„Ég var bara ein af þessum heppnu. Skurð­læknirinn sagði við mig að ég væri gangandi krafta­verk. Það sá það í raun enginn fyrir að ég myndi ná að snúa þessu svona mér í hag,“ segir Rósa Björg Karls­dóttir, í­þrótta­kennari og heilsunuddari, sem vann það af­rek um síðustu helgi að hlaupa 106 kíló­metra í Hengill Ultra-utan­vega­hlaupinu.

Það að hlaupa rúma hundrað kíló­metra í einni beit er af­rek sem ekki margir geta hreykt sér af. Þegar litið er á sögu Rósu verður af­rekið í raun enn stærra enda eru ekki svo mörg ár síðan öll hreyfing var henni gríðar­lega erfitt og það eitt að sitja var henni mikil á­skorun. Hún greindist með krabba­mein í ristli, enda­þarmi, leg­hálsi og eitlum árið 2009 og gekkst undir um­fangs­mikla að­gerð í kjöl­farið sem hún var nokkur ár að jafna sig á. Eftir veikindin er Rósa með stóma og það geta fylgt því ýmsar á­skoranir.

Kláraði á rúmri 21 klukku­stund


Hlaupið um síðustu helgi var gríðar­lega krefjandi enda veður nánast eins og það gerist verst hér á landi í júní­mánuði: Rigning, rok og hvass­viðri og hitinn á köflum einungis ör­fáar gráður. Þrátt fyrir það kom aldrei til á­lita hjá Rósu að gefast upp enda hefur hún tekist á við erfiðari á­skoranir í lífi sínu.

Hengill Ultra-utan­vega­hlaupið er stærsta utan­vega­hlaup ársins hér á landi, en hlaupið er í sex vega­lengdum: 160, 106, 53, 26, 10 og 5 kíló­metra. Rósa kom í mark á tuttugu og einni og hálfri klukku­stund, eða á sama tíma og hlaupa­fé­lagi hennar, tengda­sonurinn Sæ­var Már Atla­son, sem hefur verið henni stoð og stytta í hlaupunum á undan­förnum árum.

Kastaði upp og nærðist lítið


Hlaupararnir í 106 kíló­metra hlaupinu voru ræstir út klukkan 22 á föstu­dags­kvöldinu og segir Rósa að hlaupið hafi ekki beint byrjað gæfu­lega fyrir hana. Hún kastaði nokkrum sinnum upp í fyrri hringnum og nærðist lítið allt hlaupið.

„Ég náði að halda niðri ein­hverjum þremur kanil­snúðum og græn­metis­soði þegar við kláruðum fyrri hringinn, en heilt yfir náði ég að drekka alveg ó­trú­lega lítið miðað við kíló­metrana sem ég fór,“ segir Rósa þegar hún er spurð hvernig hlaupið gekk.

Ef ekki væri fyrir tengda­son hennar, Sæ­var Már, er ekki víst að Rósa hefði komist í mark því þegar skammt var eftir af hlaupinu byrjaði hún að sjá í móðu. „Og þegar við áttum eftir sirka 5-7 kíló­metra þá bara hvarf sjónin,“ segir Rósa sem hélt í Sæ­var síðustu kíló­metrana og hlupu þau saman í mark. Hún segist hafa hvatt Sæ­var til að halda á­fram og klára hlaupið án hennar en hann ekki tekið það í mál. Annað hvort færu þau saman yfir enda­línuna eða ekki.

Af­taka­veður var í seinni hringnum frá Sleggju­beins­skarði upp á Vörðu­skeggja og virðist það hafa farið illa í augun á Rósu. „Það komu rispur á horn­himnuna hjá mér sem hefur gerst þar sem líkamann vantaði vökva og augun voru ekki að fram­leiða tár eða vökva og svo hafði þessi mikli vindur sín á­hrif.“

Erfitt að undir­búa sig fyrir svona þol­raun


Þegar hún kom í mark, tæpum sólar­hring eftir að hlaupið byrjaði og eftir sam­tals rúm­lega 4.000 metra hækkun, kom í ljós að hún þjáðist af of­þornun og svo­kölluðu rá­kvöðvarofi (e. r­habdo­myolysis) sem getur gerst við mikla á­reynslu. Eftir hlaupið fór hún á Heil­brigðis­stofnun Suður­lands á Sel­fossi þar sem hún fékk vökva og eftir­fylgd eftir hlaupið. Þegar blaða­maður hitti Rósu á kaffi­húsi í Hafnar­firði á mið­viku­dag var þó ekki að sjá að hún væri mjög eftir sig eftir hlaupið og virkaði hún hin hressasta.

Skipu­leggj­endur hlaupsins gera ríkar kröfur um að hlauparar séu vel búnir og verða þeir til dæmis að vera með neyðar­flautur, höfuð­ljós, ál­teppi og auka­föt. Rósa segir að hún hafi verið með allan skyldu­búnaðinn með sér en hann hafi hrein­lega ekki dugað til í því veðri sem var á svæðinu um helgina. „Seinni hringurinn var bara hausa­vinna og það er erfitt að undir­búa sig líkam­lega fyrir svona að­stæður,“ segir hún.

Þrjár ferðir á Esjuna


Hlaup eins og þetta krefst mikils undir­búnings og segir Rósa að hún og Sæ­var hafi hafið form­legar æfingar fyrir hlaupið í desem­ber­mánuði. Þau voru með þrjár fastar æfingar í viku; morgunæ­fingar klukkan sex tvo daga vikunnar, annars vegar í Heið­mörk þar sem þau hlupu í brekkum í klukku­stund og hins vegar hlupu þau hverfis­hringinn í Vallar­hverfi í Hafnar­firði; fram hjá Hval­eyrar­vatni, hest­húsa­hverfinu, Ás­lands­hverfinu og aftur heim en hringurinn er rúmir 10 kíló­metrar.

„Svo tókum við alltaf eitt langt hlaup eftir há­degi á föstu­dögum þar sem við hlupum 18-25 kíló­metra. Þegar fór að líða nær hlaupi þá tókum við stundum fjórar æfingar og fórum þá jafn­vel þreytt út morguninn eftir langt hlaup,“ segir hún. Svo var farið á Esjuna, einu sinni þrjár ferðir upp og niður í einni beit og einu sinni tvær ferðir. Loka­undir­búningurinn var svo rúm­lega 50 kíló­metra hlaup þar sem þeim var skutlað upp á Esju­mela klukkan 20 á mið­viku­dags­kvöldi.

„Við byrjuðum að fara upp og niður Esjuna og svo þræddum við okkur alla leið niður á Vellina og hlupum 55 kíló­metra yfir nóttina. Við á­kváðum að taka langa æfinga­hlaupið okkar yfir nótt til að kynnast því hvernig það er. Maður veit nefni­lega ekki hvernig skrokkurinn bregst við og þar sem ég er með stóma vildi ég líka vita hvað biði mín ná­kvæm­lega.“ hjálpað henni að komast aftur á fætur.

Rósa og Sævar áður en lokaundirbúningurinn hófst. Þeim var skutlað upp á Esjumela og hlupu svo heim í Hafnarfjörð yfir fjöll og firnindi.
Mynd/Úr einkasafni

Myndi aldrei skila tengda­syninum


Að­spurð hvort hún hafi verið til­búin í 106 kíló­metra hlaupið eftir þetta langa undir­búnings­hlaup segist Rósa telja að svo hafi verið. Þau hafi í upp­hafi ætlað að hlaupa lengra en á­kveðið að stytta hlaupið að­eins. Á einum tíma­punkti hafi komið til um­ræðu að þau myndu láta sækja sig við Búr­fells­gjá en þá hafi kostur þess að hafa góðan hlaupa­fé­laga komið í ljós. „Við á­kváðum í sam­einingu að við myndum klára þetta,“ segir Rósa en henni er aug­ljós­lega mjög annt um tengda­son sinn, Sæ­var.

„Hann er miklu öflugri hlaupari og hraðari en ég. En hann er hlaupa­fé­lagi minn og til­búinn að fylgja mér. Það eru al­gjör for­réttindi. Ég myndi aldrei vilja fara svona vega­lengdir bara ein. Það er svo mikil­vægt að hafa ein­hvern með sér. Þegar maður missir fókusinn þá er ein­hver til staðar sem pikkar í þig og þú heldur á­fram. Það eru al­gjör for­réttindi og ég hef stundum sagt við dóttur mína að ég myndi skila henni en ekki tengda­syninum,“ segir Rósa og hlær.

Hún nefnir einnig eigin­mann sinn, Orra, sem hún segist eiga allt að þakka. Hann hafi aldrei gefist upp á að hvetja hana á­fram og hafi enda­lausa trú á henni. Það sama megi segja um dætur hennar tvær.

Rétt fer­tug og í topp­formi þegar hún greinist


Rósa byrjaði í raun ekki að æfa hlaup mark­visst fyrr en síðla árs 2018, en eins og fyrr segir greindist hún með al­var­legt og langt gengið krabba­mein haustið 2009.

„Þegar ég greinist er ég starfandi kennari hér í Hafnar­firði og líkams­ræktar­kennari í Hreyfingu,“ segir hún en eðli málsins sam­kvæmt voru þessi tíðindi henni mikið á­fall. Rósa hafði gengið á milli lækna í tölu­verðan tíma áður en hún greindist og segir hún að læknar hafi í fyrstu talið úti­lokað að svona al­var­legt krabba­mein væri að hrjá hana. Rósa var enda rétt 41 árs þegar hún greindist og í topp­formi.

Karkur kemur til sögunnar


Eftir greininguna árið 2009 tóku við lyfja­með­ferðir, geisla­með­ferð og skurð­að­gerðir sem settu nánast allt á hliðina eins og Rósa orðar það.

„Á þeim tíma­punkti hélt ég að ég myndi aldrei geta hreyft mig aftur. Þetta fer í rauninni mjög illa með mann en eitt af því sem hjálpaði mér gríðar­lega í mínum veikindum var að við fengum hvolp upp í hendurnar árið 2010,“ segir Rósa sem vísar þarna í Husky-hundinn Kark sem gekk í gegnum súrt og sætt með Rósu eftir veikindin. Karkur dó árið 2015 en hún á í dag þrjá Husky-hunda sem allir eru undan honum; Karkur er pabbi eins og afi hinna tveggja. Hundarnir þrír fara með Rósu og Sæ­vari nánast í hvert einasta hlaup. Hún segir að Karkur hafi reynst henni ó­metan­legur og

Rósa er mjög dugleg að viðra hundana og fara þeir með henni í nánast hvert einasta hlaup.
Mynd/Sigtryggur Ari

„Hans hlut­verk var eigin­lega að koma og bjarga mér,“ segir Rósa sem bætir við að Karkur hafi verið ein­stak­lega þægi­legur hvolpur. Fyrst um sinn þurfti Rósa nánast að læra að nýju að ganga niður tröppurnar heima hjá sér. „Hann bara dundaði sér við það með mér að fara niður þrjár til fjórar tröppur og svo fórum við aftur upp í svefn­her­bergi og sváfum í fjóra tíma. Svo einn daginn gátum við farið alveg niður tröppurnar, svo út að næsta ljósa­staur – skref fyrir skref.“

Átti erfitt með að sitja í nokkur ár


Af­rek Rósu að hlaupa rúma hundrað kíló­metra í einni beit er mikið þegar litið er til veikinda­sögu hennar. Hún segir að líkami hennar verði aldrei eins eftir krabba­meinið og hún glími í raun enn við af­leiðingar af lyfja­með­ferðum og skurð­að­gerðum. Stærsta að­gerðin sem hún gekkst undir árið 2009 tók ellefu klukku­stundir.

„Hún var ofsa­lega erfið; ég var í raun og veru öll þessi ár að ná mér eftir hana. Þá var ég nánast skorin frá rófu­beini upp í leg­göng og frá líf­beini upp í rif­bein,“ segir hún en í að­gerðinni var stór hluti af ristli tekinn, enda­þarmur fjar­lægður og leg­háls. „Ég átti alveg erfitt með að sitja í 4-5 ár og öll hreyfing var gríðar­lega erfið, hvort sem var að ganga eða bara að sitja.“

Rósa segir að sterk and­leg heilsa skipti miklu máli því fótunum sé al­gjör­lega kippt undan fólki sem greinist með al­var­legt krabba­mein. Hún segir að frá fyrsta degi hafi hún verið á­kveðin í að berjast og breiða ekki yfir sig sængina þó hún hefði kannski haft allar af­sakanir í heimi til að gera það.

„Ég get alltaf dregið upp krabba­meins­spjaldið og sagt að hitt eða þetta sé ekki í boði fyrir mig. Ég ætlaði mér alltaf að komast aftur út í lífið á ein­hvern hátt, þó það yrði ekki með sama hætti og áður,“ segir hún.

Fyrsta keppnis­hlaupið 2019


Segja má að Rósa hafi verið í fimm til sex ár að ná sér eftir krabba­meinið en að veturinn 2015/16 hafi farið að birta al­menni­lega til á nýjan leik. Þá hafi hún fyrst fundið fyrir því að hún væri komin yfir þessar erfiðu skurð­að­gerðir og sætta sig við að vera með stóma. „Þá fer ég að átta mig á að ég get samt gert ýmis­legt þrátt fyrir allt.“

Hún sá þó ekki endi­lega fyrir sér að leggja fyrir sig utan­vega­hlaup, hvað þá að rjúfa 100 kíló­metra múrinn.

„Ég man til dæmis eftir því að árið 2013 eða 2014 prófaði ég að mæta í hlaupa­hóp en ég gafst upp því það var lögð svo mikil á­hersla á hraða,“ segir hún. Það var svo í nóvember 2018 að hún kynntist Náttúru­hlaupum þar sem hún kynntist allt annarri nálgun á hlaup en áður.

„Þar er bara á­hersla á að njóta og þú getur farið þá vega­lengd á þeim hraða sem þér hentar. Þar eru frá­bærir þjálfarar og þar upp­lifði ég hvað hlaup eru skemmti­leg. Þá var ekkert aftur snúið,“ segir hún.

Eitt leiddi af öðru og strax sumarið 2019 tók Rósa þátt í sínu fyrsta hlaupi með Sæ­vari tengda­syni sínum. Þau hlupu Vestur­götuna á Vest­fjörðum, 24 kíló­metra hlaup í góðu veðri, og gekk hlaupið vonum framar. Þau fóru svo 53 kíló­metra í Hengill Ultra sumarið 2020 sem þau kláruðu á um átta klukku­stundum.

„Þá reyndar sögðum við að við ætluðum aldrei að hlaupa lengra. En svo tókst mér að plata Sæ­var með mér í 106 kíló­metrana,“ segir Rósa og hlær.

Hleypur fyrir þau


Á undan­förnum árum hefur Rósa starfað sem stuðnings­full­trúi fyrir Kraft, fé­lag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabba­mein og að­stand­endur þeirra. Rósa segist hafa kynnst mörgum í gegnum tíðina sem hafa tapað sinni bar­áttu.

„Mér finnst ég alltaf vera að hlaupa svo­lítið fyrir þau, gera það sem ég get fyrir þau og alla hina sem hafa misst heilsuna sína. Það er líka eitt af því sem drífur mig á­fram,“ segir hún en tekur fram að hún vilji ekki setja sig á ein­hvern stall þrátt fyrir sína sögu. „Það þurfa ekki allir að hlaupa 100 kíló­metra til að verða góð fyrir­mynd,“ segir hún.

Hún segir að ást­ríða hennar fyrir hlaupum eigi sér einnig kannski að hluta ein­hverja sál­fræði­lega skýringu. „Þegar maður hefur staðið á brúninni í lífinu þá þarf maður kannski eitt­hvað svona til að ögra sér. Ég hef stjórn á hlaupunum og get stimplað mig út úr þeim hve­nær sem er en ég hafði enga stjórn á því þegar ég var lasin. Það er kannski dá­lítið það sem maður er að sækjast eftir, fara í krefjandi að­stæður sem maður hefur samt stjórn á.“

Allir dagar geggjaðir


Þar sem Rósa er með stóma þarf hún að passa sér­stak­lega vel upp á að fá góða næringu þar sem upp­taka næringar­efna er erfiðari en ella. Hún þarf að gæta þess að fá nægan vökva og passa upp á inn­töku víta­mína. Hún leggur á­herslu á – og hefur alltaf lagt á­herslu á – að borða hollan mat og forðast sykur eins og hún getur. Fyrir hlaupið borðaði hún góð kol­vetni, prótín og mat sem hún veit að fer vel í hana.

Eitt af því sem hefur reynst Rósu vel er inn­taka kolla­gens. Hún glímir við tauga­skemmdir eftir lyfja­með­ferðirnar en þær lýsa sér þannig að það er eins og hún sé með nála­doða í fótum, höndum og and­liti og á það til að stífna upp í skrokknum.

„Þetta hverfur aldrei en eitt af því sem ég fann að hjálpaði mér var að taka inn kolla­gen. Ég er orðin 53 ára þannig að náttúru­leg fram­leiðsla kolla­gens hefur minnkað. Alla daga byrja ég á að fá mér vatn og kollag­en­duft og BCAA og drekk þetta á fastandi maga,“ segir hún. Þetta hafi hjálpað henni í endur­heimtinni eftir löng hlaup, það skipti miklu máli hvað fólk setur ofan í sig þar sem það er elds­neytið fyrir næsta hlaup.

Rósa er já­kvæð og bjart­sýn að eðlis­fari og hún er þakk­lát fyrir hvern dag sem hún fær. „Mér finnst bara allir dagar svo geggjaðir, mér finnst geggjað að vakna og það er grenjandi rigning og ég fer út að labba með hundana. Mér finnst það í al­vörunni for­réttindi,“ segir hún og bætir við að sumir eigi kannski erfitt með að skilja þetta.

Partýið var búið snemma


Rósa segir að skipu­leggj­endur Hengils Ultra eigi hrós skilið fyrir alla skipu­lagninguna í kringum hlaupið um síðustu helgi. Hún gagn­rýnir þó eitt varðandi hlaupið og það er hversu fáir voru á svæðinu þegar þau komu í mark á laugar­dags­kvöldinu.

„Við erum að klára á rétt rúmum 21 tíma og tíma­ramminn var 22 tímar þrátt fyrir hrika­legar að­stæður. Það er í raun stór­kost­legt af­rek og við erum búin að leggja gríðar­lega mikið á okkur,“ segir hún og bætir við að partýið hafi í raun verið búið þegar þau komu í mark á laugar­dags­kvöldinu.

„Það var bara fjöl­skyldan sem tók á móti okkur,“ segir hún og kveðst skilja vel að aðrir kepp­endur hafi verið farnir af svæðinu. Sjúkra­t­eymið hafi hins vegar líka verið farið og þeir sem hafi verið lengst í brautinni þurfi senni­lega mest á því að halda. „En um­gjörð hlaupsins í heildina var geggjuð, frá­bært fólk á drykkjar­stöðunum og Einar [Bárðar­son] og þau öll eiga allt hrós skilið fyrir frá­bært hlaup. En það þarf að hugsa þetta líka. Af­rekið hjá okkur er alveg jafn mikið og hjá þeim sem vann því við erum öll að keppa á mis­munandi for­sendum.“

Getur hugsað sér að fara aftur


Að­spurð hvort hún ætli að halda upp­teknum hætti og fara jafn­vel sömu vega­lengd á næsta ári, eða jafn­vel 160 kíló­metra, segist Rósa alveg geta hugsað sér að gera þetta aftur. „Fjöl­skyldan óttast að ég fái aðrar mis­gáfu­legar hug­myndir,“ segir hún.

Næst á dag­skrá er þó þriggja daga ferð til Siglu­fjarðar í ágúst þar sem hún ætlar á vera á fjalla­hjóli og hlaupa í fjöllunum. „Svo ætla ég að taka Eld­slóðina í haust sem er hluti af Víkinga­móta­röðinni. Það eru tæpir 30 kíló­metrar. Við höfum tekið þá leið í æfinga­hlaupi og hún er mjög skemmti­leg.“

Rósa og Sævar kláruðu hlaupið á rúmum tuttugu og einum og hálfum tíma um síðustu helgi.
Mynd/Mummi Lú

Fyrstu skrefin í utan­vega­hlaupum

Það er ó­hætt að segja að mikil vakning hafi verið í utan­vega­hlaupum hér á landi undan­farin misseri. Þátt­takan í Hengill Ultra um liðna helgi var til merkis um það en met­þátt­taka var í hlaupinu. En hvernig eiga þeir sem vilja byrja að feta sig á­fram í utan­vega­hlaupum að bera sig að?

„Ég myndi segja öllum að byrja á að fá sér góða skó,“ segir Rósa og bendir þeim sem hafa á­huga á að hlaupa í hópum að hafa til dæmis sam­band við Náttúru­hlaup. Þar sé lögð á­hersla á að njóta hlaupanna og allir geti fundið hópa við sitt hæfi.

Ef fólk vilji byrja á að feta sig á­fram eitt og sér mælir hún til dæmis með Hval­eyrar­vatni eða Vífils­staða­vatni. Hval­eyrar­vatn ofan Hafnar­fjarðar er mikil úti­vistar­para­dís og er hringurinn í kringum vatnið mjög hæfi­legur fyrir byrj­endur, eða rétt um tveir kíló­metrar á góðum malar­stíg.

„Byrja bara að taka einn hring og svo hægt og ró­lega að lengja þetta. Við eigum enda­laust af náttúru­perlum en það mikil­vægasta er að vera á góðum skóm,“ segir Rósa sem sjálf hleypur í Brooks-skóm sem hafa reynst henni vel. „En ég myndi mæla með að skrá sig í Náttúru­hlaup. Þar lærðirðu að vera úti að hlaupa, kynnist fullt af hlaupa­leiðum, lærir hvernig þú átt að vera út­búinn og svo fram­vegis. En þegar maður byrjar eru allar vega­lengdir á­skorun,“ segir hún að lokum.