Bækur
Um tímann og vatnið
★★★★1/2

Andri Snær Magnason
Útgefandi: Mál og menning
Blaðsíður: 320

Við lifum sérstaka tíma. Tíma þar sem heimurinn breytist á áður óþekktum hraða, þar sem mennirnir hafa farið fram úr sjálfum sér í framförum og keyra á fullu stími fram af þolmörkum jarðarinnar. Vísindamenn hafa áratugum saman reynt að leiða okkur fyrir sjónir hvert stefnir en við þrjóskumst við, neitum að gefa upp það sem okkur hefur verið talin trú um að séu þægindi og frelsi, forðumst að horfast í augu við staðreyndir sem eru of skelfilegar til að við afberum þær.

Í bókinni Um tímann og vatnið lýsir Andri Snær Magnason fundi sem hann átti við loftslagsvísindamann í Potsdam sem sagðist ekki eiga réttu orðin og brýndi hann sem orðsins mann til að segja frá loftslagsvandanum þannig að almenningur skildi. Í bókinni tekst Andri Snær það verkefni á hendur og útkoman er einstakt verk.

Ný sjónarhorn

Andri Snær er magnaður málsnillingur en stærsta skáldgáfa hans er að færa lesendum ný sjónarhorn, nýjar víddir og það gerir hann af einstakri list í þessari bók. Hann málar með tungumálinu skiljanlegar myndir af því sem er að gerast í heiminum, skýrir vísindahugtök sem tengjast loftslagsmálum, eins og súrnun sjávar, á skáldlegan og einfaldan hátt, fjallar um tímann með því að setja afa sína og ömmur í samhengi við sig og börnin sín, segir sögur af þeim heimi sem þau fæddust inn í, hvað hefur breyst og hvað hefur ekki breyst og hvað hefði ekki átt að breytast en breyttist samt.

Hann segir einnig á einfaldan en áhrifamikinn hátt frá því hvernig jöklar heimsins eru undirstaða lífs á fjölmörgum svæðum, tengir goðsögur um kýr við vísindi um vatn og samræður við Dalai Lama og nær að koma til skila skýrri og tærri heimsmynd sem er skiljanleg og vísindaleg í senn.

Og hann veltir fyrir sér framtíð þar sem heimurinn er kannski ekki alveg ónýtur en breyttur á óafturkræfan hátt og hvernig ekki bara umhverfið heldur líka tungumálið þarf að bregðast við því þegar orð passar ekki lengur við stað. „Getur stærsti skógur á Íslandi heitið Skeiðarársandur?“ (bls. 188)

Það er von

Um tímann og vatnið minnir um margt á aðra bók Andra Snæs, Draumalandið, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, og undirtitill þessarar bókar gæti verið Sjálfshjálparbók handa hræddum heimi. Heimurinn, sá hluti hans sem er upplýstur og skynugur, er stjarfur af hræðslu við loftslagsbreytingar, svo stjarfur að hann megnar ekki að bregðast við.

Þrátt fyrir raunsæjar lýsingar Andra Snæs á ástandinu og framtíðinni, verði ekkert að gert, blæs hann lesendum líka baráttuanda í brjóst, það er tækifæri og það er von en hún er háð því að við bregðumst við núna.

Báðar sækja bækurnar titla í íslenskan skáldskap og bókin gæti líka heitið Um tímann, vatnið og tunguna, þrenningu sanna og eina því hún fjallar ekki síst um mikilvægi tungumálsins og þess að eiga orð til að túlka og tjá, miðla upplýsingum en ekki síður tilfinningum, viðhorfi og von.

Í vikunni bárust þær fréttir að útgáfuréttur að bókinni Um tímann og vatnið hafi verið seldur til fjórtán landa um allan heim. Sem er vel. Þetta er bók sem allir í heiminum ættu að lesa.

Niðurstaða: Áhrifamikil og mögnuð bók, frábærlega skrifuð og sérlega mikilvæg.