Spjallþáttastjórnandinn goðsagnarkenndi Jay Leno var útskrifaður af Grossmann Burn Center spítalanum í dag, tíu dögum eftir að hann gekkst undir aðgerð vegna alvarlegra brunasára í andliti.

Eins og fjallað var um á vef Fréttablaðsins í síðustu viku fékk Leno alvarlega áverka þegar það kviknaði í bíl í bílskúrnum hans í Los Angeles.

Í bandarískum fjölmiðlum kemur fram að Leno hafi verið að gera við bíl frá 1907 þegar slysið átti sér stað.

Leno sem var um áratugabil einn vinsælasti spjallþáttastjórnandi heims er mikill bílaáhugamaður og safnar fágætum bílum.

Hinn 72 ára gamli Leno brenndist á andliti, bringu og höndunum og var undir læknishöndum í tíu daga eftir aðgerðina.