Seint á 19. öld og snemma á þeirri 20. trúðu norskir læknar því að salt örvaði taugakerfið og kalt vatn hraðaði efnaskiptum. Þeir skikkuðu fólk því í sjóböð til lækninga eins og þeir töldu þörf á. Kristine Lillestøl hefur rannsakað þessa læknisfræði fyrir Óslóarháskóla og fjallað var um fyrirbærið á vefnum ScienceNorway.no.

„Sjóbað ætti að vera stutt, yfirleitt bara örfáar mínútur. Eftir baðið á að þurrka sér hratt, klæða sig og svo stunda hreyfingu,“ skrifaði læknirinn Peter Andreas Munch Mellbye árið 1903. Hann var einn af mörgum norskum læknum frá þessum tíma sem töldu sjóböð virka sem lækningameðferð.

Dr. Ingebrigt Christian Lund Holm gerði lista yfir sjúkdóma sem sjóböð virkuðu gegn árið 1886. Böðin áttu að hjálpa fólki sem var veikburða eftir alvarleg veikindi, með hægvirkt taugakerfi, blóðleysi sem tengdist ekki þyngdartapi, andlega ofreynslu, móðursýki, berkla í eitlum, veika húð, gigt og tilhneigingu til að fá kvef.

En þó að sjóböð ættu að hafa styrkjandi áhrif þurftu sjúklingar að vera í ágætu ásigkomulagi til að þola þau. Þar sem kalda vatnið var talið örva efnaskipti var það ekki talið henta öllum og læknar töldu líka að saltið gæti haft of mikil örvandi áhrif á suma sjúklinga.

Klöppuðu marglyttum

Það er erfitt að segja hversu vel meðferðirnar í þessum heilsulindum virkuðu en svo virðist sem margir sjúklingar hafi náð bata. Læknar höfðu þó mjög takmarkaðar aðferðir til að mæla áhrif meðferða sinna. Engu að síður nýttu þeir þær aðferðir sem þeir höfðu og skráðu vandlega hjá sér ýmsar mælingar.

Í einni af þessum heilsulindum gekk meðferðin út á mun meira en bara sjóböð. Þar var boðið upp á nudd og líkamsrækt og frekar strangt mataræði, þannig að meðferðin snerist að miklu leyti um reglusemi og góða lifnaðarhætti. Læknarnir vissu í rauninni ekki hvað hafði virkað þegar fólk náði bata.

Í heilsulindinni sem var stofnuð í Sandefjord árið 1837 stundaði fólk meðal annars að klappa marglyttum og drekka og synda í brennisteinsríku vatni. mynd/GETTY

Í heilsulindinni í Sandefjord var boðið upp á meira framandi meðferðir. Þar stundaði fólk að klappa marglyttum, synda í fínkornaðri leðju af hafsbotni og bæði drekka og synda í vatni sem var ríkt af brennisteini. Þessar meðferðir voru hugarfóstur dr. Heinrich Arnold Thaulow sem stofnaði heilsulindina árið 1837 og var frumkvöðull í baðlækningum í Noregi.

Margar heilsulindir voru opnaðar í Noregi á síðari hluta 19. aldar, en samt sem áður vöruðu sumir læknar við hættunni af þessum lækningum og ávíttu foreldra sem leyfðu börnum sínum að synda mikið í sjónum því þau höfðu heyrt að það væri hollt.

Sjóböð, sól eða lífsstíll?

Sjóböð hafa aðra stöðu í dag, þó að fólk sem stundar þau sé sammála um að þau bæti líðan. Lillestøl bendir samt á að sumar meðferðir frá þessum tíma séu enn í notkun og að sjúklingum í Noregi sé boðið upp á meðferðir sem eru svipaðar þeim sem buðust í heilsulindum á þessum tíma.

Fullorðnu fólki með húðsjúkdóminn psoriasis og börnum og ungu fólki með ofnæmisexem er boðið upp á meðferðir í hlýrra loftslagi, segir húðlæknirinn Teresa Løvold Berents, sem stundar rannsóknir við háskólasjúkrahúsið í Ósló. „Þeim er til dæmis boðið upp á þriggja vikna meðferðar-ferð með strangri dagskrá sem inniheldur sund og sólböð,“ segir hún. Hollt mataræði, líkamsrækt, menntun og þjálfun eru líka mikilvægir hlutar af meðferðinni.

Það eru til nokkrar norskar rannsóknir sem hafa sýnt að þessar meðferðir bæði hjálpi fólki líkamlega og bæti lífsgæði þeirra. En það er ekki á hreinu hvort sjóböðin sjálf hafi einhver áhrif. Berents bendir á að það gæti vel hafa verið sólin sem hjálpaði fólkinu í heilsulindunum í gamla daga. Það gæti líka einfaldlega verið að góð hvíld, góð næring og heilbrigðir lífshættir hafi verið það sem hjálpaði þessu fólki að öðlast bót meina sinna.