Eitt af áhugamálum Tinnu er að taka ljósmyndir, vinna með uppsetningu og stílisera umhverfið. Hafa ljósmyndir hennar vakið verðskuldaða athygli enda oft mikil vinna að baki þegar kemur að uppsetningu og stíliseringu. Tinna er markaðsmanneskja og leikkona og vinnur við hvoru tveggja. Hún vinnur sem sölu- og markaðsstjóri hjá Provision og hefur líka verið að leika, síðast í þáttaseríunni Systraböndum.

„Í frítímanum finnst mér gaman að taka myndir og vinna með setup-ið á sama tíma en Instagram er skemmtilegur vettvangur fyrir það,“ segir Tinna og bætir því við að hún sé mjög dugleg að pósta myndum á Instagram-reikning sinn. Aðspurð segir hún að þegar kemur að því að segja frá fatastílnum sé það enginn einn stíll.

Tinna klæðist hér töffaralegum vintage jakka sem passar einstaklega vel við ljósbláu skyrtuna og buxurnar. Bláu pinnahælarnir setja punktinn yfir i-ð. Jakki: Vintage búð í París.

„Fatavalið fer alveg eftir skapinu hjá mér. Strigaskór og þægileg peysa er klassík á mánudegi. Síðan þegar nær dregur helgi fer ég kannski í hæla. Ég er nú samt þekkt fyrir að vera mikil „tomboy“-stelpa. Ég horfi frekar öðruvísi á föt í dag og ég passa mig á því að kaupa minna og nýta lengur. Við þurfum að hugsa um hvar öll þessi föt enda og hvernig fatakaup hafa áhrif á umhverfið.“

Fer oft í búningaleik með fötin sín

Þegar Tinna er spurð hvort hún hafi ávallt haft mikla skoðun á því hverju hún klæðist, segir hún svo ekki vera, því móðir hennar hafi stýrt því í fyrstu. „Mamma var rosa mikið að klæða mig í sterka liti þegar ég var lítil. Þegar ég fór að klæða mig sjálf tók við tímabil þar sem svarti liturinn réði ríkjum. Ég sé samt að fatastíllinn minn hefur breyst með aldrinum. Eins og maður sjálfur í raun. Ég á til að mynda flísbuxur sem ég hefði brennt í gamla daga en í dag elska ég þær. Það er líka skemmtilegt að áhugamál mitt gefur mér tíma til leika mér með fötin sem ég á. Ég djóka oft með fötin mín; er í raun bara miðaldra kona í búningaleik.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum í dag með einni setningu?

„Þægilegur, einfaldur, smekklegur og kannski smá svalur.“

Tinna er á því að hugarástand geti líka skipt máli þegar kemur að því að fíla sig í flíkinni sem maður er í hverju sinni. „Ég held að sjálfstraust geti gert ljóta flík að gulli.“

Kósí-stíllinn klæðir Tinnu vel og græni liturinn á peysunni kemur vel út. Takið eftir Tom Ford-gleraugunum sem eru svo smart.

Persónuleikinn skín í gegn

Tinna segist fyrst og fremst vera hrifnust af sniðum sem passa fyrir hennar vaxtarlag. „Þegar kemur að sniðum vil ég að þau passi mínum vexti en í dag máttu í raun klæða þig eins og þú vilt. Það er svo fallegt þegar persónuleiki skín í gegnum klæðnaðinn hjá fólki.“

Tinna hefur gaman af því að fara á vintage markaði og finnur þar oft flíkur sem eru einstakar. „Uppáhaldsflíkin mín er jakki sem ég keypti á vintage markaði í París. Þegar ég sá hann var beðið eftir því að ég legði hann frá mér. Þá vissi ég að ég væri með gæðaflík og sleppti auðvitað ekki jakkanum,“ segir Tinna og sér ekki eftir því að hafa nælt sér í þennan dýrindis jakka sem hún notar mikið.

Tinna er mætt í vetrarstílnum og ber vestið einstaklega vel. Ullarhúfan toppar heildarútlitið og á vel við veturinn.

Frábært þegar tískuhönnuðir vinna með ódýrum merkjum

Áttu þér þinn uppáhalds hönnuð?

„Nei, ég get nú ekki sagt það en ég fylgist með hvað er að gerast í stóru tískuhúsunum. Það er gaman að sjá að fleiri og fleiri fatahönnuðir vinna með ódýrari merkjum eins og til dæmis H&M og Balmain gerði 2015 en sú lína seldist upp strax.“

Hvaða tískuvörumerki heilla þig mest?

„Ralph Lauren er klassík. Tom Ford er flottur. Síðan er gaman að sjá merki sem voru í tísku þegar ég var fimmtán ára koma sterk inn í dag eins og Tommy Hilfiger, Fila og Champion. Ég bíð eftir að sjá Fruit of the Loom í öllum búðum.“

Tinna klæðist hér fallegri peysu frá H&M en hún hefur gaman af því að leika sér á myndum enda áhugamanneskja um ljósmyndun.

Fylgir þú tískustraumunum þegar kemur að litavali eða áttu þér þína uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Litaval hjá mér fer eftir árstíðum. Það er rosa gaman að fara í sumarliti eftir langan vetur og næs að fara í dekkri liti á haustin. Uppáhaldsliturinn minn er svartur. En ég reyni oft að vera í ljósu við hann. Svartar buxur og hvítur stuttermabolur. Og ef ég er í stuði hendi ég gulum jakka við.“

Tinna Björt hefur góðan smekk fyrir litum. Takið eftir skónum.

Hamingja í hvítum strigaskóm

Tinna elskar strigaskó og hvítir eru í sérstöku uppáhaldi. Tinna er því fljót að svara þegar hún er beðin um að lýsa skótískunni sem hún heillast af. „Nýir hvítir strigaskór veita mér hamingju. En ég á líka brún ökklastígvél sem ég nota mikið, þau passa við allt. Síðan eru það pinnahælar á góðum degi.“

Hvað finnst þér vera ómissandi að eiga þegar þú velur þér fylgihluti í dag?

„Ég hef gengið með hringi/hoops síðan ég setti 2pac-klút í hárið á mér í 8. bekk. Ég nota þá enn í dag og á kannski vandræðalega mikið af þeim. Þeir passa við allt. Síðan geta flott gleraugu gert mikið en ég er rosa ánægð með mín Tom Ford gleraugu sem ég fékk hjá Eyesland.“

Þeir sem vilja kíkja á það sem Tinna er að gera geta fylgst með henni á Instagram-reikningi hennar @tinnabg.

Faðir Tinnu, Guðjón Sigmundsson, eða Gaui litli, rekur Hernámssetrið, þar sem hægt er að leika sér.