Þykjustuleikarnir er nýjasta ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Hann lýsir bókinni sem sirkusbók sem sé í senn óperutexti og kvikmyndahandrit.

Anton Helgi Jónsson er með reynslumeiri skáldum Íslands. Hann gaf út fyrstu ljóðabók sína 1974, þá aðeins nítján ára, og sendi á dögunum frá sér sína tíundu ljóðabók sem ber titilinn Þykjustuleikarnir. Að sögn Antons er þó ekki um hefðbundna ljóðabók að ræða.

„Ég er ekkert mjög mikið að tala um þetta sem ljóðabók. Einn sonur minn sagði að þetta væri óperutexti. Þá sneri ég út úr og sagði: „Nei, þetta er kvikmyndahandrit.“ Þetta er samfella en samfellan er ekki eins og í meginstraums-sögum þar sem eitt leiðir af öðru, heldur er þetta sett upp eins og atriði á leiksviði.“

Ólíkar persónur

Að sögn Antons fékk hann þá hugmynd ungur að gera ljóðabók sem væri byggð upp eins og revía eða sirkus, með mörgum sjálfstæðum atriðum sem saman mynda eina heild. Fyrir nokkrum árum ákvað hann svo loks að skrifa bókina.

„Ég setti strax upp að ég myndi hafa þetta svona eins og sirkusdagskrá fyrir og eftir hlé. Þá kviknaði fljótlega þessi hugmynd að ég yrði að taka inn gamalt sirkusfólk, Jóhann risa, Ólöfu eskimóa og Jóhannes á Borg, svoleiðis persónur kveiktu mörg atriði. En síðan náttúrlega eru margar kveikjur úr mínu lífi,“ segir Anton.

„Margt af þessu fólki er fremur ógeðfellt, getum við sagt. Þessi bók er svolítið að gera upp við ákveðna týpu af körlum. Ákveðna ímynd karla og já, þeir eru ekki allir geðfelldir.“

Pétur Pan og Dante

Rammafrásögn Þykjustuleikanna er innblásin af einu þekktasta bókmenntaverki allra tíma, sögunni um Pétur Pan og Vöndu, sem Anton hreifst af í bernsku.

„Ég ímynda mér og set það upp þannig að það sé Vanda sem segi söguna. En í staðinn fyrir að fljúga með Pétri Pan til Hvergilands þá fer hún í þennan sirkusheim og ferðast um hann. Þá komum við að öðru verki sem inspíreraði mig og ég hef haft á heilanum lengi, sem er Gleðileikurinn guðdómlegi. Í þessari bók er ég að vinka til Dantes. Vanda fer í ferðalag, hún fer til helvítis og síðan upp til himinhvelfinga í lokin,“ segir Anton.

Marglaga verk

Ljóst er að í Þykjustuleikunum má finna vísanir í ýmis þekkt bókmenntaverk en hönnun bókarinnar eftir Höllu Siggu sækir einnig innblástur á ólík mið, í Tarotspil og ítalska gamanleikinn commedia dell’arte, svo eitthvað sé nefnt.

„Mér fannst hún Halla Sigga hjá Forlaginu leysa þetta alveg einstaklega vel, hún kemur með alveg nýja vídd við textann. Kvikmyndaheiminn, þöglu myndirnar, commedia dell‘arte. Þannig að þetta verður ein mjög sterk heild úr þessu og mikill leikur í uppsetningunni. Ég var bara ótrúlega ánægður með það samstarf,“ segir Anton.

Að sögn Antons eru Þykjustuleikarnir marglaga verk og hvetur hann því lesendur til að gefa sér tíma við lesturinn og leyfa sér að taka þátt í leiknum.

„Það sem skiptir mestu máli held ég fyrir lesendur sem koma að henni er að leyfa sér að fara af stað í leikinn. Síðasta bók mín, Handbók um ómerktar undankomuleiðir, er líka byggð upp sem samfelld saga en það tóku ekki allir eftir því þegar fólk var að lesa eitt ljóð á dag eða eitthvað svoleiðis. Oft getur bara verið betra að taka sér hálftíma eða klukkutíma og renna í gegnum bókina til þess að sjá heildina.“