Bob Dylan varð áttræður í fyrra og heldur ótrauður áfram, með sextíu ára feril að baki. Tónleikaferð vegna nýjustu plötunnar, Rough and Rowdy Ways, stendur nú yfir og hefur söngvarinn ferðast um Bandaríkin þver og endilöng síðan í nóvember í fyrra. Síðasti leggur ferðarinnar er Evróputúr sem hefst í september. Dylan hefur leika í Osló, fer þá næst til Stokkhólms og síðan til Kaupmannahafnar. París og Brussel eru næst á listanum og þá lýkur 11 mánaða tónleikaferðinni í Amsterdam þann 17. október.

Athygli vekur að símabann er á öllum tónleikunum og er tónleikagestum gert að skila símum í öryggistösku. Því geta þeir ekki notað tækin meðan á sýningu stendur.

Símabannið er ekki nýtt fyrirbæri hjá stjörnunni en Dylan rataði í fréttirnar eftir tónleika í Austurríki í apríl 2019, þegar hann stöðvaði tónleika í miðju lagi til að ræða við áhorfendur sem höfðu reynt að ná af honum myndum þrátt fyrir bannið.

„Við getum annaðhvort spilað eða stillt okkur upp,“ sagði hann pirraður við áhorfendur áður en hann söng eitt lag í viðbót og gekk svo af sviðinu.

Hljómsveitin lauk þá kvöldinu snemma með ósunginni útgáfu af „Just like Tom Thumb’s Blues.“

Árið 2010 birti The Wall Street Journal grein þar sem höfundur lýsti því hvernig Dylan brosti aldrei á tónleikasviði og talaði aldrei beint við áhorfendur. Hann hvorki dansaði né ferðaðist um á sviðinu, en þrátt fyrir það kynni hann svo sannarlega að setja á fót stórkostlega sýningu, á eigin forsendum. Dylan hefur einnig verið gagnrýndur fyrir frjálslegar endurútsetningar á tónleikum þar sem lögin verða næsta óþekkjanleg.

Tónlistarmaðurinn hefur vaðið fyrir neðan sig ef bransinn skyldi bregðast honum og setur ekki öll eggin í eina körfu. Fyrir nokkrum árum sneri hann sér að viskíbransanum. Hann framleiðir í dag nokkrar viskítegundir undir merkjum Heaven’s Door í Tennessee. Miðstöð vörumerkisins er í 160 ára gamalli kirkju í miðbæ Nashville. n