Sópransöngkonan Dagbjört Andrésdóttir hefur verið með heilatengda sjónskerðingu, CVI, frá fæðingu. Hún getur því ekki lesið nótur en hefur mætt mótlætinu af einurð og festu. Hún stefnir á burfararpróf í einsöng næsta vor og verður ein þriggja aðalsöngkvenna á Háslætti, Sönghátíð Möggu Pálma, á Húsavík á sunnudagskvöld.

„Ég fæddist tveimur mánuðum fyrir tímann og ein af mörgum afleiðingum þess er taugaskaði sem veldur meðal annars þessu. Þetta tengist augunum eiginlega ekki neitt, bara því að heilinn vinnur vitlaust úr upplýsingunum,“ segir Dagbjört sem er með mjög skert sjónsvið, svo skert að þó að sjónskerpan sé í lagi telst hún aðeins með 4-5% sjón.

Heilaskaði olli einnig hreyfihömlun, aðallega í fótum og á vinstri hlið en Dagbjört segir þó sjónskerðinguna vera það sem hái henni mest. „Ég hef verið í söngnámi í mörg ár en hef aldrei getað lesið nótur almennilega,“ segir Dagbjört og bætir við að það sé örugglega vegna þess að línurnar fimm sem skráðar eru á nótnastreng liggja of þétt saman og renni fyrir henni saman í eina.

Lesið með eyrunum

„Þetta er bara búið að vera þvílíkt ströggl og það að geta ekki séð, eða lesið, nóturnar hefur háð mér verulega í bóklegu söngnámi,“ segir Dagbjört sem hefur þó ekki látið þetta stoppa sig heldur farið sínar eigin leiðir í nótnalestri þar sem hún treystir nær eingöngu á eyrun til þess að læra lögin.

„Ég læri eftir eyranu þótt ég geti náttúrlega lesið textaupplýsingar upp að vissu marki. Aðalmálið er að staðsetja nóturnar á strengnum. Það er í rauninni það sem ég get ekki gert. Ég þarf í rauninni að stóla næstum eingöngu á eyrun.“

Hún segir að þótt skólinn sé allur af vilja gerður og kennararnir hennar frábærir þá upplifi hún almennt ekki mikinn skilning á stöðu sinni enda séu fáir nemendur með sérþarfir í tónlistarskólum. Hún hefur því lagt sig fram um að vekja athygli á sjúkdómnum og því að fá hann viðurkenndan.

Brennandi ástríða

„Það væri í raun auðveldara ef ég væri bara blind,“ segir hún og hlær. „Vegna þess að það vita allir hvað það er að vera blindur. Þannig lagað, en það að vera sjónskertur er í raun allt annað mál.“

Dagbjört segist hafa haft brennandi ástríðu fyrir tónlistinni og söngnum frá blautu barnsbeini. „Mamma og pabbi voru alltaf mjög dugleg að hvetja mig áfram í því. Ég hef í rauninni bara sungið allt mitt líf.“

Dagbjört byrjaði tíu ára gömul í Stúlknakór Reykjavíkur hjá Margréti Pálmadóttur og hóf svo upp úr því klassískt nám í Domus Vox, fjórtán ára, hjá Hönnu Björk Guðjónsdóttur. Hún hóf síðan nám í Söngskóla Sigurðar Demetz 2015 undir handleiðslu Sigrúnar Hjálmtýsdóttur. Þaðan lauk hún framhaldsprófi 2018 og lærir nú til burtfararprófs sem hún gerir ráð fyrir að ljúka 2022.

Tækifæri hjá Margréti

Segja má að Dagbjört loki ákveðnum hring á Húsavík á sunnudaginn þegar hún verður einn aðalgesturinn á Háslætti, Sönghátíð Möggu Pálma en allt saman byrjaði þetta í Stúlknakórnum hjá henni.

„Þar var ég sleitulaust í sautján ár og lærði fyrst söng í skólanum hennar,“ segir Dagbjört sem hefur allar götur síðan haldið sambandi við Möggu. „Og hún er núna að gefa mér þetta tækifæri til að koma fram á Háslættinum sínum.

Huldumál er undirtitill hinnar árlegu sönghátíðar Möggu Pálma á Húsavík að þessu sinni en tónleikarnir verða í Húsavíkurkirkju klukkan 20 á sunnudagskvöld.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn en aðalgestir hátíðarinnar, auk Dagbjartar, eru Una Stefánsdóttir og Særún Rúnudóttir. Margrét sjálf er listrænn stjórnandi, Sigríður Soffía Hafliðadóttir er kórstjóri og Jón Elíasson leikur á píanó. Kórinn er síðan skipaður Ingibjörgu Hrönn Jónsdóttur, Kristínu Vilbergsdóttur, Maríu Sigríði Ágústsdóttur og Sif Arnardóttur.