Opið haf er af svipuðu tagi og síðustu bækur Einars Kára­sonar, Storm­fuglar og Þung ský. Hún er að­eins styttri en stíllinn er hóf­stilltur og allar þrjár fjalla um hetju­skap, líf og dauða. Til grund­vallar liggur fræg saga af sundi Guð­laugs Frið­þórs­sonar frá Vest­manna­eyjum. Báturinn sökk í ís­kaldan sjó, 6–7 kíló­metra frá landi og hann bjargaði sér á sundi, náði landi á Heima­ey, sá eini sem lifði sjó­slysið af. Sú saga hefur áður verið sögð með ýmsum hætti.

Bátnum hvolfir snöggt. Skip­verjar komast á kjöl, öryggis­búnaður bregst og þeir á­kveða að synda til lands. Hinn kosturinn í stöðunni hefði verið að troða mar­vaðann í ís­köldum sjó og bíða enda­lokanna. Meiri­hluti þeirrar sögu sem Einar skrifar gerist á sundi. Sjónir okkar beinast að sögu­hetjunni og við vitum hvað fer í gegnum huga hans. Sagan er sögð í þriðju per­sónu sem er snjallt. Frá­sögnin þarf á þeirri fjar­lægð að halda sem fæst með því að setja sögu­mann á milli höfundar og aðal­per­sónu.

Vel þekktur sögu­þráður

Hver er hetja og hver ekki? Það er hetju­legt að synda tæpa sjö kíló­metra í köldum sjó og ganga til við­bótar nokkra kíló­metra ber­fættur í hraun­grýti. Einar segir söguna með til­þrifum en sögu­þráðurinn er auð­vitað vel þekktur. Hvaðan kemur þessum sjó­manni sá kraftur sem gerir hann að hetju og bjargar lífi hans?

Megin­and­stæður frá­sagnarinnar birtast annars vegar í fyndinni og hressi­legri sögu af dans­leik í Vest­manna­eyjum sem haldinn er áður en lagt er í hina ör­laga­ríku og sorg­legu sjó­ferð. Hið glað­væra og spaugi­lega fé­lags­líf í landi fær þar að njóta sín og myndar and­stæðu við ör­lög skip­verja. Önnur and­stæða birtist í hugsunum aðal­per­sónunnar á sundinu. Hvers­dags­lífið er sund­garpinum efst í huga og það bægir hinum skelfi­legu að­stæðum frá honum. Hann er ný­búinn að semja um kaup á mótor­hjóli og á að mæta með greiðsluna á um­sömdum stað og stundu. Hann vill ekki klikka á því. Hann talaði hryssings­lega til vinar síns áður en hann fór á sjóinn og vill gera gott úr því. Honum er líka þvert um geð að valda for­eldrum sínum sorg.

Sund­garpurinn sterki gerir það sem gildi hans og sjálfs­virðing krefjast af honum. Þess vegna er sagan Opið haf nú­tíma Ís­lendinga­saga.

Nú­tíma Ís­lendinga­saga

Fleiri dæmi mætti nefna en það sem máli skiptir er að maðurinn tekur líf sitt al­var­lega og virðir um­hverfi sitt. Þaðan kemur honum lífs­vilji og löngun til þess að sigrast á að­stæðum sem virðast ó­yfir­stígan­legar. Auð­vitað hefði það dugað skammt ef líkams­burðirnir hefðu ekki verið til staðar, en þeir hefðu senni­lega orðið til lítils ef ekki hefði verið þessi rót­fasta virðing fyrir eigin lífi og annarra. Sund­garpurinn sterki gerir það sem gildi hans og sjálfs­virðing krefjast af honum. Þess vegna er sagan Opið haf nú­tíma Ís­lendinga­saga.

Niðurstaða: Fal­leg Ís­lendinga­saga úr nú­tímanum, um mann sem er hetja vegna þess að hann ber virðingu fyrir sjálfum sér og sínum nánustu, og hefur fá­gæta líkams­burði.