Við framleiðslu bómullar eru notaðir, samkvæmt greininni, 25.000 lítrar af vatni á hvert kíló. Einnig er notað hættulegt skordýraeitur við framleiðsluna og ýmis efnasambönd til viðbótar eru notuð til að búa til gallabuxur úr bómullinni.

Gallaefni fer í gegnum erfiða efnislitun og frágangsferli. Upphaflega var efnið litað með jurtalitum til að fá fram þennan einkennandi bláa lit. En í dag hefur jurtalitunum verið að mestu skipt út fyrir litarefni úr gerviefnum. Eftir litun er efnið ítrekað meðhöndlað og þvegið með ýmsum efnum, eins og bleikiefni, til að mýkja eða búa til áferð á efnið. Flestir vinsælustu gallabuxnastílarnir krefjast viðbótar efnameðferðar. Þær eru sýruþvegnar, snjóþvegnar og rifnar. Í heildina þarf gífurlegt magn af vatni og orku til að framleiða eitt par af gallabuxum og skapar það verulega mengun, samkvæmt upplýsingum frá náttúruverndarráði Bandaríkjanna.

Aðferðir til að fá rétta áferð á gallabuxur eru margar afskaplega óumhverfisvænar. Fréttablaðið/GETTY

Kröfur um sjálfbærni

Gallaefnaframleiðendur hafa fengið á sig mikla gagnrýni frá ýmsum hópum, allt frá umhverfisverndarsinnum til upplýstari kynslóðar neytenda. Fram að þessu hefur framboðið af vistvænum gallabuxum verið í minnihluta en framleiðendur finna fyrir auknum þrýstingi um sjálfbæra framleiðslu. Sjálfbær gallabuxnaframleiðsla hefur smátt og smátt minnkað vægi eiturefnameðhöndlunar, sem er skipt út fyrir nýstárlegar framleiðsluaðferðir með lítil umhverfisáhrif.

Ein augljósasta aðferðin við umhverfisvæna gallaefnisframleiðslu er uppvinnsla. Það er, að nýta úrgangsefni til að búa til nýjar vörur. Þó að það sé vandasamt fyrir stórar samsteypur getur það verið góður kostur fyrir minni fyrirtæki sem geta verið leiðandi í slíkri framleiðslu, segir í greininni á Fashion United. Þar er bent á að uppvinnsla á gömlu ónýttu gallaefni og endurnýting á gömlum gallabuxum, dragi úr sóun og skaðlegri efnameðferð.

Hefðbundnar aðferðir við þvott á gallaefni til að ná fram gömlu og slitnu útliti eru skaðlegar umhverfinu, eins og fram hefur komið. Nýjar lausnir fela í sér að nota ósonvélar, sem nota ósongas til að bleikja flíkur á náttúrulegan hátt. Officina +39 er sjálfbært, ítalskt efnafyrirtæki sem hefur verið leiðandi á þessu sviði. Fyrirtækið frumsýndi nýlega Oz-One Powder, meðferð sem gerir þvottahúsum kleift að aflita, sýruþvo og búa til sjúskað útlit á flíkum á umhverfisvænan hátt, sem er sambærilegur við óson, með því að nota hefðbundnar vélar án vatns.

Ný, umhverfisvæn aðferð til að ná fram notuðu útliti er komin í notkun.

Heimsfaraldurinn innblástur

COVID heimsfaraldurinn hefur orðið til þess að fólk hefur þurft að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt og finna nýjar lausnir á vandamálum. Hann hefur einnig verið innblástur fyrir nýja tískustrauma, meðal annars gallabuxur sem líta út fyrir að vera notaðar en útlitinu er náð með því að nota þær í raun og veru, eða með öðrum nýstárlegum aðferðum sem ná fram réttu útliti. Nýlega var fundin upp aðferð sem kallast Jecostone aðferðin. Hún var þróuð af ítalska fyrirtækinu Itexa Group í samstarfi við þvottasérfræðinga. Jecostone aðferðin notast við tvær vörur: gróft fjöltrefjateppi sem þekur tromluna í iðnaðarþvottavél og Jecorock, grófan púða sem er aðeins sjö sentímetrar í þvermál sem er laus inni í vélinni og vinnur á svipaðan hátt og vikursteinar.

Þessi þvottaaðferð vinnur á gallaefninu þannig að það fær á sig áferð sem líkist snjóþvegnum gallabuxum, sem voru vinsælar á 9. áratugnum. Stórir gallabuxnaframleiðendur hafa þegar tekið upp á því að nota þessa aðferð, þar á meðal Diesel sem notar Jecorock púðana í mest alla sína framleiðslu í Túnis. Þessi tækni er að breiðast út, en á dagskrá er að nýta allt afgangsefni og efni sem nýtist ekki lengur, til dæmis í slitlög á vegum og sem einangrun.