Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson hefur tryggt sér réttinn á glæpasögunni Tíbrá eftir Ármann Jakobsson, sem út kom hjá Bjarti á dögunum. Tíbrá er þriðja glæpasaga Ármanns og hefur hún hlotið góðar viðtökur, setið á metsölulistanum í Eymundsson frá fyrsta degi og fékk fjórar stjörnur í Fréttablaðinu fyrir skemmstu.

Fjórir ungir menn fara saman á veiðar – misjafnlega vanir skotvopnum. Hvað gæti farið úrskeiðis? Eina andvökunóttina sér níræð kona, sannkallað hörkutól, mann með derhúfu bogra yfir stóru röri í nágrenni íbúðar hennar í úthverfi Reykjavíkur. Þegar hún lítur þar við á göngu síðar, sér hún lík.

Hér fæst rannsóknarteymið, sem lesendur þekkja úr fyrri bókum Ármanns, við afar sérstakt sakamál: nestorinn Bjarni, Kristín, arftaki hans, hin formfasta Margrét Krabbe og fallegi kvennabósinn Njáll.