Opið haf er af svipuðu tagi og síðustu bækur Einars Kárasonar, Stormfuglar og Þung ský. Hún er aðeins styttri en stíllinn er hófstilltur og allar þrjár fjalla um hetjuskap, líf og dauða. Til grundvallar liggur fræg saga af sundi Guðlaugs Friðþórssonar frá Vestmannaeyjum. Báturinn sökk í ískaldan sjó, 6–7 kílómetra frá landi og hann bjargaði sér á sundi, náði landi á Heimaey, sá eini sem lifði sjóslysið af. Sú saga hefur áður verið sögð með ýmsum hætti.
Bátnum hvolfir snöggt. Skipverjar komast á kjöl, öryggisbúnaður bregst og þeir ákveða að synda til lands. Hinn kosturinn í stöðunni hefði verið að troða marvaðann í ísköldum sjó og bíða endalokanna. Meirihluti þeirrar sögu sem Einar skrifar gerist á sundi. Sjónir okkar beinast að söguhetjunni og við vitum hvað fer í gegnum huga hans. Sagan er sögð í þriðju persónu sem er snjallt. Frásögnin þarf á þeirri fjarlægð að halda sem fæst með því að setja sögumann á milli höfundar og aðalpersónu.
Vel þekktur söguþráður
Hver er hetja og hver ekki? Það er hetjulegt að synda tæpa sjö kílómetra í köldum sjó og ganga til viðbótar nokkra kílómetra berfættur í hraungrýti. Einar segir söguna með tilþrifum en söguþráðurinn er auðvitað vel þekktur. Hvaðan kemur þessum sjómanni sá kraftur sem gerir hann að hetju og bjargar lífi hans?
Meginandstæður frásagnarinnar birtast annars vegar í fyndinni og hressilegri sögu af dansleik í Vestmannaeyjum sem haldinn er áður en lagt er í hina örlagaríku og sorglegu sjóferð. Hið glaðværa og spaugilega félagslíf í landi fær þar að njóta sín og myndar andstæðu við örlög skipverja. Önnur andstæða birtist í hugsunum aðalpersónunnar á sundinu. Hversdagslífið er sundgarpinum efst í huga og það bægir hinum skelfilegu aðstæðum frá honum. Hann er nýbúinn að semja um kaup á mótorhjóli og á að mæta með greiðsluna á umsömdum stað og stundu. Hann vill ekki klikka á því. Hann talaði hryssingslega til vinar síns áður en hann fór á sjóinn og vill gera gott úr því. Honum er líka þvert um geð að valda foreldrum sínum sorg.
Sundgarpurinn sterki gerir það sem gildi hans og sjálfsvirðing krefjast af honum. Þess vegna er sagan Opið haf nútíma Íslendingasaga.
Nútíma Íslendingasaga
Fleiri dæmi mætti nefna en það sem máli skiptir er að maðurinn tekur líf sitt alvarlega og virðir umhverfi sitt. Þaðan kemur honum lífsvilji og löngun til þess að sigrast á aðstæðum sem virðast óyfirstíganlegar. Auðvitað hefði það dugað skammt ef líkamsburðirnir hefðu ekki verið til staðar, en þeir hefðu sennilega orðið til lítils ef ekki hefði verið þessi rótfasta virðing fyrir eigin lífi og annarra. Sundgarpurinn sterki gerir það sem gildi hans og sjálfsvirðing krefjast af honum. Þess vegna er sagan Opið haf nútíma Íslendingasaga.
Niðurstaða: Falleg Íslendingasaga úr nútímanum, um mann sem er hetja vegna þess að hann ber virðingu fyrir sjálfum sér og sínum nánustu, og hefur fágæta líkamsburði.