Verðlaunin sem Billie hlaut voru fyrir plötu ársins, lag ársins, smáskífu ársins og nýliða ársins en þessi fjögur verðlaun þykja þau eftirsóttustu á hátíðinni. Auk þess tók hún heim með sér verðlaun fyrir best sungnu poppplötu ársins.

Söngkonan sem er ekki nema 18 ára gömul, tók upp sitt fyrsta lag, Ocean Eyes, árið 2015 þegar hún var tæplega 14 ára. Lagið var samið af eldri bróður hennar Finneas O‘Connell sem hefur verið hennar helsti samstarfsmaður, en hann hlaut einnig Grammy verðlaun fyrir framleiðslu á plötu systur sinnar. Eftir útgáfu lagsins Ocean Eyes, sem systkinin settu inn í tónlistarveituna Soundcloud, fór boltinn að rúlla.

Á síðasta ári gaf söngkonan út plötuna When we all fall asleep, where do we go? sem skaut þessari hæfileikaríku ungu stúlku svo sannarlega upp á stjörnuhimininn en það var fyrir hana sem hún sópaði að sér Grammy verðlaunum.

Gucci þema

Það má sannarlega segja að söngkonan fari sínar eigin leiðir í fatavali. En klæðnaðurinn sem Billie mætti í á Grammy verðlaunin vakti mikla athygli. Hún var klædd víðum grænum og svörtum Gucci fötum, og hönskum úr samskonar efni. Hún var með langar neglur grænlakkaðar í stíl við fötin en hárið á henni var einnig litað grænt og svart. Auk þess var hún með dökk sólgleraugu og andlitsgrímu sem náði yfir nef og munn úr samskonar svörtu efni og fötin sem hún klæddist.

Þegar Billie kom fram á hátíðinni og söng með bróður sínum var hún líka klædd víðum Gucci fötum, hvítum í þetta sinn, en Finneas var í hvítum Gucci jakkafötum í stíl við systur sína.

Gucci þemað hjá Billie var gegnumgangandi allt kvöldið. Í eftirpartíi eftir verðlaunahátíðina var hún kominn í enn ein Gucci fötin, í þetta sinn víðan rauðan og bláan jogginggalla alsettan Gucci merkinu en undir peysunni var hún í hvítum og gylltum Gucci bol.

Í grænum og svörtum Gucci alklæðnaði.
Billie Eilish var í Gucci jogginggalla í eftirpartíinu.
Systkinin í stíl í hvítum Guggi fötum.