Bolli í Stundinni okkar er hommi og sagði Bjöllu vinkonu sinni frá því þegar þetta kom óvænt upp í samtali þeirra í þættinum á sunnudaginn. Níels T. Girard, eða Nilli eins og hann er jafnan kallaður, leikur Bolla og segir í samtali við Frétta­blaðið að það hafi ekki verið nein sérstök ákvörðun að koma Bolla allt í einu út úr skápnum. Í raun hafi hann ekkert verið að því, heldur hafi þetta verið eðlilegt framhald af því sem áður hafði gengið á og komið fram.

„Þetta var engin á­kvörðun. Þetta var bara það sem það var. Hann var ekkert að koma út úr skápnum, þetta hafði bara aldrei borist í tal,“ segir Nilli en Bjalla býr með Bolla á skrifborði og hefur gert það í um hálft ár.

„Það hefur ekki komið til tals, hvorki um hann né hana. En Bjalla vissi til dæmis ekki hvað samkynhneigð er og eins sjálfsagt og það er að vera samkynhneigður þá hafa ekki allir þennan orðaforða. Hvað það er að vera samkynhneigður, hommi eða lesbía eða öll þau kyn sem eru til.“

Níels segir að við­brögðin við þættinum hafi verið tölu­verð og þó­ nokkur við því að Bolli hafi verið að koma út úr skápnum en að al­mennt hafi þau verið góð.

„Mér fannst við­brögð Bjöllu svo falleg og einlæg forvitni. Það er ekki hennar að vita hvað þetta er þótt Bolli hafi ekki skilið það. En hann fattaði svo af hverju hún gerði það ekki,“ heldur Nilli áfram. „Það er svo fyndið í þessu sam­fé­lagi að um leið og ein­hver heyrir að ein­hver sé eitt­hvað annað en við teljum hann eða hana vera þá stökkva allir á það.“

Bolli bendir Bjöllu á að það þurfi ekki að gera mikið mál úr þessu. Hann sé alveg eins og hann var áður.
Mynd/RÚV

Tækla alvarlega hluti

Níels segir að í þáttaröðinni hafi verið lögð áhersla á að setja alls kyns alvarlega hluti, eins og skilnað og dauða, í hversdagslegar aðstæður. „Þetta er eins hversdagslegt og hugsast getur en þetta er samt alltaf jafn átakanlegt.“

Agnes Wild, leik­stjóri þáttanna, tekur undir með Nilla. „Höfundarnir eru að tækla alls­ konar málefni á einlægan og sakleysislegan hátt og leyfa karakterunum að upplifa þetta og prófa að lifa og upplifa tilfinningarnar í þessu öllu,“ segir hún en meðal þess sem er farið yfir í þáttunum er hjónaskilnaður og að missa einhvern nákominn. „Við ákváðum að fókusa á mannleg málefni sem kannski eru ekki oft rædd í barnaefni en eru samt hluti af lífi okkar og lífi krakka.“

Agnes Wild leikstýrir þáttunum.
Mynd/Aðsend

Unnið með Samtökunum ’78

Agnes segir þættina hafa fengið ofsalega góð viðbrögð og sama gildi um þáttinn sem var sýndur á sunnudaginn. „Handritið var unnið í samstarfi við Samtökin ’78. Fræðslustjórinn las handritið yfir áður en við fórum í tökur til að tryggja að það væri farið með rétt mál og allt væri í lagi. Þau voru mjög ánægð og það er allt gott sem við höfum heyrt.“

Agnes segir að þeim hafi líka þótt mikilvægt að það væri ekki endilega verið að gera mikið mál úr þessu hjá Bolla eða verið að ávarpa það eitthvað sérstaklega.

„Það átti ekkert að gera mikið úr því að hann sé hommi,“ segir Agnes og minnir á að Bolli hafi bent Bjöllu á að hann væri ekkert öðruvísi en hann var áður.

Agnes segir að það sé fullt af krökkum sem eiga tvær mömmur eða tvo pabba og það sé mikilvægt að þetta sé rætt og börnum gefinn þessi orðaforði.

„Þarna eru orð sem eru til en heyrast ekki oft og ekki oft talað um. En þá er þetta vettvangur til að efla orðaforða. Þetta er sería sem fókusar á þessi erfiðu efni en er létt og skemmtileg. Nilli og Úa gera þetta svo vel og það hefur verið svo gaman að vinna með þeim því okkur er öllum svo annt um að þetta komist rétt til skila, og það sama á við handritshöfundana.“