Þar sem ferðalög hafa verið takmörkunum háð undanfarið af ástæðum sem flest þekkja, hafa helstu tískuviðburðir þurft að fara fram með mjög breyttu sniði síðasta eina og hálfa árið. Það er því ánægjulegt að sjá að tískuvikan í Kaupmannahöfn hefur verið nokkuð hefðbundin miðað við aðstæður.

Á tískuvikunni má sjá föt frá bæði þekktum nöfnum og nýjum upprennandi hönnuðum sem sýna nýjustu hönnun sína. Það sem aðgreinir tískuvikuna í Kaupmannahöfn sérstaklega frá öðrum tískuvikum, er að mikil áhersla er lögð á sjálfbærni og hvatt er til þess að tískuiðnaðurinn taki skref í átt að sjálfbærni. Mikil umræða hefur verið um slæm umhverfisáhrif tískuiðnaðarins, en sagt hefur verið að hann sé næst mest mengandi iðnaður heims á eftir olíu. Það liggur því í augum uppi að tískuhönnuðir og fataframleiðendur standa frammi fyrir miklum áskorunum til að framleiðslan verði í sátt við náttúruna.

Innblásin af hestum

Gestuz sýndi vor og sumarlínu sína fyrir árið 2022 á hefðbundinn hátt með áhorfendum í fyrsta sinn í langan tíma, en þó þannig að fremsta röðin var auð. Sanne Sehested, listrænn stjórnandi sýningarinnar, sagði í samtali við Harpers Bazaar að sýningin væri innblásin af þeirri frelsistilfinningu sem hún upplifir þegar hún er úti í náttúrunni innan um hesta. Reiðfatnaður hafði því áhrif á mörg snið og mynstur á sýningunni. Línan var að miklu leyti úr sjálfbærum efnum, eins og endurunnu pólýester og lífrænni bómull.

Vor og sumarlína Gestuz 2022 er innblásin af hestum og náttúru.

Soeren Le Schmidt er danskt tískumerki sem er sérstaklega þekkt fyrir föt sem danskar stórstjörnur og fleiri hafa skartað á rauða dreglinum. Hann var með sýningu á vor- og sumarlínu sinni á þriðjudag. Í nýjustu línunni lagði hann mikla áherslu á blöndun menningarheima og kynvitundar. Soeren Le Schmidt leggur alltaf mikla áherslu á sjálfbærni og notar mikið afgangsefni í hönnun sína og skapar líka eitthvað nýtt úr eldri hönnun. Hann framleiðir föt eftir pöntun til að minna verði um sóun á efnum.

Soeren Le Schmidt lagði áherslu á blöndun menn­ingarheima og kynvitundar á sýningu sinni.

Stine Goya er danskur hönnuður sem stofnaði merki undir eigin nafni árið 2006. Stine segist vilja valdefla konur sem nota fötin frá henni. Hún notast mikið við skæra liti og mynstur og segir tilfinninguna sem fylgir því að nota föt sem skera sig úr vera styrkjandi. Hún leggur áherslu á sjálfbærni og að vera gegnsæ í þeirri stefnu sinni. ■

Stine Goya notar mjög oft skæra liti og áberandi mynstur, sem draga að sér athygli, þegar hún hannar föt.
Stine Goya vill að konur upplifi vald­eflingu þegar þær nota fötin frá henni. Þessi eru úr nýju línunni.