Bók­mennta­árið 2022 var bæði fjöl­breytt og við­burða­ríkt enda náði menningar­lífið nú loks að hrista af sér ham­fara­hlekki Co­vid-áranna. Árið hófst að vanda á af­hendingu Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna á Bessa­stöðum í lok janúar fyrir bækur síðasta árs.

Sigur­vegararnir voru Sig­rún Helga­dóttir fyrir Sigurður Þórarins­son: Mynd af manni í flokki fræði­bóka og rita al­menns efnis, Þórunn Rakel Gylfa­dóttir fyrir Akam, ég og Annika í flokki barna- og ung­menna­bóka og Hall­grímur Helga­son fyrir Sex­tíu kíló af kjafts­höggum í flokki skáld­verka.

Sig­rún Helga­dóttir, Hall­grímur Helga­son og Þórunn Rakel Gylfa­dóttir tóku á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum á Bessastöðum í janúar 2022.
Fréttablaðið/Ernir

Hall­grímur er vel að verð­laununum kominn enda hefur hann hlotið mikið lof fyrir skáld­sögur sínar um síldar­ævin­týrin. Þó verður að segja að valið var ekki ýkja frum­legt í ljósi þess að hann hlaut einnig bók­mennta­verð­launin fyrir fyrri bók sína í seríunni, Sex­tíu kíló af sól­skini, og mætti því spyrja sig hvort nefndin sé ekki núna skuld­bundin til að gefa honum prísinn fyrir þriðju bókina þegar hún kemur út til að vera sam­kvæm sjálfri sér.

Fríða Ísberg við afhendingu Fjöruverðlaunanna í mars 2022.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Furðu­leg Fjöru­verð­laun

Í mars tók Fríða Ís­berg svo á móti Fjöru­verð­laununum fyrir skáld­sögu sína Merkingu, eina eftir­minni­legustu bók ársins 2021. Þakkar­ræða Fríðu vakti mikla at­hygli en þar fjallaði hún meðal annars um fæðingu frum­burðar síns og inn­rás Rússa í Úkraínu. Fjöru­verð­launin eru nú ekki lengur bara bók­mennta­verð­laun kvenna heldur var verð­laununum ný­lega breytt í verð­laun kvenna, trans, kyn­segin og inter­sex fólks og má því spyrja sig hvort upp­runa­legur til­gangur þeirra, að upp­hefja kvenna­bók­menntir, sé enn í gildi nú þegar þau eru orðin verð­laun fyrir alla nema sís karl­menn.

Fjöru­verð­launin skil­greindu sig lengi vel sem mót­vægi við Ís­lensku bók­mennta­verð­launin, fjaran sem verður eftir að flóðinu loknu, en til­nefningarnar í ár sýna svo ekki verður um villst að verð­launin eru á villi­götum sem rót­tækt bók­mennta­afl. Tvær af þremur til­nefndum bókum í flokki fagur­bók­mennta (Eden eftir Auði Övu og Tól eftir Kristínu Ei­ríks­dóttur) eru nefni­lega einnig til­nefndar til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna.

Ef Fjöru­verð­launin ætla að endur­heimta vigt sína í bók­mennta­heiminum þurfa þau annað hvort að leita aftur til upp­runans og til­nefna verk eftir kven­höfunda sem orðið hafa undir í jóla­bóka­flóðinu eða verða raun­veru­lega rót­tækt afl fyrir alla kynja­flóruna í stað þess að bjóða kyn­segin, trans og inter­sex höfundum bara að vera með sem eftir­á­hugsun.

Ef Fjöru­verð­launin ætla að endur­heimta vigt sína í bók­mennta­heiminum þurfa þau annað hvort að leita aftur til upp­runans og til­nefna verk eftir kven­höfunda sem orðið hafa undir í jóla­bóka­flóðinu eða verða raun­veru­lega rót­tækt afl fyrir alla kynja­flóruna í stað þess að bjóða kyn­segin, trans og inter­sex höfundum bara að vera með sem eftir­á­hugsun.

Haukur Ingvarsson við afhendingu Maístjörnunnar í maí 2022.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ljóðið ratar til sinna

Eins og gengur og gerist urðu ekki mörg stór­tíðindi í bóka­út­gáfu á fyrstu mánuðum ársins. Ljóða­út­gáfan er þó gjarnan nokkuð sterk á vorin og komu nokkur eftir­minni­leg verk út í vor svo sem þrettánda ljóða­bók Sjóns, Nætur­verk, fyrsta bók pólsk-ís­lenska skáldsins Ewu Marcinek, Ís­land pólerað, og önnur ljóða­bók Öldu Bjarkar Valdi­mars­dóttur, Við lútum höfði fyrir því sem fellur.

Maí­stjarnan var veitt í maí fyrir ljóða­bók ársins 2021 en í þetta skiptið hreppti Haukur Ingvars­son verð­launin fyrir Menn sem elska menn, eina á­hrifa­mestu ljóða­bók síðustu ára.

Maí­stjarnan eru senni­lega lýð­ræðis­legustu bók­mennta­verð­laun landsins enda lúta þau engum markaðs­öflum ó­líkt Ís­lensku bók­mennta­verð­laununum heldur eru allar út­gefnar ljóða­bækur ársins gjald­gengar. Þó er löngu kominn tími til að hefja þau til vegs og virðingar enda hefur ekki farið mikið fyrir verð­laununum síðan þau voru stofnuð 2017.

Brynja Hjálmsdóttir og María Elísabet Bragadóttir gáfu báðar út bækur í sumar.
Mynd/Samsett

Sumar­bóka­flóðið

Bók­mennta­árið fór á fullt skrið í haust en at­hygli vekur að sumir út­gef­endur eru farnir að þjóf­starta jóla­bóka­flóðinu. Bjartur gaf til að mynda út tvær nýjar ís­lenskar skáld­sögur, Sól­rúnu eftir Sigur­línu Bjarn­eyju Gísla­dóttur og Vængja­laus eftir Árna Árna­son í lok ágúst sem verður að teljast já­kvætt því bók­menntir eiga erindi allt árið um kring en ekki bara á að­ventunni.

Þá geta út­gef­endur verið klókir og nýtt sér tómið sem myndast í út­gáfu yfir há­sumarið til að gefa út til­rauna­kennd verk sem eiga á hættu að verða undir í jóla­bóka­flóðinu. Una út­gáfu­hús gaf út tvær slíkar bækur síðasta sumar, smá­sagna­safnið Sápu­fuglinn eftir Maríu Elísa­betu Braga­dóttur og leik­ritið Ó­kyrrð eftir Brynju Hjálms­dóttur, sem vöktu báðar tölu­verða at­hygli.

Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov tók á móti Alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness í september síðastliðnum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Bók­menntir á stríðs­tímum

Í byrjun septem­ber heim­sótti úkraínski rit­höfundurinn Andrej Kúr­kov Ís­land til að taka á móti Al­þjóð­legum Bók­mennta­verð­launum Hall­dórs Lax­ness. Inn­rás Rússa í Úkraínu hefur nú staðið yfir í tíu mánuði og haft gífur­leg á­hrif á al­þjóð­legt sam­starf um gjör­vallan heim.

Bók­menntirnar eru þar ekki undan­skildar en hækkandi orku­kostnaður í Evrópu hefur meðal annars valdið því að skáld­sögur hafa hækkað í verði hér á landi. Kúr­kov hefur sjálfur staðið í ströngu og hefur ferðast víða um heim til að vekja at­hygli á stríðinu í heima­landinu. Það var því mikill fengur að fá þennan merka höfund í heim­sókn.

Bernardine Evaristo sem hlaut Booker-verðlaunin fyrir Stúlka, kona, annað 2019 tók þátt í Iceland Noir hátíðinni í nóvember 2022.
Fréttablaðið/Anton Brink

Pólitískar deilur

Iceland Noir há­tíðin var haldin í vetrar­skamm­deginu í lok nóvember, há­tíðin var upp­haf­lega glæpa­sagna­há­tíð en hefur nú víkkað út sjón­deildar­hringinn og er orðin al­þjóð­leg bók­mennta­há­tíð. Iceland Noir komst í fréttirnar í byrjun nóvember þegar Sjón dró sig úr þátt­töku í mót­mæla­skyni vegna fyrir­hugaðrar þátt­töku Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra og stefnu ríkis­stjórnarinnar í mál­efnum hælis­leit­enda.

Katrín sendi í haust frá sér frum­raun sína sem skáld­sagna­höfundur, glæpa­söguna Reykja­vík sem hún skrifaði með Ragnari Jónas­syni, einum skipu­leggj­enda Iceland Noir.

Svo fór að Katrín sagði sig einnig frá þátt­töku á há­tíðinni sem heppnaðist engu að síður vel þrátt fyrir pólitískar deilur. Fjöldi þekktra rit­höfunda kom fram á Iceland Noir, þar á meðal David Walli­ams, Richard Os­man og Booker-verð­launa­hafinn Bernardine Evari­sto.

Það er því deginum ljósara að inn­flytj­enda­bók­menntir eru sigur­vegarar bók­mennta­ársins 2022, sann­kölluð sin­fónía af er­lendum upp­runa.

Ár skáld­sögunnar

Jóla­bóka­flóðið er nú að fjara út og eru margir Ís­lendingar ef­laust í óða­önn að spæna sig í gegnum jóla­bækurnar. Skáld­sögur drottnuðu yfir jóla­bóka­flóðinu í ár og fór minna fyrir ljóða­bókum, fræði­ritum og barna­bókum. Þetta sést best á til­nefningunum til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna í flokki skáld­verka 2022 en þar en enga ljóða­bók að finna eins og síðasta ár, sem er mikill ljóður.

Fé­lag ís­lenskra bóka­út­gef­enda tók líka þá um­deildu á­kvörðun að sam­eina um­gjörðina á Ís­lensku bók­mennta­verð­laununum og glæpa­sagna­verð­laununum Blóð­dropanum. Það kemur í ljós í janúar hversu vel þessi hálf­gildings sam­eining heppnast en þó er ljóst að þetta er fremur villandi fyrir les­endur sem halda nú ef­laust sumir að for­sætis­ráð­herra Ís­lands hafi verið til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna.

Margir af stærstu höfundum Ís­lands voru með skáld­sögur í flóðinu og má þar til dæmis nefna Tól eftir Kristínu Ei­ríks­dóttur, Hamingju þessa heims eftir Sig­ríði Haga­lín Björns­dóttur, Dáin heims­veldi eftir Steinar Braga, Játningu eftir Ólaf Jóhann Ólafs­son og Út­sýni eftir Guð­rúnu Evu Mínervu­dóttur. Þó komu einnig út flottar bækur eftir yngri höfunda svo sem Lungu eftir Pedro Gunn­laug Garcia, Snuð, fyrsta skáld­saga Brynjólfs Þor­steins­sonar, og ljóð­sagan Allt sem rennur eftir Berg­þóru Snæ­björns­dóttur sem er á mörkum skáld­skapar og ljóða.

Jakub Stachowiak, Ewa Marcinek og Joachim B. Schimdt sendu öll frá sér bækur í ár.
Mynd/Samsett

Sigur­vegarar bók­mennta­ársins

Í fyrra kom út safn­ritið Pólifónía af er­lendum upp­runa á vegum Unu út­gáfu­húss með sýnis­horni af ljóð­list fimm­tán rit­höfunda af er­lendum upp­runa sem bú­settir eru á Ís­landi. Bókin markaði tíma­mót í út­gáfu hér á landi en líta má á hana sem eins konar for­leik því árið 2022 kom ber­sýni­lega í ljós hversu mikil gróska er í ís­lenskum inn­flytj­enda­bók­menntum. Fyrir ör­fáum árum voru inn­flytj­enda­bók­menntir vart til sem sjálf­stæð bók­mennta­grein á Ís­landi en á undan­förnum árum hefur orðið sprenging.

Í ár komu út minnst þrjú ís­lensk ljóð­verk eftir inn­flytj­endur, hið áður­nefnda Ís­land pólerað eftir Ewu Marcinek sem kom einnig út á ensku á vegum Ós pressunnar, önnur ljóða­bók pólsk-ís­lenska skáldsins Jakub Stachowi­ak, Úti bíður skáld­leg ver­öld, og svo Mál­taka á stríðs­tímum, fyrsta ljóða­bók rúss­nesk-ís­lenska skáldsins Nat­öshu S. sem fékk Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar í októ­ber. Sú bók er ein sterkasta frum­raun ljóð­skálds á þessari öld, bók sem talar beint inn í sam­tímann og fjallar um inn­rásina í Úkraínu frá sjónar­horni Rússa sem fylgist harmi sleginn með stríðs­brölti landa sinna úr fjar­lægð.

Þá má einnig nefna ís­lenska þýðingu hins ó­venju­lega krimma Kalmann eftir sviss­neska höfundinn Joachim B. Schmidt sem er ís­lenskur ríkis­borgari. Það er því deginum ljósara að inn­flytj­enda­bók­menntir eru sigur­vegarar bók­mennta­ársins 2022, sann­kölluð sin­fónía af er­lendum upp­runa.