Bókmenntaárið 2022 var bæði fjölbreytt og viðburðaríkt enda náði menningarlífið nú loks að hrista af sér hamfarahlekki Covid-áranna. Árið hófst að vanda á afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum í lok janúar fyrir bækur síðasta árs.
Sigurvegararnir voru Sigrún Helgadóttir fyrir Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni í flokki fræðibóka og rita almenns efnis, Þórunn Rakel Gylfadóttir fyrir Akam, ég og Annika í flokki barna- og ungmennabóka og Hallgrímur Helgason fyrir Sextíu kíló af kjaftshöggum í flokki skáldverka.

Hallgrímur er vel að verðlaununum kominn enda hefur hann hlotið mikið lof fyrir skáldsögur sínar um síldarævintýrin. Þó verður að segja að valið var ekki ýkja frumlegt í ljósi þess að hann hlaut einnig bókmenntaverðlaunin fyrir fyrri bók sína í seríunni, Sextíu kíló af sólskini, og mætti því spyrja sig hvort nefndin sé ekki núna skuldbundin til að gefa honum prísinn fyrir þriðju bókina þegar hún kemur út til að vera samkvæm sjálfri sér.

Furðuleg Fjöruverðlaun
Í mars tók Fríða Ísberg svo á móti Fjöruverðlaununum fyrir skáldsögu sína Merkingu, eina eftirminnilegustu bók ársins 2021. Þakkarræða Fríðu vakti mikla athygli en þar fjallaði hún meðal annars um fæðingu frumburðar síns og innrás Rússa í Úkraínu. Fjöruverðlaunin eru nú ekki lengur bara bókmenntaverðlaun kvenna heldur var verðlaununum nýlega breytt í verðlaun kvenna, trans, kynsegin og intersex fólks og má því spyrja sig hvort upprunalegur tilgangur þeirra, að upphefja kvennabókmenntir, sé enn í gildi nú þegar þau eru orðin verðlaun fyrir alla nema sís karlmenn.
Fjöruverðlaunin skilgreindu sig lengi vel sem mótvægi við Íslensku bókmenntaverðlaunin, fjaran sem verður eftir að flóðinu loknu, en tilnefningarnar í ár sýna svo ekki verður um villst að verðlaunin eru á villigötum sem róttækt bókmenntaafl. Tvær af þremur tilnefndum bókum í flokki fagurbókmennta (Eden eftir Auði Övu og Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur) eru nefnilega einnig tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Ef Fjöruverðlaunin ætla að endurheimta vigt sína í bókmenntaheiminum þurfa þau annað hvort að leita aftur til upprunans og tilnefna verk eftir kvenhöfunda sem orðið hafa undir í jólabókaflóðinu eða verða raunverulega róttækt afl fyrir alla kynjaflóruna í stað þess að bjóða kynsegin, trans og intersex höfundum bara að vera með sem eftiráhugsun.
Ef Fjöruverðlaunin ætla að endurheimta vigt sína í bókmenntaheiminum þurfa þau annað hvort að leita aftur til upprunans og tilnefna verk eftir kvenhöfunda sem orðið hafa undir í jólabókaflóðinu eða verða raunverulega róttækt afl fyrir alla kynjaflóruna í stað þess að bjóða kynsegin, trans og intersex höfundum bara að vera með sem eftiráhugsun.

Ljóðið ratar til sinna
Eins og gengur og gerist urðu ekki mörg stórtíðindi í bókaútgáfu á fyrstu mánuðum ársins. Ljóðaútgáfan er þó gjarnan nokkuð sterk á vorin og komu nokkur eftirminnileg verk út í vor svo sem þrettánda ljóðabók Sjóns, Næturverk, fyrsta bók pólsk-íslenska skáldsins Ewu Marcinek, Ísland pólerað, og önnur ljóðabók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Við lútum höfði fyrir því sem fellur.
Maístjarnan var veitt í maí fyrir ljóðabók ársins 2021 en í þetta skiptið hreppti Haukur Ingvarsson verðlaunin fyrir Menn sem elska menn, eina áhrifamestu ljóðabók síðustu ára.
Maístjarnan eru sennilega lýðræðislegustu bókmenntaverðlaun landsins enda lúta þau engum markaðsöflum ólíkt Íslensku bókmenntaverðlaununum heldur eru allar útgefnar ljóðabækur ársins gjaldgengar. Þó er löngu kominn tími til að hefja þau til vegs og virðingar enda hefur ekki farið mikið fyrir verðlaununum síðan þau voru stofnuð 2017.

Sumarbókaflóðið
Bókmenntaárið fór á fullt skrið í haust en athygli vekur að sumir útgefendur eru farnir að þjófstarta jólabókaflóðinu. Bjartur gaf til að mynda út tvær nýjar íslenskar skáldsögur, Sólrúnu eftir Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur og Vængjalaus eftir Árna Árnason í lok ágúst sem verður að teljast jákvætt því bókmenntir eiga erindi allt árið um kring en ekki bara á aðventunni.
Þá geta útgefendur verið klókir og nýtt sér tómið sem myndast í útgáfu yfir hásumarið til að gefa út tilraunakennd verk sem eiga á hættu að verða undir í jólabókaflóðinu. Una útgáfuhús gaf út tvær slíkar bækur síðasta sumar, smásagnasafnið Sápufuglinn eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur og leikritið Ókyrrð eftir Brynju Hjálmsdóttur, sem vöktu báðar töluverða athygli.

Bókmenntir á stríðstímum
Í byrjun september heimsótti úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov Ísland til að taka á móti Alþjóðlegum Bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness. Innrás Rússa í Úkraínu hefur nú staðið yfir í tíu mánuði og haft gífurleg áhrif á alþjóðlegt samstarf um gjörvallan heim.
Bókmenntirnar eru þar ekki undanskildar en hækkandi orkukostnaður í Evrópu hefur meðal annars valdið því að skáldsögur hafa hækkað í verði hér á landi. Kúrkov hefur sjálfur staðið í ströngu og hefur ferðast víða um heim til að vekja athygli á stríðinu í heimalandinu. Það var því mikill fengur að fá þennan merka höfund í heimsókn.

Pólitískar deilur
Iceland Noir hátíðin var haldin í vetrarskammdeginu í lok nóvember, hátíðin var upphaflega glæpasagnahátíð en hefur nú víkkað út sjóndeildarhringinn og er orðin alþjóðleg bókmenntahátíð. Iceland Noir komst í fréttirnar í byrjun nóvember þegar Sjón dró sig úr þátttöku í mótmælaskyni vegna fyrirhugaðrar þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum hælisleitenda.
Katrín sendi í haust frá sér frumraun sína sem skáldsagnahöfundur, glæpasöguna Reykjavík sem hún skrifaði með Ragnari Jónassyni, einum skipuleggjenda Iceland Noir.
Svo fór að Katrín sagði sig einnig frá þátttöku á hátíðinni sem heppnaðist engu að síður vel þrátt fyrir pólitískar deilur. Fjöldi þekktra rithöfunda kom fram á Iceland Noir, þar á meðal David Walliams, Richard Osman og Booker-verðlaunahafinn Bernardine Evaristo.
Það er því deginum ljósara að innflytjendabókmenntir eru sigurvegarar bókmenntaársins 2022, sannkölluð sinfónía af erlendum uppruna.
Ár skáldsögunnar
Jólabókaflóðið er nú að fjara út og eru margir Íslendingar eflaust í óðaönn að spæna sig í gegnum jólabækurnar. Skáldsögur drottnuðu yfir jólabókaflóðinu í ár og fór minna fyrir ljóðabókum, fræðiritum og barnabókum. Þetta sést best á tilnefningunum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki skáldverka 2022 en þar en enga ljóðabók að finna eins og síðasta ár, sem er mikill ljóður.
Félag íslenskra bókaútgefenda tók líka þá umdeildu ákvörðun að sameina umgjörðina á Íslensku bókmenntaverðlaununum og glæpasagnaverðlaununum Blóðdropanum. Það kemur í ljós í janúar hversu vel þessi hálfgildings sameining heppnast en þó er ljóst að þetta er fremur villandi fyrir lesendur sem halda nú eflaust sumir að forsætisráðherra Íslands hafi verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Margir af stærstu höfundum Íslands voru með skáldsögur í flóðinu og má þar til dæmis nefna Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur, Hamingju þessa heims eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Dáin heimsveldi eftir Steinar Braga, Játningu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Útsýni eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Þó komu einnig út flottar bækur eftir yngri höfunda svo sem Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia, Snuð, fyrsta skáldsaga Brynjólfs Þorsteinssonar, og ljóðsagan Allt sem rennur eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er á mörkum skáldskapar og ljóða.

Sigurvegarar bókmenntaársins
Í fyrra kom út safnritið Pólifónía af erlendum uppruna á vegum Unu útgáfuhúss með sýnishorni af ljóðlist fimmtán rithöfunda af erlendum uppruna sem búsettir eru á Íslandi. Bókin markaði tímamót í útgáfu hér á landi en líta má á hana sem eins konar forleik því árið 2022 kom bersýnilega í ljós hversu mikil gróska er í íslenskum innflytjendabókmenntum. Fyrir örfáum árum voru innflytjendabókmenntir vart til sem sjálfstæð bókmenntagrein á Íslandi en á undanförnum árum hefur orðið sprenging.
Í ár komu út minnst þrjú íslensk ljóðverk eftir innflytjendur, hið áðurnefnda Ísland pólerað eftir Ewu Marcinek sem kom einnig út á ensku á vegum Ós pressunnar, önnur ljóðabók pólsk-íslenska skáldsins Jakub Stachowiak, Úti bíður skáldleg veröld, og svo Máltaka á stríðstímum, fyrsta ljóðabók rússnesk-íslenska skáldsins Natöshu S. sem fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í október. Sú bók er ein sterkasta frumraun ljóðskálds á þessari öld, bók sem talar beint inn í samtímann og fjallar um innrásina í Úkraínu frá sjónarhorni Rússa sem fylgist harmi sleginn með stríðsbrölti landa sinna úr fjarlægð.
Þá má einnig nefna íslenska þýðingu hins óvenjulega krimma Kalmann eftir svissneska höfundinn Joachim B. Schmidt sem er íslenskur ríkisborgari. Það er því deginum ljósara að innflytjendabókmenntir eru sigurvegarar bókmenntaársins 2022, sannkölluð sinfónía af erlendum uppruna.