Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Edinborg hlutu fimm stjörnu dóm í The Herald og fjórar stjörnur í The Scotsman. Þeir hljómuðu í Usher Hall og voru áttundu og síðustu tónleikar sveitarinnar í vel heppnaðri tónleikaferð um Bretland dagana 8. til 16. febrúar. Hún lék í mörgum af virtustu húsum landsins, meðal annars Symphony Hall í Birmingham og Royal Concert Hall í Nottingham.

Stjórnandi sveitarinnar var Yan Pascal Tortelier, fyrrverandi aðalhljómsveitarstjóri hennar. Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld hljómsveitarinnar, var með í för, enda var verk hennar, Aeriality, flutt á öllum tónleikum ferðarinnar. Tveir heimskunnir píanóleikarar komu til liðs við sveitina, þau Jean-Efflam Bavouzet og Yeol Eum Son, sem skiptust á að flytja píanókonsert Ravels. Einnig lék hljómsveitin L'Arlesienne svítuna eftir Bizet og sinfóníu nr. 1 eftir Sibelius.

Hljómsveitin hefur hlotið mikið lof á tónleikaferðalaginu. Gagnrýnandi Reviews Gate gaf tónleikunum í Nottingham einnig fimm stjörnur og sagði: „Blóðheit spilamennska ásamt stefnufastri túlkun skildi áheyrendur eftir þyrsta í að heyra meira.“

Með ferðinni fagnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands 70 ára afmæli sínu, hún hélt sína fyrstu tónleika 9. mars 1950. Þetta var fyrsta tónleikaferð hennar um Bretland en áður hefur hún haldið eina tónleika í London, á Proms-tónlistarhátíð BBC árið 2014.