Hljómdiskur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Concurrence, er tilnefndur til Grammy-verðlauna í flokknum Besti hljómsveitarflutningur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitinni. Á disknum flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, ný verk eftir fjögur íslensk tónskáld: Önnu Þorvaldsdóttur, Hauk Tómasson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Pál Ragnar Pálsson.
Einleikarar með hljómsveitinni eru Sæunn Þorsteinsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson. Diskurinn er annar í röðinni af þremur í samstarfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bandarísku útgáfunnar Sono Luminus, þar sem hljómsveitin flytur alls 14 ný íslensk hljómsveitarverk undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Lokadiskur þeirrar útgáfuraðar, Occurrence, er væntanlegur í janúar 2021.
The New York Times valdi Concurrence eina af athyglisverðustu klassísku útgáfum ársins 2019 og bandaríska útvarpsstöðin NPR valdi hann sömuleiðis einn af tíu bestu útgáfum ársins. Í umsögn þeirra segir meðal annars: „Eyríkið Ísland er, þrátt fyrir smæð sína, risi á sviði klassískrar tónlistar.“
Fimm hljómdiskar eru tilnefndir til Gammy-verðlauna í þessum flokki, og meðal annarra tilnefninga má nefna Fílharmóníusveitina í Los Angeles og Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco.
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einu sinni áður verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning, árið 2009.
