Sigurður Gíslason, eigandi veitingastaðarins GOTT í Vestmannaeyjum, ætlar að búa til taco og steikur úr 400 kílóa túnfisknum um helgina.

Sigurður birti mynd af sér með nýveiddum túnfisknum á Facebook og gaf Fréttablaðinu góðfúslegt leyfi til að birta. Túnfiskurinn er af tegundinni Bluefin-tuna og er 275 sentímetrar að lengd.

Túnfiskurinn var veiddur við strendur Vestmannaeyja af makrílbátnum Heimaey í gær. Sigurður segir „þetta vera gullið í þessu.“ Hann segir tegundina vera ofboðslega sjaldgæfa og enginn frystir af þessari stærð, þar sem hann þarf að geymast við sjötíu gráðu frost.

Mikill spenningur er yfir fengnum í eldhúsinu í Eyjum og er enn verið að þróa réttina fyrir helgina.