Ljósmyndarinn Hrafn tekur þátt í stærstu ljósmyndahátíð Norðurlandanna. Hann fékk heilablóðfall árið 2009 og nýtir ljósmyndunina til að veita öðrum innsýn í sitt sjónarhorn sem fatlaðs einstaklings.

Ljósmyndarinn Hrafn Hólmfríðarsson Jónsson, oftast kallaður Krummi, tekur nú þátt í stærstu ljósmyndahátíð sem haldin er á Norðurlöndunum, Copenhagen Photo festival. Hún stendur yfir frá 3.–30. júní og verða yfir þrjátíu sýningar í gangi yfir þetta tímabil. Hrafn er eini Íslendingurinn sem sýnir á hátíðinni í ár. Það verður að teljast mikill heiður að Hrafn hafi verið einn af þeim þrjátíu sem boðin var þátttaka. Hrafn byrjaði að taka ljósmyndir árið 2017 eftir að hafa keypt myndavél í Fotografika á Strikinu.

Sýningin er sú þriðja í röð sýninga Hrafns sem hann kallar Skrölt. Mynd/Hrafn

„Ég er þrjátíu og eins árs Vesturbæingur. Ég fékk heilablæðingu árið 2009 og varð í kjölfarið fatlaður. Ljósmyndun hefur gert mér kleift að taka mína ófærni í sátt og einblína á það sem ég er fær um að gera. Ég hafði þörf á að sýna og tjá mitt sjónarhorn sem fatlaður einstaklingur en áhuginn minn þróaðist hratt í almennan áhuga á ljósmyndunarmiðlinum,“ útskýrir Hrafn, sem útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í janúar.

Hrafn segir þó ljósmyndunina alltaf hafa verið mikið í hans nærumhverfi.

„Þannig lá það beint fyrir mér að tjá mig á þann hátt.“

SKRÖLT III er titillinn á ljósmyndaverkinu sem er til sýnis á Copenhagen Photo Festival.

Áhugi Hrafns á ljósmyndun þróaðist mjög hratt.

„Það er þriðji kaflinn í heildarljósmyndaverkinu SKRÖLT, þar sem ég skrölti um mitt nærumhverfi í Vesturbænum og tek ljósmyndir.“

SKRÖLT III sýnir framandi upplifun á nærumhverfi Hrafns eftir að samkomubann var sett á í faraldrinum.

„Á þeim skrítnu tímum skrölti ég áfram og raðaði flóknum, jafnvel óþekktum hugsunum í ljósmynd. Myndavélin spilaði stórt hlutverk í faraldrinum hjá mér, að mynda þetta ástand, brjóta það upp. Það að finna mitt eigið samhengi færði mér ró og rými til að skilja. Titillinn SKRÖLT er skírskotun í mitt óhefðbundna göngulag,“ segir Hrafn.

Hrafn á sýningunni SKRÖLT III í Kaupmannahöfn.

Hrafni finnst áhugaverðast að taka ljósmyndir í aðstæðum sem flestir myndu ekki telja ástæðu til að mynda.

„Svo finnst mér líka flókið að orða minn stíl, ég skrölti um og tek ljósmyndir, finnst það vera minn stíll.“

Ljósmyndaskólinn vakti áhuga útskriftarnema á því að senda inn umsókn í verkefni sem heitir Futures Nordic og er á vegum Copenhagen Photo Festival og Futures Photography.

„Bæði samtök vinna að því að vekja athygli á ungum ljósmyndurum á Norðurlöndunum og þátttaka í sýningunni er hluti af þessu verkefni. Þetta Futures Nordic-verkefni er enn í gangi og spennandi hlutir í burðarliðnum,“ segir Hrafn.

Verkin á sýningunni eru sýnd á mjög óhefðbundinn hátt.Mynd/Hrafn
Ljósmyndarinn myndar helst í svart-hvítu. Mynd/Hrafn