Ein ástsælasta söngkona landsins, Sigga Beinteins, greinir frá því í færslu á Facebook-síðu sinni að hún hafi látið glepjast af kínverskri sölusíðu. Hún pantaði sér jakka og kjól, sem voru báðir talsvert óhressari við komuna til landsins en myndir bentu til.

Sigga lætur skjáskot af jakkanum eins og hann var sýndur á sölusíðunni fylgja með færslunni, og sést þar fallegur gulur jakki með gylltum hnöppum. „Ætlaði að fá mér töff vorjakka og reyna að vera smá töff þegar vorið kæmi,“ skrifar Sigga.

Eins fylgir mynd af jakkanum eins og hann leit út þegar Sigga fékk hann til sín. „[É]g myndi ekki kalla þetta jakka, ég hef aldrei séð annað eins rusl. En þetta verður fín bóntuska á bílinn, smá dýr kannski en fer þá alla vega ekki strax í ruslið,“ skrifar söngkonan með færslunni.

Hún segist líka hafa keypt sér kjól, sem var ekki mikið skárri. „Passið ykkur á þessum síðum á Facebook, ég fékk líka einn kjól og hann er hræðilegur líka, þeir eru svo fyndnir þarna í Kína.“