Hafsteinn Vilhelmsson er ásamt Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur, umsjónarmaður umræðuþáttar fyrir börn og ungmenni um COVID-19 sem sýndur verður í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Hann segist hafa lært mikið af gerð þáttanna, ekki bara um COVID-19 faraldurinn sem hefur haft mikil áhrif á heimsbyggðina alla.

Kennsla frá þeirri bestu

„Ég fæ náttúrulega kennslu frá einni bestu sjónvarpskonu landsins Ragnhildi Steinunni og haf verið í einkakennslu hjá Sigyn Blöndal sem er búin að gefa mér fullt af frábærum ráðum. Það sem stendur upp úr er náttúrulega þetta frábæra tækifæri að fá að taka þátt í gerð svona mikilvægs þáttar, ég gæti ekki beðið um betra fyrsta gigg í sjónvarpi. Ég hafði vissa hugmynd um ferlið en ekki alveg hversu mikil og krefjandi vinna er á bak við hverja sekúndu,“ segir Hafsteinn.

Hann segir það afskaplega mikilvægt að hafa þátt sérstaklega ætlaðan ungmennum og börnum, þar sem þau hafi ólíkar spurningar, vangaveltur og áhyggjur af stöðunni.

„Þeirra sjónarmið og vangaveltur eru enga minna mikilvægar en spurningar fullorðna fólksins. Svo skiptir miklu máli að ræða þessa hluti og styðja við þau á þessum breyttu tímum, nú þegar þau hafa ekki sama aðgang að skólum, félagsmiðstöðvum og tómstundastarfi,“ segir hann.

Hann segir þeim hafa borist margar spurningar og þó nokkrar þeirra snert á málum sem hann hafði sjálfur ekki velt fyrir sér.

„Það er margt sem brennur á unga fólkinu og margar spurningar sem ég hafði ekki einu sinni pælt í, allt frá skólamálum, tilfinningum og kvíða. Þau eru einlæg í sínum spurningum og vilja fá svör, sem er algjörlega frábært og ég veit að við getum lært helling af þeim.“

Lausnamiðuð

Hann segir skiljanlegt að aðstæðurnar hafi mikil áhrif á sálarlíf ungmenna og barna.

„Það er ekkert grín þegar manni er allt í einu kippt út úr öllu og á sama tíma áttu að standa þig vel í skólanum, æfa þig heima ef þú ert í íþróttum eða öðru sem krefst æfinga. Félagsleg samskipti skipta gríðarlega miklu máli á þessum árum og allt í einu eru þau heft, þannig að ég get rétt ímyndað mér að þetta sé erfitt. En ég held að ef einhver finnur góða leið til að halda þeim við þá eru það börn og ungmenni,“ segir Hafsteinn

Hann segist hafa orðið virkilega glaður þegar sú hugmynd var borin undir hann að hann tæki að sér þáttarstjórnina ásamt Ragnhildi.

„Já, þegar Skarpi dagskrárstjóri sagði mér frá hugmyndinni, að ég yrði með Ragnhildi í settinu, þá leið næstum yfir mig. Ég svitnaði á núll einni og varð spenntur, glaður og stressaður á sama tíma áður en ég gat náð að segja já,“ segir hann.

Sterkari saman

Hafsteinn er verkefnisstjóri UngRÚV og það er í nógu að snúast.

„Við erum að gera Heimavistarþættina, ég, Sigyn Blöndal og Sævar Helgi Bragason, en þeir eru að fá alveg frábærar móttökur. Svo erum við með í kortunum að hafa rafræna opnun félagsmiðstöðva á UngRÚV.is, þar sem ég veit að er verið að halda úti dagskrá á samfélagsmiðlum.“

Sjálfur tekur Hafsteinn þessum flóknu tímum með stóískri ró, í bili.

„Það er leiðinlegt að segja það þegar margir eru að standa í hetjulegri baráttu við veiruna, en ég get ekki kvartað sjálfur. Ég er að gera spennandi verkefni í vinnunni og ég fæ að eyða meiri tíma með konu og barni,“ segir hann.

Hann segist sjálfur ætla að halda í bjartsýnina og vonar að aðrir reyni sitt besta að gera slíkt hið sama.

„Reynum fyrir alla muni að finna allt það jákvæða sem við getum gert í þessu ástandi, notum tækifærið og hlúum að okkur sjálfum og þeim sem standa okkur næst. Prófum eitthvað sem okkur hefur alltaf langað að prófa. hlustum, lærum og leikum, höldum tveggja metra reglunni, hlýðum Víði og stöndum saman; við erum sterkari þannig.“

Þátturinn er sýndur á RÚV í kvöld klukkan 19.35.