„Maður gleymir því stundum í hversdagsamstrinu í hversu stórkostlegu umhverfi maður er í Hallgrímskirkju. Kirkjan er stakt meistaraverk og mikill heiður að mæta til vinnu í svo tilkomumikið mannvirki,“ segir Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju.

Kirkjan er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og var með um milljón gesti á ári, áður en heimsfaraldurinn skall á.

„Eftir að heimurinn fór smám saman að opnast á ný höfum við séð stöðugan stíganda í turnheimsóknum. Þær voru 500 í apríl, 1.700 í maí, um 6.000 í júní og 13.000 í júlí,“ upplýsir Sigríður.

Sjá má biðjandi hendur í formi framhliðar Hallgrímskirkju, ekki ósvipað og sjá má í biðjandi höndum tjákna eða emoji-myndum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ein af fegurstu byggingum heims

Á dögunum lenti Hallgrímskirkja í 38. sæti yfir fegurstu byggingar heims, en alls tóku 107 þúsund manns þátt í valinu.

„Hallgrímskirkja er ein bygginga á Norðurlöndum sem komust á lista og er þar í ótrúlega merkilegum hópi. Það þykir heillandi hvað kirkjan er stílhrein, jafnt að utan sem innan. Hönnunin er nútímaleg þrátt fyrir að kirkjan sé komin til ára sinna og hún er laus við óþarfa prjál og íburð, sem gefur andanum meira rými. Því þykir Hallgrímskirkja sérlega góð til íhugunar því rýmið er tilgerðarlaust. Hér er ekkert sem þrengir að né hindrar hugann,“ greinir Sigríður frá.

Hún finnur að látleysi kirkjunnar höfðar til ferðafólks um leið og það dáist að stórfenglegu formi hennar og arkitektúr.

„Margir sjá form framhliðar kirkjunnar sem biðjandi hendur, en arkitektinn Guðjón Samúelsson lagði upp með að kirkjan endurspeglaði íslenska náttúru í formi sínu; stuðlaberg, fjöll og jökla.“

Úsýnið úr turninum hefur líka mikið aðdráttarafl.

„Það er ekki alltaf hlaupið að því að komast upp í háa kirkjuturna heimsins og þar er útsýnið ekki endilega eftirsóknarvert, en úr Hallgrímskirkjuturni er útsýnið algjörlega magnað. Hallgrímskirkja er í alla staði merkileg og hún er vissulega einstök. Ég hef komið inn í allmargar kirkjur og engin er eins og hún. Þá er staðsetning kirkjunnar stórkostleg og hvort sem maður er á Kjalarnesi eða Reykjanesi er eins og Hallgrímskirkja standi upp úr öllu, enda okkar „skyline“ eins og skýjakljúfar eru í erlendum stórborgum,“ segir Sigríður.

Það heillar Sigríði mest í arkitektúr Hallgrímskirkju hvernig lofthvelfingar kirkjuskipsins tengjast saman. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Þótti þá galið stórvirki

Hallgrímskirkja er stærsta kirkja Íslands, með glæstan 74,5 metra háan turn. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins og einn virtasti arkitekt landsins, hófst handa við að teikna kirkjuna árið 1937 og varð Hallgrímskirkja hans síðasta verk. Bygging hennar hófst árið 1945 en kirkjan var ekki vígð fyrr en 1986.

„Hallgrímskirkja er þekktasta kennileiti borgarinnar og gaman að horfa til þess hvað fólk var stórhuga þegar kirkjan var byggð. Þá var Dómkirkjan sprungin vegna aukins mannfjölda, en langan tíma tók að koma byggingu Hallgrímskirkju í gegnum samþykki bæjarstjórnar þá, enda þótti ýmsum galið á þeim tíma að ráðast í byggingu svo stórrar kirkju. Ég hugsa stundum hvernig umhorfs væri ef engin Hallgrímskirkja stæði hér í dag og hvernig færi ef einhver kæmi með hugmynd um að reisa svo stóra kirkju í dag. Það voru sterkar hugsjónir sem leiddu til þess að Hallgrímskirkja varð til og magnað að fá að viðhalda því sem fólk lagði á sig til að kirkjan yrði að veruleika,“ segir Sigríður.

Glæsilegt stuðlaberg í tignarlegum og 74,5 metra háum Hallgrímskirkjuturni. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Stuðlaberg er áberandi form í byggingu kirkjunnar enda vildi Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins og arkitekt Hallgrímskirkju, að hún bæri merki íslenskrar náttúru. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Klukknafjölskyldan verður loks sýnileg

Sigríður segir viðhald við kirkjuna gríðarlegt.

„Nú síðast skiptum við um allar innihurðir í stað hurða sem settar voru til bráðabirgða fyrir að minnsta kosti fjörutíu árum. Þær nýju eru í stíl við kirkjubekkina og prédikunarstólinn, hannað af Andrési Narfa hjá Hornsteinum. Þá á Leifur Breiðfjörð heiður af steindum gluggum, gleri utan á prédikunarstólnum og skírnarfontinum. Allt er það unnið í sama stílhreina andanum,“ segir Sigríður.

Næsta verkefni er að fríska upp á útsýnishæðina á 9. hæð og taka þar niður skúr og trépalla.

„Þá verður loks hægt að sjá stóru kirkjuklukkurnar þrjár, það er fjölskylduna Hallgrím, Steinunni og Guðríði, og 29 minni klukkur sem klingja í klukknaspili. Þá verður ekki bara fagurt útsýnið frá 9. hæð heldur verður líka fallegt um að litast inni í turninum.“

Annað verkefni í vinnslu er ný lýsing að innan og utan, og vinna ljósahönnuðir nú að útfærslu hennar.

„Ég hlakka mikið til að sjá útkomuna. Þá getum við tekið þátt í að lýsa upp kirkjuna eins og aðrar byggingar gera við sérstök tilefni,“ segir Sigríður, viss um sitt uppáhald þegar kemur að arkitektúr Guðjóns Samúelssonar í Hallgrímskirkju.

„Það er loftið í kórnum og kirkjuskipinu. Það er magnað hvernig hvelfingarnar koma saman.“

Útsýnið úr Hallgrímskirkjuturni er stórkostlegt sem og turninn sjálfur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Hallgrímskirkja er nútímaleg ásýndar, þrátt fyrir að hönnun hennar sé á áratuga gömul. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Hallgrímskirkja er einstakt listaverk, hvert sem augað lítur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Það þótti hálf galið að ætla í svo mikið stórvirki sem Hallgrímskirkja er, þegar fyrst var farið þess á leit að byggja hana. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Kirkjunni sýnd virðing af fólki af öllum trúarbrögðum

Sigríður segir landsmenn bera kærleika í brjósti til Hallgrímskirkju.

„Það tala allir fallega um kirkjuna og líta upp til hennar. Aðsókn eykst stöðugt sem og eftirspurn eftir því að taka upp þætti um kirkjuna. Þannig komu bæði BBC og National Geographic í fyrra og nú eru breskir þáttagerðarmenn að taka upp ferðaþátt í turninum,“ upplýsir Sigríður.

„Hingað kemur fólk af öllum trúarbrögðum og sýnir trú okkar og kirkjunni mikla virðingu. Eina undantekningin var þegar við klæddum tröppur upp að altarinu regnbogafána til stuðnings Gay Pride og tveir strangtrúaðir Bandaríkjamenn létu vanþóknun í ljós. Það eru allir velkomnir í Hallgrímskirkju og þar er mjög góður andi. Margir kveikja á kerti og tylla sér í svolitla stund, enda er það tilgangurinn með kirkjunni; að fólk geti fundið þar innri frið, kyrrt hugann, farið með bænir eða hugleitt.“

Sjálf er Sigríður guðfræðingur og alin upp í kirkjusamfélaginu en faðir hennar Hjálmar Jónsson var lengi sóknarprestur í Dómkirkjunni í Reykjavík.

„Þetta er góður staður fyrir mig að vera á. Mér er umhugað um þjóðtrú okkar og kirkjuna og finnst miklu skipta að við höldum sjó og bætum í, frekar en hitt. Við eigum ekki að þurfa að lifa í vörn, heldur eigum við að standa keik og horfa fram á við. Ég geri allt hvað ég get til að leggja mitt af mörkum til þess og lít svo á að ég sé í þjónustuhlutverki við kirkjuna, bæði sem byggingu og söfnuð.“

Hallgrímskirkja er þekktasta kennileiti Reykjavíkur og trónir hátt yfir borginni, þar sem sést til hennar víða að. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Hallgrímskirkja er stórfenglegt mannvirki sem gert hefur Íslendinga stolta í áranna rás og dró fyrir Covid að allt að milljón gesti á ári. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON