„Ég var með streymi í fyrra og það verður að segjast að mikil spenna leikur í loftinu eftir því að geta farið aftur á svið með jólatónleikana og hafa fólk í Eldborgarsalnum,“ segir Sigga.

Hún bætir við að það hafi verið sérstakt og tekið svolítið á að syngja fyrir tómum sal í fyrra. „En Guð minn góður, núna fáum við að gera þetta fyrir fullan sal af fólki og þetta er náttúrlega alveg tvennt ólíkt.“

Gestir og óskalög

Fullur salur af fólki gefur Siggu vitaskuld tilefni til að tjalda öllu til. „Ég er með alveg frábæra gesti í ár. Þau eru náttúrlega bara hvert um sig alveg bara æðisleg,“ segir Sigga um þau Ellen Kristjáns, Katrínu Halldóru, Gissur Pál og Bjarna Ara, sem verða með henni ásamt Karlakórnum Fóstbræðrum.

„Það er gaman að fá að velja með þeim lögin sem þau syngja,“ heldur Sigga áfram og segir gestina að sjálfsögðu velja sín lög en hún sé einnig með nokkur óskalög.

Vaknar við jólabjöllur

Sigga er eðli málsins samkvæmt komin snemma í jólastuð en segist hins vegar aldrei fá leið á þessu. „Ég er nú löngu byrjuð að vinna í tónleikunum og er að leggja lokahönd á lagalistann núna,“ segir Sigga, sem hlustar á jólalögin dagana langa við undirbúninginn. „Ég náttúrlega vakna með þetta í hausnum þannig að maður er alveg kominn svolítið inn í þetta.“

Sigga bætir við að miðasalan á jólatónleikana sem hún kallar venju samkvæmt Á hátíðlegum nótum sé komin á fleygiferð hjá Hörpu og Tix.is. „Ég er bara rosalega ánægð með það. Ég held líka að fólk sé svo tilbúið einmitt núna að fara á viðburði ,þannig að ég held að fólk ætti ekkert að bíða ef það ætlar sér á tónleika eða annað slíkt.“