„Við vöknuðum við þann furðulega raunveruleika fyrir sjö árum að það voru engir jólatónleikar á Akureyri. Þegar Baggalútur og allir nenntu ekki að koma hingað af því það var svo mikið að gera fyrir sunnan,“ segir tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson.

„Þá ákváðum við bara að telja í hérna í Hofi. Bara svona Norðlendingarnir, og það gekk svona líka glimrandi vel að við erum ennþá að gera þetta. Við höfum verið með svona þrenna til ferna tónleika á hverju ári og ég held við séum búin að reikna það út að þetta séu tuttugu tónleikar í allt. Mig minnir það,“ heldur Magni áfram.

Bríet, Ragga Gísla og Mugison eru aðkomugestirnir á tónleikunum í Hofi þetta árið.
Fréttablaðið/Samsett

„Þetta er svolítið fallegt. Þetta er heimilisiðnaðurinn. Það eru bara Norðlendingar að spila,“ segir Magni og bætir við að framan af hafi verið gerð krafa um að fólk hefði einhverjar tengingar við landshlutann til þess að fá að stíga á svið.

„En svo erum við búin með alla, þannig séð, þannig að við fórum að bjóða vinum okkar með þannig að það er einn og einn gestasöngvari.

Núna erum við með Bríeti og Röggu Gísla sem svona sérstaka gesti að utan. Og svo Mugison, sem ég hlakka gríðarlega til að sjá hvað við ætlum að láta syngja. Hann er kannski ekki vanastur að syngja jólalögin,“ segir Magni og hlær.

„Og svo eru það við Norðlendingarnir bara. Ég, Pálmi Gunnarsson og Óskar Péturs. Verðum við svo ekki að plögga miðasölunni? Þetta er það norðlenskt að hún er inni á mak.is. Þetta er allt innansveitar. Það er hangikjöt baksviðs og allt eins og það á að vera.“ ■