Fólk

Sirkusgræjur í stofunni

Nick Candy flutti til Íslands frá Ástralíu og sárvantaði stað þar sem hann gæti haldið við sirkusþjálfun sinni. Hann tók þátt í að stofna Sirkus Íslands og seinna kom hann sér upp æfingaaðstöðu í stofunni hjá sér.

Nick Candy sirkuslistamaður kom sér upp sirkusæfingaaðstöðu heima hjá sér. Mynd/Þórsteinn

Ég óx úr grasi í Ástralíu og var mikið í leikhúsi sem unglingur og eftir að ég lauk framhaldsskóla,“ segir Nick. „Í gegnum leikhúsið kynntist ég svo sirkuslistum, loftfimleikum, stultum, djöggli og svo framvegis.“ Nick fór svo í leiklistarskóla og starfar sem leikari í Ástralíu þegar hann er þar þó mestur hluti starfsævinnar hafi verið helgaður sirkusvinnu. „Þegar ég útskrifaðist úr leiklistarskólanum þar sem sirkuslistirnar voru auðvitað áberandi fékk ég vinnu í Japan og fór beint þangað í sex mánaða fjölþjóðlegt verkefni með fjöllistahópi. Þar var meðal annarra íslensk stúlka, Erna Tönsberg, og við urðum ástfangin. Við flökkuðum milli Íslands, Japans og Ástralíu í nokkur ár en enduðum hér og eigum nú fjögur börn.“

Þegar stóð fyrir dyrum að fara til Íslands spurði Nick alla sem hann þekkti í Ástralíu hvort þeir vissu af einhverjum sem væri með sirkus eða að gera eitthvað sirkustengt á Íslandi. „Mér fannst mikilvægt að halda við sirkusfærninni og var líka að velta fyrir mér atvinnutækifærum. En enginn þekkti neinn,“ segir hann. „Nema svo var einn sem kannaðist við götulistamann frá Nýja-Sjálandi sem hann hafði einhvers staðar heyrt að hefði flutt til Íslands. Ég fann hann svo þegar ég kom hingað og þetta var Lee Nelson sem stofnaði Sirkus Íslands. Og ég hellti mér út í það ævintýri.“

Hér er brugðið á leik með uppvaskið en jafnvægislistir eru mikilvægur þáttur í sirkuslistum og ekki verra að geta æft sig meðþað sem hendi er næst. Þórsteinn

Nick og Erna keyptu gamalt einbýlishús í Árbæ af ömmu Ernu. „Þetta er gamalt timburhús sem var byggt 1970 en byggt á teikningum frá 1940,“ segir hann og bætir við að þau hafi gert ýmsar stórar breytingar. „Við færðum eldhúsið milli enda í húsinu til að auka birtuna og rifum háaloftið þar fyrir ofan út, upphaflega vegna skemmda í timbrinu sem við ætluðum að lagfæra en þegar við vorum búin að því og gatið komið í loftið sáum við hvað allt varð bjartara og rúmbetra þegar lofthæðin jókst. Og þá kom í ljós þessi fíni biti sem var alveg kjörinn til að hengja loftfimleikagræjur á. Þar æfi ég mig og krakkarnir geta leikið sér líka. Núna er ég með tvo hringi en ég hef verið með reipi, trapissu og silki hangandi í bitanum.“ Hann tekur fram að þó aðstaðan sé góð sé ekki mikið rými til að gera flóknar sirkuslistir. „Það er ekki mjög mikið pláss til hliðanna. og ég passa að láta allt hanga svo hátt að það sé utan seilingar fyrir krakkana því ég vil ekki að þau fari að sveifla sér utan í veggi og meiða sig. En ég lyfti þeim stundum upp og þau fá að hanga og sveifla sér aðeins. Ég skoða stundum heimilistímarit og blogg og þess háttar og sé að það verður æ algengara að fólk setji æfingatæki inn til sín, bæði stangir til að hífa sig upp á og svona hringi og svoleiðis.“

Bitinn í loftinu hefur borið bæði rólur, reipi og silki og nú eru það hringirnir sem fá að hanga.

Æfingaaðstaðan er nýtt enn meira þessa dagana en venjulega því Sirkus Íslands frumsýnir um helgina sýninguna Áratugur af Sirkus í sirkustjaldinu Jöklu í Vatnsmýrinni. „Fyrsta sýningin hjá Sirkus Íslands var um áramótin 2008 svo við höfum verið starfandi í tíu ár,“ segir Nick. „Af þessu tilefni ákváðum við að líta yfir farinn veg og skoða öll atriðin sem við höfum gert. Svo völdum við bestu og vinsælustu atriðin, höfum pússað þau upp og endurbætt og svo eru líka glæný atriði. Nonni fimleikamaður var til dæmis í sirkusskóla á Nýja-Sjálandi í allan vetur að vinna með handstöður og hann kemur með glænýtt handstöðuatriði. Svo verður fullorðinssirkusinn Skinnsemi líka með sýningar á kvöldin.“

Sirkusinn hefur komið sér upp takti þannig að annað hvert ár er mikið um að vera en hitt árið er minna í sniðum. „Í fyrra vorum við með þrjár sýningar og tjaldið stóð vikum saman á Klambratúni svo í ár erum við rólegri. Við vildum þó alls ekki missa afmælisárið úr svo þetta var lausnin.“ Sýningar í Reykjavík hafa löngum verið á Klambratúni en nú rís tjaldið Jökla í Vatnsmýrinni. „Þar var sirkuslistahátíðin haldin 2013 og þar gerðum við okkur ljóst að Sirkus Íslands þurfti að eignast tjald. Við fórum í hópfjármögnun og Jökla varð að veruleika.“ Sýningar verða bæði í Reykjavík og Akureyri. „Frumsýningin verður á föstudaginn hér í Reykjavík og svo verða sýningar laugardag og sunnudag og svo næstu helgi, föstudag, laugardag og sunnudag,“ segir Nick. „Síðan tökum við tjaldið upp og förum til Akureyrar þar sem við verðum um verslunarmannahelgina, 3. til 5. ágúst. Þetta er mjög stutt sýningartímabil svo ég vil hvetja fólk til að fylgjast með og tryggja sér miða í tíma.“

Nánari upplýsingar má finna á sirkusislands.is og Facebook Sirkus Íslands.

Hringirnir eru það fyrsta sem blasir við þegar komið er inn í húsið og stundum hangir þar sirkuslistamaður.
Hér má sjá Nick bregða á leik með á börnunum fjórum, Óskari, Finn, Snorra og Kristínu Lóu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Hlaupastíllinn getur komið þér lengra

Fólk

Öll orkan fór í að komast í sam­band við tísku­húsin í París

Fólk

„Einkennin geta verið svo lúmsk“

Auglýsing

Nýjast

Þegar tungu­málið hljóp með Ís­lendinga í gönur

Chanel tilkynnir eftirmann Lagerfeld

Hóta að dreifa klám­mynd­bandi af Eddu: „Nú bíð ég spennt!!!!“

Ís­lands­svín vekja furðu og hroll með aug­lýsingu

Lagst­ur und­ir hníf­inn: „Aksturs­hæfn­in dvín“

Fann fljótt að þetta gerði mér gott

Auglýsing