Halloween (1978)

Auðvitað á engin hryllingsmynd betur við þetta tilefni en tímamótaverk Johns Carpenter, Halloween frá 1978, sem bæði hóf búrhnífinn til vegs og virðingar sem morðvopn eftir að hann hafði legið í sturtubotni Hitchcocks síðan Psycho var og hét og kynnti til sögunnar Michael Myers sem er svo öflugt skrímsli að hann er enn að.


Hocus Pocus (1993)

Tónninn og stemningin í Hocus Pocus er mun léttari og hentar fleirum. Myndin gerist í því annálaða nornabæli Salem í Massachusetts, sannkölluðum hrekkjavökubæ, og segir frá baráttu unglingspilts við að halda aftur af þremur nornum sem eru full hressar þrátt fyrir að hafa verið hengdar fyrir svartagaldur 300 árum áður.


The Craft (1996)

Þessi unglingahrollur hefur hvorki tapað sjarma sínum né krafti á þeim 25 árum sem liðin eru frá frumsýningu. Fairuza Balk er líka enn alveg jafn mögnuð sem leiðtogi ungnornasveims sem laðar til sín nýju stelpuna í skólanum, enda eru þeim allir vegir færir með kukli sínu. Hafa ber í huga að myndin hefur átt það til að kveikja nornadrauma hjá ungum áhorfendum.


The Omen (1976)

Það má færa ýmis rök fyrir því að The Omen sé ein allra besta hryllingsmynd síðari tíma. Leikstjórinn Richard Donner er ásamt leikurunum Lee Remick og Gregory Peck í toppformi í nöturlegri sögu af sendiherrahjónum sem fá æ sterkar á tilfinninguna að barnungur sonur þeirra sé óskilgetið barn andskotans, sjálfur anti kristur hvorki meira né minna.