Besta myndin

Black Panther

BlacKkKlansman

Bohemian Rhapsody

The Favourite

Green Book

Roma

A Star is Born

Vice

Kolbrún: Flestar tilnefndra mynda þykja mér vera í meðallagi, eins og til dæmis A Star is Born, Bohemian Rhapsody og Green Book. Vice er köflótt mynd en seinni hluti hennar frábær. Ég hefði viljað sá þarna mynd Coen-bræðra, The Ballad of Buster Scruggs, þar kolféll ég fyrir biksvörtum húmornum. The Favourite finnst mér ágæt en samt ekki standa alveg undir því að verða Óskarsverðlaunamynd. Svo er Roma, full af dýpt og mannskilningi og svo myndræn að ekki er annað hægt en að heillast. Alvörumynd sem á skilið að vinna.

Þórarinn: Mér þykir vænt um að Bohemian Rhapsody sé tilnefnd sem besta myndin en verð að viðurkenna að Kolla hefur sitthvað til síns máls en finnst rétt að halda því vandlega til haga að ég veit að hún „fattar“ ekki Queen-myndina alveg. Breytir því ekki að þótt ég hafi grátið miklu meira og með ekkasogum yfir Bohemian Rhapsody þá er Roma alvöru listaverk og svo djúp í heillandi einfaldleika sínum að það er eitthvað mikið að ef hún hirðir ekki verðlaunin fyrir bestu myndina. Verandi besta myndin.

Besti leikstjóri

Spike Lee - BlacKkKlansman

Pawel Pawlikowski – Cold War

Yorgos Lanthimos – The Favourite

Alfonso Cuarón – Roma

Adam McKay – Vice

Kolbrún: Cuarón hlýta að verða valinn besti leikstjórinn. Annað er eiginlega ekki hægt, það væri fullkomið óréttlæti ef gengið væri framhjá honum.

Þórarinn: The Favourite er búin að vera uppáhalds á öllum verðlaunahátíðum hingað til en það segir allt sem segja þarf um Roma og snilld Alfonso Cuarón að myndin hans hefur stolið verðlaunum fyrir bestu myndina og leikstjórnina og sú verður einnig raunin á Óskarnum. Sorrí, Yorgos Lanthimos. Þótt The Favourite sé frábær þá er Trump ekki enn búinn að reisa múr sem kemur í veg fyrir að Mexíkaninn taki þessa styttu verðskuldað.

Besti leikari

Christian Bale – Vice

Bradley Cooper – A Star is Born

Willem Dafoe – At Eternity‘s Gate

Rami Male – Bohemian Rhapsody

Viggo Mortensen – Green Book

Kolbrún: Christian Bale ber af keppinautum sínum og er hreint út sagt frábær Dick Cheney. Hann hlýtur að hreppa Óskarinn. Ef ekki hann þá Bradley Cooper sem er gríðarlega sannfærandi fyllibytta í A Star is Born.

Þórarinn: Bradley Cooper er leiðinlegur og á að fara tómhentur heim. Fyrir utan að það er ekkert mál að vera sannfærandi fyllibytta. Tékkið bara á biðlistanum á Vog. Malek er frábær í hlutverki Freddie Mercury í Bohemian Rhapsody en ég held með Viggo Mortensen sem er algerlega frábær í Green Book og lyftir þeirri mynd upp fyrir meðalmennskuhjakkið sem hún í raun og veru er þótt hún sé bráðskemmtileg og góð hugvekja. Breytir engu um það að Christian Bale fær verðlaunin. Kaninn elskar leikara sem fita sig og níðast á líkama sínum fyrir hlutverk og þar fyrir utan verður ekki af Bale tekið að hann er magnaður í túlkun sinni á ómenninu Dick Cheney.

Besta leikkona

Yalitza Aparicio – Roma

Glenn Close – The Wife

Olivia Colman – The Favourite

Lady Gaga – A Star is Born

Melissa McCarthy – Can You Ever Forgive Me?

Kolbrún: Olivia Colman, sú stórkostlega leikkona og geðuga manneskja, fær mitt atkvæði. Á ferlinum hefur hún sýnt og sannað að hún getur allt og er jafn frábær í dramatík og gamanleik. Ég hef samt nokkra trú á að Glenn Close muni sigra. Hún hefur margoft verið tilnefnd en aldrei fengið Óskar og mér finnst líklegt að Akademían muni velja hana núna. Hún er góð í The Wife en Colman er algjörlega mögnuð í The Favourite og á skilið að vinna.

Þórarinn: Hér er enginn skortur á úrvalsleikkonum en Colman tekur þetta fyrirhafnarlaust enda einfaldlega sú besta í keppninni. Hafið í huga að þetta er kona sem glansaði í upphafi ferils síns í því frábæra breska sjónvarpsgríni Peep Show og síðar í alvöru krimma í Broadchurch. Ótrúlega fjölhæf og góð leikkona, jafnvíg á drama og kómedíu. Ef sigurganga hennar stoppar á Óskarnum þá er eitthvað mikið að.

Besti leikari í aukahlutverki

Mahershala Ali – Green Book

Adam Driver - BlacKkKlansman

Sam Elliott – A Star is Born

Richard E. Grant – Can You Ever Forgive Me?

Sam Rockwell – Vice

Kolbrún: Þarna eru nokkrir ansi góðir samankomnir. Sam Rockwell er mjög skemmtilegur Bush. Ég hef alltaf verið skotinn í Richard E. Grant og hann er algjör senuþjófur í Can You Ever Forgive Me? Ég vildi svo gjarnan sjá hann hampa Óskarnum. Held samt að Mahershala Ali, sá fantagóði leikari, vinni fyrir mjög góða frammistöðu í Green Book.

Þórarinn: Sá ítrekað vanmetni leikari Sam Rockwell er frábær sem George W. Bush í Vice og ég myndi slengja styttunni á hann, jafnvel þótt ég elski Richard E. Grant sem á allt gott skilið. Þótt ekki væri nema aðeins fyrir framlag sitt til kvikmyndanna og leiklistarinnar í áratugi. En stemningin og straumurinn er með Mahershala Ali sem stendur sig með sóma í Green Book þótt hann hafi oft verið betri. Til dæmis í Netflix-þáttunum House of Cards og Luke Cage. En hann fær uppklappið á sunnudagskvöld.

Besta leikkona í aukahlutverki

Amy Adams – Vice

Marina de Tavira – Roma

Regina King – If Beals Street Could Talk

Emma Stone – The Favourite

Rachel Weisz – The Favourite

Kolbrún: Þarna hef ég enga sérstaka skoðun, hallast samt að því að Amy Adams eigi helst skilið að vinna en held að Regina King fái Óskarinn. Þetta er samt flokkur þar sem allt getur gerst.

Þórarinn: Þessi flokkur er mögulega sá erfiðasti þetta árið enda hver leikkonan annarri betri þannig að ég læt tilfinningarnar ráða og krefst þess að Rachel Weisz fái verðlaunin fyrir The Favourite. Kannski pínu vegna þess að ég elska hana og finnst ún alltaf æði, hvort sem það er í The Mummy, Enemy at the Gates, About a Boy eða The Favourite. Hún er alltaf ómótstæðileg og ofboðslega góð. Í The Favourite dansar hún við tvær aðrar góðar leikkonur, í bitastæðari hlutverkum, Oliviu Colman og Emmu Stone og hún heldur samt sínu og er eiginlega bara best. Stórkostleg leikkona sem á að vinna þessa keppni.