Telma Ýr Birgisdóttir, kennari í sjötta bekk Smáraskóla, sagði í samtali við Fréttablaðið þegar Lestrarkeppni grunnskólanna, Samrómur, hófst 20. janúar að skólinn stefndi að sjálfsögðu á titilvörn þriðja árið í röð.

Sú varð raunin en keppnin var þó hörð að þessu sinni þar sem skólar víða um land tóku hressilega við sér þannig að um 1,3 milljón raddsýna safnaðist sem er 100 prósent aukning á milli ára.

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid settu keppnina í Smáraskóla en spennan náði hámarki á endasprettinum og lokadagurinn var sá stærsti í sögu keppninnar þegar keppendur lásu samtals 487.936 setningar.

Grunnskólarnir sem tóku þátt í ár voru 118 og um 5.652 krakkar tóku þátt. Verðlaun voru veitt, eftir stærð skólanna, fyrir þrjú efstu sætin. Salaskóli í Kópavogi sigraði í A flokki, stærri skóla. Þar lásu 703 keppendur inn 107.075 setningar.

Eliza Reid, forsetafrú ásamt Lúkas-Matei Danko og Emilíu Guðný Magnúsdóttur.
Mynd/Mummi Lú

Smáraskóli í Kópavogi bar sigur úr í býtum í flokki B, skóla í miðstærð, auk þess sem þar var lesturinn í keppninni mestur, 236.470 setningar með 914 þátttakendum.

Í flokki C, sem nær yfir smærri skóla landsins, sigraði Höfðaskóli með 153.288 setningum sem lesnar voru af 353 þátttakendum.

Þá voru veitt þrenn aukaverðlaun fyrir framúrskarandi árangur með tilliti til fjölda setninga sem hver skóli las, þvert á flokkana og þar náði Sandgerðisskóli framúrskarandi árangri með 593 keppendum sem lásu 208.535 setningar. Öxarfjarðarskóli og Gerðaskóli fengu einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur. Í Öxarfjarðarskóla lásu 285 keppendur 147.189 setningar og fyrir Gerðaskóla tóku 406 keppendur þátt með 89.336 lesnar setningar.

Vefurinn samrómur.is verður opinn áfram og allir eru hvattir til að halda áfram lestri inn í gagnagrunninn og leggja þannig sitt af mörkum til eflingar íslenskunnar í stafrænni framtíð.