Fiskvinnslukonan Sigga Vigga birtist fyrst árið 1959 á síðum Alþýðublaðsins en myndasögur Gísla J. Ástþórssonar um tilveru hennar í slorinu hjá Þorski h/f hafa verið ófáanlegar um langt árabil. Aldarafmæli Gísla hefur hins vegar gefið afkomendum hans kjörið tilefni til endurútgáfu sem þau stefna á að hópfjármagna á Karolinafund.com.

Gísli var framsækinn blaðamaður, ritstjóri, rithöfundur og teiknari en myndasögur hans um ævintýri Siggu Viggu teljast til fyrstu kynslóðar íslenskra myndasagna og er fyrsta bók seríunnar jafnframt talin fyrsta útgefna íslenska myndasögusafnið.

Gísli J. Ástþórsson kom víða við á nær hálfrar aldar blaðamannsferli og kynnti Siggu Viggu fyrst til leiks í Alþýðublaðinu 1959.
Mynd/Aðsend

„Hún birtist fyrst í Alþýðublaðinu 1959 og var svona nokkurn veginn fullsköpuð í lok þess árs,“ segir Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur og sonur Gísla J. Ástþórssonar, höfundar hinna rómuðu myndasagna um Siggu Viggu sem birtist landsmönnum fyrst reglulega á síðum Alþýðublaðsins.

„Ég held reyndar að hann hafi ekki verið þar nema fjögur eða fimm ár og hún fór síðan yfir á Morgunblaðið þegar pabbi fór þangað og svo held ég að hún hafi endað ævina á Dagblaðinu.

Lífið er saltfiskur

Bókaflokkurinn Sigga Vigga og tilveran dregur upp mannlega, broslega og beitta mynd af íslenskum sjávarútvegi og fiskvinnslu. Sigga Vigga hefur unnið í saltfiski hjá Þorski h/f síðan hún man eftir sér, er ósérhlífin, skapgóð og dugleg þannig að hún lendir oftast í verstu verkefnunum.

Henni verður þó aldrei misdægurt en þarf grunsamlega oft að vera við jarðarför ömmu sinnar þegar landsleik ber upp á vinnudag. Bjartsýni Blíðu, bestu vinkonu Siggu Viggu, er óbilandi og hún er stöðugt á eftir kærasta sem helst þarf að eiga trillu og forskalað hús.

Bækurnar um Siggu Viggu komu út á árabilinu 1978-1980.
Mynd/Aðsend

Ástþór útilokar ekki að líta megi á Siggu Viggu sem ein hvers konar verkalýðshetju og sem slík eigi hún mögulega erindi við samtímann. „Já, það má vel vera. Hún var náttúrlega þeim megin og hún og Blíða voru í svona eilífu stríð við forstjórann Gvend hjá Þorski h/f.“

Sem eigandi Þorsks h/f var Gvendur í sífelldum kröggum, rembdist við að vera harður húsbóndi og grét á útborgunardögum. „En það var samt eitthvað gott í Gvendi líka. Hann var ekki alvondur,“ segir Ástþór og hlær og bætir við að auðmenn liðins tíma hafi kannski ekki verið alveg í Excel-örkinni.

Magnaðar sögur

Allar bækurnar fimm verða saman í öskju í viðhafnarútgáfunni og fjölskyldan hefur fengið Úlfhildi Dagsdóttur, bókmenntafræðing og myndasögusérfræðing, til þess að rita formála.

„Okkur fannst gott að fá hana og hún var meira en til og þetta verður allt saman í kassanum. Bækurnar fimm og svona formálahefti með,“ segir Ástþór. Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson, sá mikli myndasögumaður, verður auk Úlfhildar með erindi á opnun yfirlitssýningarinnar í mars en hann hefur áður haft þetta um Siggu Viggu að segja:

Mynd/Aðsend

„Sögurnar um Siggu Viggu eru magnaðar. Ekki bara vegna þess að þær tilheyra fyrstu kynslóð íslenskra myndasagna, heldur vegna yrkisefnisins.“

Ástþór segir sýninguna þó víðfeðmari en svo að þar sé lífið bara saltfiskurinn hennar Siggu Viggu.

Þar verði leitast við að gera rithöfundinum, blaðamanninum, og teiknaranum skil. „Við erum náttúrlega með ýmislegt úr búi pabba og mömmu og þegar við fórum svona að róta í hans dóti þá sá maður kannski að hann var talsvert afkastamikill. Bæði í þessum teiknimyndaseríum og rithöfundarferillinn var nokkuð langur líka.“

Söfnunin á Karolinafund er í fullum gangi hér.

Fiskvinnslukona fer í þorskastríð

Þessi teikning Gísla í Alþýðublaðinu markaði upphafið á ævintýrum Sigu Viggu.
Mynd/Aðsend

Þann 9. maí árið 1959 birtist skopmynd í Alþýðublaðinu eftir Gísla J. Ástþórsson, blaðamann, rithöfund og teiknara. Myndin birtist í miðju þorskastríði og sýndi litla stelpuskjátu í stígvélum og með naglaspýtu; hún hafði grætt breskan flotaforingja með hrekkjum sínum.

Myndin vakti mikla athygli og birtist á síðum erlendra stórblaða, meðal annars í London Times. Í kjölfarið óx orðstír og ásmegin stúlkunnar, og fiskverkakonan knáa Sigga Vigga varð til.

Sigga Vigga og félagar hennar hjá Þorski h/f birtust landsmönnum fyrst reglulega á síðum Alþýðublaðsins, síðar í Morgunblaðinu og DV, og einnig í fimm myndasögubókum sem bókaútgáfan Bros gaf út á árunum 1978–1980. Ævintýri Siggu Viggu og félaga teljast til fyrstu kynslóðar íslenskra myndasagna og er fyrsta bók seríunnar jafnframt talin fyrsta útgefna íslenska myndasögusafnið.

Gísli J. Ástþórsson (1923-2012)

Gísli J. Ástþórsson fæddist í Reykjavík 5. apríl 1923 og var á sinni tíð þekktur sem blaðamaður, ritstjóri, rithöfundur, pistlahöfundur og teiknari. Hann lærði blaðamennsku i háskóla í Bandaríkjunum árin 1943–45 og var sennilega fyrsti menntaði íslenski blaðamaðurinn.

Gísli sló nýjan tón í blaðamennsku á Íslandi og lagði áherslu á fréttaflutning óháð flokkspólitík. Hann var einnig fjölhæfur listamaður og eftir hann liggja skáldsögur, smásögur, barnabók og leikrit, auk myndasögubóka um Siggu Viggu. Einnig var hann með þætti í útvarpi.

Tilvera Siggu Viggu, Blíðu og Gvends var undarlegt ferðalag.
Mynd/Aðsend

Fyrstu árin að loknu námi starfaði Gísli á Morgunblaðinu. Þaðan lágu leiðir Gísla víða, til sjós og lands. Hann stofnaði meðal annars og ritstýrði blaðinu Reykvíkingi, var ritstjóri Vikunnar og síðar Alþýðublaðsins sem undir stjórn Gísla efldist mjög undir formerkjum harðrar og óháðrar blaðamennsku sem og vandaðs umbrots.

Á Alþýðublaðsárunum birtust einnig fyrstu ádeiluteikningar Gísla, til að mynda ævintýri Siggu Viggu. Gísli sneri aftur til Morgunblaðsins árið 1973, stýrði meðal annars Sunnudagsblaðinu og hélt áfram að birta ádeilumyndir. Ber þar kannski hæst skopmyndaseríuna Þankastrik. Gísli var einkar fjölhæfur og eftir hann liggja átta bækur, skáldsögur og smásagnasöfn, fjögur leikrit, þar af þrjú sjónvarpsleikrit, pistlar, teikningar, bækurnar fimm um Siggu Viggu auk teiknimyndasafnsins Plokkfisks.