Það besta

House of the Dragon

Álitsgjafarnir voru allir á einu máli. Fyrir Game of Thrones lúðana var þetta svalandi nýtt efni. Borgarastyrjöld Targaryen-fjölskyldunnar var í brennidepli og einfaldlega svínvirkaði.

Verbúðin

Setti ný viðmið í íslensku sjónvarpi. Línuleg dagskrá fékk uppreist æru. Það voru meira að segja verbúðarböll um allt land og myndaleikur á Instagram – þar sem nánast allir tóku þátt.

Tulsa King

Þáttaröð með sjálfum Silvester Stallone. Það er nóg til að fá tilnefningu. En fyrir utan grín og glens er þetta raunverulega frábær sería þar sem Stall­one sýnir allar sínar bestu hliðar.

Dahmer

Það er eitthvað við þessa seríu. Einhver hryllilegur drungi og spenna. Sögunni er komið vel til skila og áhorfandanum líður nánast eins og hann sé skítugur eftir að hafa horft á allt ógeðið.

The Lord of the Rings: The Rings of Power

Galadríel var kona. Það vakti mesta athygli sem var algjör vitleysa því þættirnir voru frábærir og stolt Amazon Prime. Það var einhver fegurð að sjá undanfara ævintýrisins vera leyst ?með þessum hætti.

Love Island

Þetta verður að vera með. Serían sem markaði endurkomu langbesta raunveruleikasjónvarpsins þar sem magn er það sama og gæði. Gemma Owen varð að stórstjörnu og breskir strákar komu einstaklega illa út.

Sly Stallone sýnir snilldartilþrif í Tulsa King.

Það sem var gott

Slembiskákin

Frábært í alla staði. Hemmi Gunn lýsti skák af sinni alkunnu snilld í gamla daga og þarna komu saman Björn Þorfinnsson og Páll Magnússon til að fræða landsmenn um skáklistina – svo eftir var tekið.

Íþróttadeild RÚV

EM kvenna og HM í Katar var skilað með sóma heim í stofu þótt úrslitin hafi ekki verið góð hjá stelpunum okkar. Lýsingarnar á HM voru upp á 10 en HM stofan olli ákveðnum vonbrigðum. Bætti litlu við.

Gísli Marteinn

Sjónvarpskóngurinn á Íslandi er enn frábær. Sama hvað hver segir. Svo stuðar hann marga sem er skemmtilegt. Eitt er víst að allir hafa skoðun á þættinum sem þýðir að allir eru að horfa.

Venjulegt fólk

Einfalt grín og gott. Uppskrift sem virkar. En það þurfa ekkert að koma mikið fleiri seríur. Þarna voru sprettir inni á milli, sem voru frábærir. En án Halldóru Geirharðs væru þættirnir kannski ekkert góðir.

Margt býr í Tulipop

Besta barnaefnið. Alveg langbesta. Gunni Helga og Nanna Kristín eiga lof skilið fyrir að gefa foreldrum frí enda sökkva börnin sér ofan í skjáinn. Eins gott að það sé ekki rétt að augun verða kassalaga sé horft of mikið.

Bridge fyrir alla

Blaðamaðurinn Björn Þorláksson kynnti bridge fyrir landsmönnum. Það var áhugi og metnaður sem kom saman í frábærum þáttum þar sem alls konar skemmtilegir viðmælendur komu við sögu.

Tulipop er frábært barnaefni.

Ekki gott

The Rehearsal

Alveg fyndið inn á milli en það er nóg að horfa á tvo þætti. Þá var uppskriftin komin sem er fyndin og skemmtileg en hún virkar einfaldlega ekki í marga þætti, hvað þá seríur.

Andor

Trúlega frábært fyrir Star Wars-nörda. En hundleiðinlegt fyrir aðra. Og fleiri álitsgjafar blaðsins voru ekki Star Wars-nördar. Guðmundur Jóhannsson á Símanum verður þó fyrir vonbrigðum með að Andor sé hér. Það ber að virða.

Bachelor og Bachelorette

Bachelorette þar sem tvær kepptu um ástina var uppskrift sem var vonlaus. Þrátt fyrir að Ísland hafi leikið stórt í báðum þáttaröðunum var þetta einfaldlega vont ár fyrir Bachelorheiminn.

Bachelorette keppendur í ár voru alveg út á túni.

Vont og lélegt

Elska Noreg

Það var ekki gott efni. Það vantaði einhvern veginn allt. Eins og þetta hafi verið gert í flýti eða kannski var Síminn bara blindaður af ást á Verbúðinni og leyfði Vesturporti að gera það sem þau vildu.

Heimir og Edda í Katar

Það var vonlaust. Og til hvers? Meira að segja fótboltaspekingar í settinu á RÚV voru farnir að gera grín að þessum innslögum. RÚV hætti líka við að fara aðra ferð enda bættu innslögin engu við.

Vitjanir

Það var eitthvað sem virkaði ekki. Kannski var tímasetningin röng og enginn í stuði en það var bara einfaldlega ekkert að frétta frá þessu. Það er ekki einu sinni til plakat á Íslensku. Fyrir hvern var þetta?

Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari, fór til Katar í boði skattborgara. Heimsókn sem skilaði engu.