Bókin The Trans Survival Workbook, eftir transaktífistana Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur og Fox Fisher, kom út í Bretlandi á mánudaginn, þremur árum eftir að þau gáfu út hina vinsælu Trans Teen Survival Guide, sem var ætlað að auðvelda ungu fólki að fóta sig í flóknum heimi kynjatvíhyggjunnar.

Ugla, sem er kynjafræðingur, hefur lengi verið framarlega í réttindabaráttu transfólks, ekki síst sem formaður Trans Ísland. Þau Fox búa saman í Brighton þar sem þau eru í skýjunum með útkomu nýju bókarinnar sem Ugla segir góða viðbót við fyrri bókina, þótt hún standi auðveldlega fyrir sínu ein og sér.

Listræn kynvitund

„Hún passar mjög vel samhliða fyrri bókinni sem var meira til upplýsingar og meiri texti,“ segir Ugla, um fyrri bókina og bætir við að hún hafi verið full af góðum ráðum og ráðleggingum.

„Hún var miklu meiri upplýsingaveita, en þessi bók sem við erum að gefa út núna er miklu meira dagbók eða vinnubók þar sem fólk getur gert alls konar æfingar,“ segir Ugla og nefnir til dæmis krossgátur og ýmiss konar íhugunaræfingar sem meðal annars skerpa kynvitundina.

Ugla Stefanía og Fox lögðu upp með að gera bókina sem þau hefðu viljað komast í þegar þau voru unglingar. „Vegna þess að það hefði hjálpar okkur ótrúlega mikið.“
Mynd/Sharon Kilgannon

Bókinni sé þannig, svo eitthvað sé nefnt, ætlað að hjálpa fólki að kynnast sjálfu sér og halda jafnvel utan um kynleiðréttingarferlið ef svo ber undir.

„Nálgunin er aðeins meira listræn og þetta er miklu persónulegra, þannig að fólk getur kannski kannað kynvitund sína á listrænan og öðruvísi hátt,“ segir Ugla.

Eitthvað fyrir öll

„Bókin er í rauninni fyrir alla sem hafa áhuga á að kanna eða kynnast sjálfum sér og kannski kyni sínu aðeins betur,“ heldur Ugla áfram og bendir á að hún telji í raun alla geta notið góðs af bókinni.

„Í rauninni fjallar þetta kannski bara um hvernig við upplifum kyn okkar, hvernig við tjáum kyn okkar, hvernig okkur líður best og alls konar annað. Þannig að ég myndi segja að þetta væri í raun fyrir alla. Sama á hvaða stigi þau eru í sínu ferðalagi eða hvort þau eru trans eða ekki.“

Ugla bendir einnig á að saman séu bækurnar, og þá sérstaklega sú fyrri, frábær leið fyrir foreldra og aðstandendur transfólks til þess einfaldlega að kynna sér hvað það er að vera trans. „Þarna er mikið af upplýsingum um hvað það er að vera trans, um kynvitund og fornöfn og alls konar annað sem fólk er alltaf að velta fyrir sér.“

Transaktíft samband

Ugla og Fox kynntust á ráðstefnu á Ítalíu 2016 og hún flutti í kjölfarið til Bretlands. „Þannig byrjaði samband okkar og samstarf líka, því við höfum verið að vinna ótrúlega mikið saman að alls konar verkefnum tengdum transaktífisma og þessar bækur eru svolítill hluti af því.

Við náttúrlega lifum og hrærumst í þessum heimi, þekkjum ótrúlega mikið til og vitum hvað það er sem fólk er að spá og er að velta fyrir sér og við reynum að koma öllu til skila á mjög greinargóðan og einfaldan hátt, vegna þess að það er ótrúlega mikið af misvísandi upplýsingum þarna úti.“

Ugla segir aðspurð að góðar viðtökur fyrri bókarinnar hafi verið þeim Fox hvatning til að halda skrifunum áfram. „Trans Teen Survival Guide gekk mjög vel og fór mjög hátt á metsölulistum í þessum flokkum. Þannig að okkur fannst líka tilvalið að gera svona aðeins listrænni bók þar sem fólk getur kannað kynvitund sína.“

Tilvalin fyrir Piers Morgan

Ugla segir þau strax finna góð viðbrögð við bókinni. „Fólk er bara mjög ánægt eins og er og hún er að seljast vel, þannig að við erum bara mjög ánægð og spennt.“

Frægt varð þegar Uglu og orðhákinum Pierce Morgan lenti saman fyrir nokkrum árum, þegar þau Fox ræddu málefni kynsegin fólks í sjónvarpsþættinum Good Morning Britain.

Ugla telur aðspurð litlar líkur á því að Morgan sé búinn að verða sér úti um eintak af bókinni. „Það er samt spurning hvort við sendum honum eina. Það væri náttúrlega alveg tilvalið fyrir hann að fá sér eintak,“ segir Ugla og hlær.