„Þessi sýning hjá mér, CozyBoy, fjallar um þetta sem er stolin list, appropriation art,“ segir kvikmyndaframleiðandinn og listamaðurinn Sigurjón Sighvatsson.

Á annan í jólum í fyrra opnaði Sigurjón sýninguna Becoming Richard á 287 auglýsingaskiltum víðs vegar um Reykjavík. Nú hefur sýningin af útiskiltunum verið aðlöguð öðru rými og verið fundinn staður í mánuð, frá og með deginum í dag til áttunda janúar, í pop up-galleríi á Hafnartorgi.

„Þetta er svolítið tengt því sem við köllum ready made,“ segir Sigurjón og rifjar upp sambærileg verk Jeff Koons og Andy Warhol, þegar sá síðarnefndi tók ljósmynd af söngvaranum Prince, skar hana til og bjó til listaverk. Mál Prince- seríunnar þykir fordæmisgefandi í sambærilegum málum fyrir bandarískum dómstólum og enn er ekki útkljáð í dómskerfi vestra hvar línan liggur milli hugverkaþjófnaðar og sköpunar.

„Þessi listamaður sem ég tek frá heitir Richard Prince. Hann er þekktur fyrir málaferli þar sem hann hafði tekið ljósmyndir, sem ljósmyndari hafði tekið in the seventies fyrir Malboro-auglýsingar,“ segir Sigurjón. „Hann málaði þær án þess að gefa ljósmyndaranum kredit og ljósmyndarinn fór í mál. Hann settlaði þau málaferli sem þýddi að eitthvað var hann að viðurkenna fyrst að hann borgaði,“ segir Sigurjón. „Ég tók textann frá honum og bjó til mín eigin verk.“

Í bæklingi viðburðarins segir að spurningin um höfund og höfundarrétt hafi líklega aldrei verið áleitnari en nú. Þar segir enn fremur: „Sannarlega hafa þessi varanlegu verk sterkari höfundareinkenni en þau upphaflegu. Eru slík einkenni næg til að hann geti kallað þau sín eigin eða eru þau bara ólistræn aðlögun að hinum upprunalegu verkum Prince sem eru þegar allt kemur til alls hreint ekki upprunaleg, sama hvað hann segir sjálfur?“