Sjö breskar borgir keppast nú um að halda Eurovision á næsta ári. Borgirnar sem um ræðir eru Birmingham, Glasgow, Leeds, Liverpool, Manchester, Newcastle og Sheffield en alls voru tuttugu borgir sem lýstu yfir áhuga og voru sem dæmi á meðal þeirra bæði Belfast og London.

Í dag var birtur skammlisti [e. Shortlist] yfir þær borgir sem koma til greina til að hýsa keppnina sem ákveðið var að færi fram í Bretlandi eftir að ljóst var að hún gæti ekki farið fram í sigurlandi Úkraínu vegna stríðsins. Sam Ryder, sem keppti fyrir hönd Bretlands í ár lenti í öðru sæti í keppninni sem fór fram á Ítalíu.

Fram kemur á vef BBC að borgirnar sem eru á listanum hafi verið valdar með tilliti til getu þeirra, rými og reynslu á að halda viðburð af slíkri stærð. Þá var einnig litið til þess hvort væri tónleikahöll í borginni sem gæti hýst viðburðinn, til fjárhags borgarinnar, til getu þeirra til að sýna og styrkja einnig úkraínska menningu og hversu vel þær falla að markmiðum sem ríkisfjölmiðils.

Þar kemur einnig fram að þótt svo að London hafi uppfyllt margar af þeim kröfum sem eru settar fram þá sé verið að reyna að flytja stærri viðburði úr höfuðborginni. Aðrar borgir sem ekki náðu á skammlistann eru Aberdeen, Brighton, Bristol og Darlington.

Nánar hér á vef BBC.