Bókin Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt) Frásögn um ást og geðveiki og huggun fjallar um Védísi, unga einstæða móður sem missir föður sinn skyndilega og vitið í kjölfarið. „Þetta er svona sjálfsævisögulegt og byggt á minni sögu en ég nota samt aðferðir skáldskaparins,“ segir Elísabet Jökulsdóttir um þessa nýjustu bók sína.

„Ég breyti nöfnum og ef ég hefði notað fyrstu persónu fornafnið „ég“ þá held ég að þetta hefði orðið svolítið leiðinlegt, skilurðu? Og svona einhver kannski þúsund blaðsíðna ævisaga en af því að þetta er skáldsaga þá verður þetta bara svona stutt, hnitmiðað og af því að þetta er skrifað sem skáldsaga en er einhvern veginn svona alveg á mörkunum þá víbrar þetta í ljósaskiptunum.“

Sagan brýst fram

Elísabet segist hafa gert ýmsar atrennur að þessari sögu í tíu ár. „Af því að ég veiktist á geði og mig langaði svo að vita út af hverju þá fór ég að skrifa bók en það gekk aldrei neitt þangað til einn daginn þá bara settist ég niður og gafst upp og þá kom þessi hugsun: Skrifaðu bara söguna eins og hún var,“ segir Elísabet.

„Og ég settist bara niður og þá kom sagan og var bara tilbúin í höfðinu á mér. Eftir þessi tíu ár þá hafði hún aldrei fengið að brjótast fram af því að ég var alltaf að reyna að hafa þetta svo fullkomið og setja þetta í eitthvert form.“

Elísabet segir aðspurð að vissulega hafi verið léttir að skrifa söguna og jafnvel enn frekar að koma henni út. „Annars er þetta bara búið og mjög fínt að þetta skuli vera komið út og mikill léttir sem fylgir því og einhvers konar sátt við að hafa veikst á geði og geta bara skrifað það þannig að fólk viti af því.

Mér finnst alveg merkilegt hvað fólki finnst þetta grátlegt og sorglegt. Þetta ferðalag hennar af því mér finnst það svona eftir á pínu fyndið sko. Eða ekki fyndið. Heldur svona kómískt.

Glíman við geðveikina

Þetta er svo skrítið af því mér fannst þetta einhvern veginn, þegar frá líður, voða eðlilegt að veikjast svona á geði og ganga um göturnar og vera rekin áfram af einhverju afli sem hefur tekið sér bólstað í Védísi og hún trúir að sé Guð og Guð hafi útvalið hana af öllum manneskjum á jörðinni til þess að frelsa heiminn,“ segir Elísabet og heldur áfram:

„En ég er bara rosa ánægð ef ég hef getað lýst því þannig að það væri líka sorglegt. Vegna þess að það er svo erfitt að lýsa geðveiki og ég hef svo oft reynt að lýsa geðveiki með einhverjum hugleiðingum og pælingum en þarna lýsi ég henni meira utan frá. Þessu ferðalagi.

Hvernig hún ferðast þarna milli staða endalaust og það er eins og það gefi dýpri skilning á geðveiki heldur en ef maður er með einhverjar svona pælingar og hugleiðingar um þetta allt og að reyna að skrifa hvað sé að gerast í höfðinu á manni.“

Hausinn á yfirsnúningi

Elísabet segir að fyrir utan stöku eyður þá muni hún vel, sérstaklega eftir á, eftir bálinu sem geisaði í huga hennar þegar hún var í geðrofinu. „Ég man líka þessa þjáningu þegar hausinn á manni fer á yfirsnúning og maður getur ekki stoppað á sér hausinn.

Og þetta var 1979 og svo 1997 fer ég í ennþá hræðilegri maníu þar sem það kom til mín einhver ofsjón, eða svona hugarsýn, sem sagði mér að ef ég færi ekki niður á Austurvöll og dansaði nakin þá mundu þau taka elsta son minn frá mér og ég náttúrlega, þú veist, trúði þessu og gerði það. Þannig að þetta er bara skelfileg veiki. Að vera rekin áfram af einhverju afli sem er geðveiki en kallar sig eitthvað annað.“

Bókin er tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunana á þessu ári.

Ástin og geðveikin

Elísabet segir að vissulega sé bókin einhvers konar uppgjör en ekki endilega við föður hennar, móður eða hana sjálfa. „Þetta er kannski meira svona uppgjör kannski við ástina og geðveikina. Og já. Auðvitað er þetta uppgjör. Ég er bara að segja sögu. Ég er bara að segja sögu af þessari stelpu sem flæktist um í heiminum og ég áttaði mig líka á að ég er að mörgu leyti búin að taka 40 ár í að syrgja pabba minn. Og nú er það búið með útgáfu þessarar bókar,“ segir Elísabet og staldrar við eina af ótal þversögnum sögu sinnar.

„Samt hefur lífið verið miklu stórkostlegra heldur en mig nokkurn tímann óraði fyrir. Þetta er ekki eitthvað eitt. Þetta er svo mótsagnakennt. Alveg eins og það er blessun að hafa veikst af geðhvörfum til að geta sagt söguna af því og til að geta kynnst því og miðlað til annarra og hjálpað öðrum og líka fatta að þetta er ættgengt.

Þetta er bara sjúkdómur sem leysist úr læðingi við þetta rosalega áfall sem að sumu leyti hefur hindrað mig í lífinu og að komast þangað sem ég vil komast en líka blessun og Guð bara gaf mér nokkur áföll til þess að skrifa um. Þarna fékk ég strax þegar ég er tvítug efni til að skrifa um þó að það hafi tekið svona langan tíma.“

Nýjasta geðveikin

Í dramatískasta hluta bókarinnar sviptir móðir Védísar hana sjálfræði og Elísabet segist eftir á að hyggja telja að móðir hennar hafi gert rétt með því láta á sínum tíma flytja hana nauðuga á geðdeild.

„Ég held að ég hefði kannski bara orðið krónískur geðsjúklingur ef mamma hefði ekki tekið í taumana. Ég hrökk þarna við og þetta stoppaði mig að einhverju leyti. Ég fór að vísu í mjög mikið þunglyndi eftir þetta og hausinn á mér var svona bleksvartur af skömm yfir að hafa veikst á geði,“ segir Elísabet og bætir við að hún verði enn að passa sig á þessari skömm.

„En ég held hún komi líka frá samfélaginu. Eins og verið er að benda á núna í sambandi við einelti að þá er þetta ekki bara gerandinn eða þolandinn heldur líka þessi eineltismenning og ég held að það sé svona skammarmenning sem getur verið erfitt að uppræta,“ segir Elísabet um hliðstæðuna sem hún sér í geðheilbrigðismálunum.

„Ég meina. Fyrir tuttugu árum þá voru kannski meiri fordómar gagnvart geðveikum en fólk mátti líka vera skrýtið. Nú eiga allir að vera að vinna í sjálfum sér alveg á fullu og ef menn eru ekki að vinna í sjálfum sér þá kemur líka skömm, skilurðu? Það er eins og það sé alltaf verið að leita að einhverri skömm.

Við máttum kannski vera pínulítið skrýtin en það má enginn vera skrýtinn í dag, þú veist. Af því hann á bara að vera rosa duglegur að taka lyfin og það er bara ekkert alltaf hægt sko. Að vera duglegur að vinna í sjálfum sér. Það er svona nýjasta svipuhöggið. Nýjasta geðveikin,“ segir Elísabet og hlær prakkaralega.