Sigurður Ingvarsson leikur í fjórðu seríu sjónvarpsþáttanna Killing Eve sem Netflix mun sýna á næsta ári þannig að vegur þessa 23 ára leikara og handritshöfundar vex hratt þótt hann ljúki ekki leiklistarnámi við LHÍ fyrr en næsta vor. Meðleikarar Sigurðar í þáttunum eru meðal annarra Sandra Oh, Kim Bodnia og Jodie Comer í aðahlutverki sjálfrar Eve. Umboðskrifstofa Sigurðar, Móðurskipið, greindi frá þessu í dag.

Siggi, eins og hann er jafnan kallaður, þreytti frumraun sína í kvikmyndaleik í sjónvarpsmyndinni Mannasiðum eftir Maríu Reyndal sem sýnd var á RÚV og hlaut verðlaun sem sjónvarpsmynd ársins 2018. Stuttu síðar fékk hann veigamikið hlutverk í myndinni Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins og er væntanleg 2022 og nú síðast lék hann í fjórðu þáttaröðinni af Killing Eve sem kemur einnig út á næsta ári.

Siggi fékk í fyrrasumar styrk til þess að skrifa nokkur útvarpsverk fyrir Kópavogsbæ sem báru yfirtitilinn SKOKK og hann hefur áhuga á að þreifa frekar fyrir sér sem handritshöfundur.

Áður en Siggi fór í leikaranám, stundaði hann nám í latínu og grísku við Háskóla Íslands en leikhæfileikana á hann ekki langt að sækja, verandi sonur leikarahjónanna Eddu Arnljótsdóttur og Ingvars E. Sigurðssonar og bróðir leikkonunnar Snæfríðar Ingvarsdóttur.