvatning einnig í hlutverki sjúkraþjálfara.

Það er þörf á að efla mjög þjónustu við eldri borgara í nærumhverfinu og tryggja það að þar séu starfandi sjúkraþjálfarar. Ég hef líka stundum sagt að skipulagsmál séu heilbrigðismál og það skiptir gríðarlegu máli hvernig umhverfið er í kringum hjúkrunarheimili og búsetu eldri borgara. Þá er lykilatriði að það henti þörfum þess hóps sem þar býr. Ég gleymi því aldrei þegar ég komst eitt sinn að því hjá íbúum blokkar, sem var hönnuð fyrir eldri borgara, að fólk treysti sér ekki út úr húsi ef það hreyfði vind, vegna sviptivinda sem sköpuðust vegna gallaðrar hönnunar. Umhverfi verður að vera heilsueflandi og hvetjandi til útivistar.

Það er svo spennandi þróun í sambandi við þennan hóp að eftir því sem árin líða verður þetta fólk sífellt leiknara í tæknilausnum. Lykillinn að aukinni endurhæfingarþjónustu við eldri borgara liggur í því að færa þjónustu eins og fræðslu, leiðbeiningar og eftirfylgni að einhverju leiti í fjarþjónustu. Hér er stórt tækifæri sem má ekki glatast.“

Með hækkandi aldri þjóðarinnar mun þörfin á þjónustu sjúkraþjálfara aukast á næstu árum og áratugum og því er nauðsyn að gera ráð fyrir aukinni þörf á sjúkraþjálfun á fjárlögum.

Heimavinna og hreyfingarleysi stórt vandamál í Covid

Oft er rætt um neikvæð áhrif heimavinnu í Covid-19 á stoðkerfi starfsfólks. „Afleiðing heimavinnunnar er sú að fólk leitar í meira mæli til sjúkraþjálfara með vægari stoðkerfiskvilla. Flestir sjúkraþjálfarar eru sammála um að þetta stafi ekki endilega af slæmri vinnuaðstöðu heimavið, heldur stafi þetta fyrst og fremst af hreyfingarleysi. Til þess að mæta í vinnuna þurfti fólk ekki að ganga lengra en yfir í næsta herbergi. Vinnan var þá til dæmis í eldhúsinu og kaffivélin í seilingarfjarlægð í stað þess að fólk þyrfti að standa upp til að fá sér kaffi. Þá þurfti ekki að hífa sig upp úr stólnum til þess að ræða við vinnufélaga heldur nægði að skrifa tölvupóst. Eftir vinnu færði fólk sig svo yfir í sjónvarpsstólinn og að lokum upp í rekkju aftur. Ef vinnuaðstaðan var í þokkabót slæm er það augljóslega slæm blanda.“

Góðu fréttirnar segir Unnur þó vera þær að langsamlega flestir sem fengu Covid-19 í fyrstu bylgjunni eru nú, einu og hálfu ári síðar, að ná sér á strik, orðnir vinnufærir og upplifa sig eins og þeir áttu að sér að vera. „Þetta ferli hefur tekið langan tíma fyrir marga og stór hópur þurfti á miklum stuðningi að halda.“

Hver króna skilar sér margfalt

Að lokum vill Unnur benda á að ekki hefur verið samningur í gildi við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara síðan í janúar 2020. „Það er brýnt að tryggja fjármagn sem gerir Sjúkratryggingum Íslands kleift að gera ásættanlega samninga við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara um þjónustu þeirra. Með hækkandi aldri þjóðarinnar mun þörfin á þjónustu sjúkraþjálfara aukast á næstu árum og áratugum og því er nauðsyn að gera ráð fyrir aukinni þörf á sjúkraþjálfun á fjárlögum. Hver króna sem sett er í endurhæfingu skilar sér til baka í lífsgæðum og þjóðhagslegum verðmætum.“