Ekkert skemmti­efni í ís­lensku sjón­varpi þessar vikurnar fer fram úr sau­tjándu þátta­röð The Voice sem Sjón­varp Símans sýnir á föstu­dags- og laugar­dags­kvöldum, að­dá­endum þessara þátta til sannrar gleði. The Voice hefur á langri göngu sinni unnið til ótal verð­launa og árin slá hvorki á vin­sældirnar né gæðin.

Í þáttunum syngur á­huga­fólk í tón­list fyrir fjóra þjálfara sem snúa í þá baki. Þegar þjálfarar ýta á takka til að veita söngvara fram­gang hafa þeir ekki hug­mynd um hvernig söngvarinn lítur út. Þeir meta hann einungis út frá röddinni. Þetta gerir að verkum að ein­staklingar sem hafa þjáðst af minni­máttar­kennd vegna út­lits síns fá viður­kenninga vegna söng­hæfi­leika en er ekki hafnað vegna þess að þeir hafa í gegnum árin safnað á sig auka­kílóum eða þykja ekki nægi­lega fríðir.

Í þessari nýju þátta­röð hefur blökku­kona með helling af auka­kílóum slegið í gegn. Árum saman var henni strítt og hún lögð í ein­elti vegna út­lits síns en í The Voice hefur hún fengið upp­reisn æru og öðlast lang­þráð sjálfs­traust. Þarna er líka ungur maður með Asper­ger heil­kenni, sem var lagður í ein­elti sem drengur. Þjálfararnir hrósa honum há­stert fyrir lifandi sviðs­fram­komu. Loksins fær hann að njóta sín. Dæmi eins og þessi eru fjöl­mörg í sögu þáttanna og gera að verkum að á­horf­endur eiga afar auð­velt með að lifa sig inn í þættina og per­sónu­lega sögu kepp­enda.

Þjálfararnir fjórir virðast allir vera frá­bærar mann­eskjur, auk þess að vera heims­frægir söngvarar. Þeir rífa ein­stak­linga ekki niður heldur leitast við að byggja þá upp. Þarna er mann­legi þátturinn í for­grunni. John Legend er einn þjálfaranna og það er stíll yfir honum. Hann er ró­legur, fag­legur og hlýr. Kel­ly Clark­s­on er skvettan í hópnum, talar mikið og er full af fjöri og ó­beislaðri kátínu. Svo er kæru­parið í hópnum, Blake Shelton og Gwen Stefani. Þau eru ó­lík­legt par, eins og hin ein­læga og hlýja Stefani minnist stundum á í þáttunum. Hún er heims­dama sem nýtur þess að klæða sig upp á og er djörf í fata­vali. Hann er kú­reki af lífi og sál og virðist alltaf vera í sömu galla­buxunum. Ástin ljómar af þessu pari sem maður heldur með og vonar að verði alltaf saman. Á sama hátt óskar maður þess að The Voice verði á­fram reglu­legur gestur í lífi manns, enda þáttur sem er sannur gleði­gjafi.