Sigríður fylgist vel með nýjum straumum og stefnum í hártískunni en hún á hárgreiðslustofuna Zenz í Reykjavík. Hún segir að mikil breidd sé í háralitum þessa dagana.

„Það er mjög vinsælt að leika sér með skæra liti, til dæmis bláan, grænan, bleikan og vínrauðan, og mér finnst fólk almennt vera til í að prófa eitthvað alveg nýtt. Við köllum þessa liti Crazy Colors, enda eru þeir mjög áberandi. Sumir vilja lita allt hárið en aðrir láta nægja að lita toppinn eða nokkra lokka við andlitið,“ segir Sigríður og bætir við að núna sé meira í tísku en áður að vera með stutt hár, sérstaklega hjá yngri konum.

„Þær eru að fara úr þessu síða, ljósa hári yfir í styttra hár og jafnvel tjásuklippingar. Svo er að verða mjög vinsælt að vera með sítt að aftan og stuttan topp. Í raun er mikil hreyfing á hártískunni núna og margir sækja innblástur til níunda áratugarins. Mikið er um að fólk vilji ramma inn andlitið og þá koma styttri toppar og styttur sterkar inn.“

Skærir litir eru mjög áberandi þessa dagana og margir koma með myndir af TikTok og Instagram til að fá draumalitinn og -klippinguna.

Kaldir og hlýir tónar í bland

Vinsælt er að vera með skyggingu í hárrótinni en það gefur háralitnum vissa dýpt.

„Við fáum líka marga til okkar sem vilja fá kalda tóna í hárið en svo eru líka ófáir sem eru hrifnir af djúpum litum, til dæmis koparbrúnum. Síðan fer aldrei úr tísku að vera með náttúrulegt og glansandi hár, sem geislar af heilbrigði,“ segir Sigríður, sem lumar á leyniráði til að svo megi verða.

„Ég mæli með að fólk noti eplaedik í hárið á sér heima. Þessar miklu veðrabreytingar sem fylgja vetrartímanum geta þurrkað hárið og margir fá kláða í hársvörðinn. Þá er gott að segja 1/3 edik á móti 2/3 af vatni og hella yfir hárið, láta það bíða í 2-3 mínútur, skola svo úr og setja næringu í það. Þetta er líka mjög gott fyrir alla sem eru með einhver vandamál í hársverðinum. Svo er betra að nota sléttujárn og hárblásara sparlega. Það fer ekki vel með hárið að slétta það og blása daglega, það verður þurrt og jafnvel líflaust. Hárið þarfnast raka, rétt eins og húðin, og því er gott að nota djúpnæringu reglulega,“ segir Sigríður.

„Hjá Zenz fást umhverfis- og eiturefnalausar hárvörur, sem eru hvorki með silkoni né parabenum, en stofan er hluti af Zenz-keðjunni sem frá Danmörku,“ upplýsir hún.

Mjög vinsælt er að vera með sítt að aftan og stuttan topp ásamt mismunandi litatónum. MYNDIR/AÐSENDAR

Áhrif frá níunda áratugnum

Sigríður segir greinilegt að TikTok og Pinterest hafi áhrif á hártískuna.

„Ég fæ oft ungt fólk með myndir og jafnvel myndbönd af þessum miðlum til að sýna hvernig klippingu og lit það vill fá. Það er stutt síðan viðskiptavinur kom með mynd af Meg Ryan, frá því á níunda áratugnum, og annar með mynd af Winonu Ryder frá því hún lék í Beetlejuice og vildi eins klippingu. Það er gaman að því hvernig tískan fer í hringi,“ segir Sigríður.