Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir, eigandi Vinnupalla og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem gleður alla sælkera. Sigríður er þekkt fyrir að vera ótrúlega lífsglöð og gefandi manneskja og kann svo sannarlega að gefa lífinu lit. Útgeislun hennar og jákvæðni kemur meira segja fram í matseðlinum hennar. Hún er líka á því að við séum það sem við borðum og því skipti sköpun hvað við látum ofan í okkur. Jafnframt er hún á því að vert sé að næra sig og velja hráefni eftir árstíðum.
„Það er gott að næra sig vel á veturna þegar kalt og létta fæðið með hækkandi sól og hitastigi. Fá næga orku og fitu. Stunda hreyfingu inni sem úti og fá eins mikið sólskin og hægt er. Það er ein mikilvægasta næringin sem við þurfum vegna legu landsins – skammdegið getur leikið okkur grátt.“
Sigríður er á detox ferðalagi þessa dagana. „Ég er hálfnuð á 9 vikna detox ferðalagi sem tekur til líkama, anda og sál. Það þýðir að ég bæti við eða tek út tvo hluti í hverjum hluta og bæti þannig líf mitt og fólks í kringum mig – og tek mér tíma til að ganga þessa hreinsunarvegferð. Við erum það sem við borðum. Svo einfalt er það. Reyndar líka það sem við hugsum og gerum en það er annað innslag.“
Næring grunnur að góðu lífi
Á stóru heimili skiptir máli að huga að fjölbreytni þegar kemur að mat. „Það búa heima hjá mér bæði krakkar og ungt fólk og því mikilvægt að þau fái öll næringu sem heldur þeim gangandi í hversdagnum. Fjölbreytni og gott hráefni eru lykilatriði til að það gangi upp. Við hjónin vinnum mikið og erum afar samstíga því við erum ólík, með afar mismunandi takt. Hann vaknar snemma, vekur mig með kossi og er rokinn af stað á meðan ég er ennþá í öðru tímabelti og kem síðan öllu fólki út úr húsinu til sinna skóla/starfa – ég er kvöldhress og með allt tilbúið þegar ljúfurinn mætir heim, en þarf að segja allt sem segja þarf fyrir kvöldfréttir því eftir þær er hann andlega búinn að setja á hljóðlaust í okkar sambandi. Næring er alger grunnur að góðu lífi.“
Mánudagur – Fiskur er málið
„Við erum svo ótrúlega heppin að hafa fiskbúð á næsta horni og við stundum hana grimmt og erum vansæl þegar hún fer í sumarfrí. Við erum með fisk of sjaldan í matinn og aðallega útaf óreglulegri dagskrá heimilismeðlima – hver á þá að elda? En fiskisúpa er skothelt mál og vel til að mæla með þessari guðdómlegu humarsúpu tvistaðir til með sjávarfangi.“
Sjá uppskrift hér.

Þriðjudagur – Næringarríkt vetrarsalat
„Mér finnst gott að þykjast vera heilsusamleg fyrri hluta vikunnar, vitandi það að ég muni gefa eftir undan álagi þegar á líður vikuna. Þess vegna hneigist ég til salata fyrri hluta vikunnar en verð þó að viðurkenna að veðurfarið stýrir oft fæðinu og einna helst bornin mín. Þetta finnst mér frábær útgáfa af salati.“
Sjá uppskrift hér.

Miðvikudagur – Kínóasalat að hætti landsliðskonunnar í fótbolta
„Ég er grænkeri og elska að borða grænmeti í öllum útgáfum. Einnig að prófa mig áfram með alls kyns útgáfur að meðlæti. Af einhverjum orsökum hefur kínóa skotið sér ástarörvum í hjarta og það virðist vera hægt að nota það í hreinlega allt og með öllu. Mæli með að prófa sig áfram – auðvelt og aðgengilegt hráefni. Salatið hennar Öglu Maríu steinliggur.“
Sjá uppskrifthér.

Fimmtudagur – Ljúffeng Croque monsieur
„Hluti af því að reka stórt heimili og umfangsmikil verkefni er að allir hlutaðeigendur öðlist sjálfstæði og rými til að Vera. Börnin mín kunna öll að elda, líka stelpan mín sem er 8 ára. Þau mættu að ósekju taka betur til en það skiptir okkur hjónin meira máli að börnin séu sjálfbjarga.
Þau kunna öll að græja sér “Nagla” en það er að taka fyrirliggjandi hráefni og búa til skapandi útgáfu úr því eins og Croque Monsieur/Madame hefur eflaust byrjað sem þessi dásemd.“
Sjá uppskrift hér.

Föstudagur – Pitsakvöld fjölskyldunnar
„Það er alger klassík og uppáhald er að hafa smá sukkmat á föstudögum. Krakkarnir elska að hafa bíókvöld og þykjast ráða heimilinu í nokkra klukkutíma – við hjónin leyfum það með glöðu geði og spilum með. Heimalöguð pitsa býður einnig upp á samveru sem nútíminn virðist alltaf kroppa í.“
Sjá uppskrift hér.

Laugardagur – Grilluð nautalund sem gleður
„Laugardagur er iðulega vinnudagur hjá okkur hjónum en við reynum eftir fremsta megni að hafa góðan kvöldmat. Ungir menn hafa síst áhuga á samveru á laugardagskvöldum svo oftast erum við aðeins fjögur og lágstemmt. Það er notalegt og gefur matnum meira rými og vægi. Kjöt og meðlæti sem tekur tíma að elda – saman – er skothelt dæmi.“
Sjá uppskrift hér.

Sunnudagur – Sunnudagur til sælu
„Á sunnudagsmorgun er frátekin stund fyrir okkur hjónin að borða saman með börnunum okkar og lesa blöðin, bækur, prjóna, spila LP plötur og iðka samveru. Þessi stund vill oft verða að vöfflukaffi með rjóma, sultu og berjum þegar líður á daginn. Það er því sjaldnast eldað á sunnudagskvöldum enda erum við farin að undirbúa komandi viku af fullum krafti.“
„Njótum komandi vordaga og hlúum að okkur hverju sinni.“