WandaVision

★★★ 1/2

Höfundur: Jac Schaeffer

Aðalhlutverk: Elizabeth Olsen, Paul Bettany, Kathryn Hahn, Teyonah Parris

Martin Scorsese til mikillar mæðu kom það engum á óvart þegar Aveng­ers: Endgame varð söluhæsta kvikmynd allra tíma. Marvel-báknið hefur farið fram með offorsi um heim allan og velgengni myndarinnar var, rétt eins og skúrkurinn Þanos, óumflýjanleg.

Þrátt fyrir þessar miklu vinsældir voru sumir á því að Endgame væri, eins og nafnið gefur til kynna, fín endastöð fyrir ofurhetjubóluna og höfðu uppi stór orð um að þeir ætluðu sko ekki að fylgjast með því sem á eftir fylgdi. Bíóþurrkurinn sem fylgdi faraldrinum var þó greinilega nóg til að kveikja þorstann á ný og fyrstu sjónvarpsþættir Marvel trekktu vel að á Disney+.

Í fyrstu virðist WandaVision vera mesta áhætta sem Marvel hefur tekið til þessa. Þættirnir, sem marka innreið Marvel á streymisveituna, eru með tilraunakennda söguuppbyggingu og reiða sig á að áhorfendur hafi séð heilan haug af kvikmyndum í seríunni.

Áhætta Marvel er þó kannski ekki svo mikil þegar hundruð milljóna um heim allan horfa á allt sem frá þeim kemur.

Svarthvít ráðgáta

Söguhetjurnar Wanda og Vision hafa til þessa verið í aukahlutverkum í Marvel heiminum og örlög þeirra í Endgame gáfu ekki beint til kynna að gamanþættir í úthverfunum væru eðlilegt framhald fyrir persónurnar.

Fyrstu þættirnir setja tóninn fyrir þáttaröðina. Svarthvítir í 4:3 myndhlutfalli, minna þeir einna helst á þáttaraðir frá sjötta og sjöunda áratugnum. Hver þáttur færir sögusviðið fram í tímann og er stillt upp í anda vinsælla þátta frá hverju tímabili fyrir sig.

Í fyrstu virðast Wanda­Vision á yfirborðinu vera léttir gamanþættir með dósahlátri. Þó koma reglulega augnablik sem benda til að ekki sé allt með felldu og áhorfendur verða að gera sitt besta til að átta sig á því af hverju Wanda og Vision eru samankomin í þessu furðulega umhverfi. Það er svo fyrir miðja seríu þegar hulunni er svipt af stöðu mála og heildarmyndin kemur í ljós.

Wanda og Vision hafa til þessa verið í aukahlutverkum í Marvel-heiminum og örlög þeirra í Endgame gáfu ekki beinlínis fyrirheit um að þeirra biðu gamanþættir í úthverfunum.
Mynd/Disney+

Þótt það sé aðeins yfirskin fyrir ráðgátuna, hefði áhorfendum líklega drepleiðst ef gamanið væri ekki vel heppnað. Sem betur fer tekst vel til og úr verður skemmtilegur óður til gamanþátta frá ýmsum köflum sjónvarpssögunnar. Líkt og svo margir vinsælir þættir eiga WandaVision sína bestu spretti áður en áhorfendur átta sig á ráðgátunni og það var gaman að fylgjast með Wanda og Vision takast á við léttvæg fjölskylduvandamál í úthverfunum.

Renna út í sandinn

Það var því leiðinlegt að sjá þættina missa dampinn í seinni hlutanum. Utan skjáheima var söguþráðurinn ekki jafn áhugaverður og persónurnar sömuleiðis heldur flatar. Frumleikinn vék fyrir hefðbundnari ofurhetjustympingum og þótt þættirnir hafi alls ekki orðið leiðinlegir var niðurstaðan ekki jafn framúrstefnuleg og þeir höfðu burði til.

Ein helsta ástæðan fyrir því að þáttunum tókst jafn vel til og raun ber vitni, er frammistaða leikaranna, þá sérstaklega Elizabeth Olsen sem Wanda og Paul Bettany sem Vision. Þótt þau hafi til þessa aðeins fengið snefil af þeim skjátíma sem stærri hetjurnar hafa notið, er saga þeirra bæði hjartnæm og sorgleg. Þá er Kathryn Hahn líka góð í hlutverki Agnesar, hnýsna nágrannans.

Þótt WandaVision séu ekki fullkomnir og hafi runnið aðeins út í sandinn fyrir rest, sýna þeir þó að höfundar Marvel eru fullfærir um að fara ótroðnar slóðir þegar þeim sýnist. Kannski þeir komi áhorfendum á óvart á ný með Falcon and the Winter Soldier, sem taka við keflinu í næstu viku. Ekkert sérstaklega líklegt samt.

Niðurstaða: Skemmtileg tilraun Marv­el til að brjóta upp formúluna. Hefðu mátt ganga lengra en á heildina litið fín skemmtun.