Yusif Þór Bonnah er sjö ára strákur sem elskar fátt meira en fótboltann. Hann byrjaði að æfa þegar hann var aðeins tveggja ára gamall. Hann stendur nú fyrir söfnun á fótboltaskóm og vatnsflöskum fyrir börn í Kenía. Allt var þetta gert að hans eigin frumkvæði og söfnunin fer vel af stað. Mamma hans, Linda Björg Magnúsdóttir sjúkraliði og svæðanuddari, segir að Yusif hafi alltaf verið uppátækjasamur og fljótt ljóst að hann væri með hjarta úr gulli.

Það var í nógu að snúast hjá Lindu þegar blaðamaður náði á mæðginin.

„Ég átti fjóra stráka á sjö árum. Yngsti er í leikskóla. Þannig að það er nóg að gera,“ segir hún og hlær.

Yusif Þór byrjaði að æfa fótbolta þegar hann var aðeins 2 ára gamall.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Byrjaði tveggja ára

Hún lýsir Yusif sem algjörum sjarmör, klárum dreng, hjartahlýjum, gjafmildum og vinamörgum. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og segir Linda að ef hann fengi að ráða væri hann spilandi fótbolta allan liðlangan daginn.

„Ég byrjaði að æfa fótbolta þegar ég var tveggja ára. Í fótboltanum finnst mér skemmtilegast að sóla. Mig langar að verða atvinnufótboltamaður í framtíðinni,“ segir Yusif Þór.

Yusif Þór fékk hugmyndina að söfnuninni þegar hann heyrði vinkonu Lindu, móður hans, tala um fátæk börn í Afríku, sem áttu meðal annars ekki fótboltaskó þrátt fyrir að stunda íþróttina.

„Þá sagði ég við mömmu: Ég á sko fullt af skóm mamma, ég gef þeim mína,“ segir Yusif Þór. Linda segir að sonur hennar hafi í kjölfarið rokið út um allt hús í leit að skóm. Hann hafi náð að fylla ganginn af fótboltaskóm af sér og bræðrum sínum á engum tíma.

Yusif Þór og Linda leita nú að einhverjum skemmtilegum útgefanda fyrir bókina FótboltaÁstríða.
Mynd/Aðsend

Gott að gleðja

Linda Björg á marga góða vini í og frá Kenía. Yusif Þór fékk að spjalla við fótboltaþjálfara og börn þar í landi í gegnum myndbandsspjall.

„Eftir spjallið sagði hann við mig: „Mamma, fáum þau bara til okkar. Þau sem eiga ekki mömmu og pabba, þau geta bara búið hjá okkur.“ Ég spurði hann auðvitað hvernig við ættum að koma þessum börnum fyrir. „Við setjum bara dýnur út um allt gólf, þá er pláss fyrir alla.“ Ég reyndi þá að útskýra að það væri kostnaðarsamt að koma þeim til landsins. Þá kom hann með hugmyndina að gefa út bók,“ segir Linda, sem sjálf átti svipaða drauma þegar hún var á sama aldri.

„Á þeim tíma gat ég lítið gert en þessi tilfinning fór aldrei. Ég varð móðir ung og eignaðist börn sem ég er afar stolt af. Fyrir nokkrum árum kynntist ég Maflour og kærleiksverkefni hennar sem heitir Loving Act. Hún hefur staðið fyrir mögnuðum hlutum. Það er svo æðislegt að sjá fólk brosa.“

Nú í vor er því von á bók frá Yusif Þór þar sem hann skrifar um ástríðu sína fyrir fótboltanum.

„Margir krakkar þarna úti fara að vinna til að styðja fjölskylduna vegna fátæktar. Fótboltinn hefur hjálpað krökkunum mjög mikið og styrkt fjölskylduböndin. Foreldrar hafa stundum komið og horft á og jafnvel hvatt börnin áfram, sem er mjög eflandi fyrir þau. En að lifa í mikilli fátækt er mjög niðurdrepandi fyrir alla foreldra. Að sjá von, jákvæðni, umhyggju og skilning getur skipt sköpum,“ segir Linda.

Hægt er að leggja Yusif Þór lið með því að gefa fótboltaskó eða vatnsbrúsa í söfnunina. Hægt er að komast í samband við mæðginin á Facebook-síðunni FótboltaÁstríða.

Yusif Þór er vinamargur eins og mamma hans Linda segir. Hann vildi endilega fá vini sína með í myndatökuna, en fyrir algjöra tilviljun kom knattspyrnuhetjan Gunnleifur Gunnleifsson í Fífuna og sat fyrir með strákunum, þeim til mikillar gleði.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari