Ís­lenska vonar­stirnið Natan Dagur Bene­dikts­son, sem hefur slegið í gegn í raunveruleikaþættinum The Voice Noregi, hefur komist áfram í þriðju umferð söngkeppninngar á TV2.

Í kvöld söng hann lagið Take Me To Church eftir Hozier með Alexu Valentina. Voru þau bæði hrósuð fyrir frammistöðuna og var Natan valinn til að halda áfram í keppninni.

Hægt er að horfa á flutning Natans hér á heimasíðu TV2 eða neðst í fréttinni.

Natan segir í samtali við Akureyri.net að honum hafi þótt ganga vel. „Ég náði að flytja lagið eins vel og ég ætlaði – raunar var það flottara hjá mér en ég bjóst við,“ sagði Natan Dagur í samtali við eyfirska fréttavefinn.

Alls voru 48 manns sem komust í aðra umferð og eru nú 24 eftir. Þjálfararnir í keppninni geta svo valið átta til viðbótar til að halda áfram, alls 32.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá sló Natan í gegn í prufunni sinni í þáttunum. Það er ekki síst merki­legt fyrir þær sakir að fyrir þáttinn hafði Natan aldrei sungið á sviði áður.