Sigurður Gísli blandaði sér í Twitt­er-umræður þar sem hann sagðist fullviss um að hann væri hluti af því 0,0001 prósenti karla sem gæti gefið konum fullnægingu. „The body shakes eru unmistakable og þau koma í flestum ef ekki öllum tilfellum og oft mörgum sinnum í einu kvöldi,“ skrifaði Siggi og eru þessi orð orðin ódauðleg í netheimum.

Siggi hafði varla tíma til að ræða um málið, svo mikið er að gera hjá honum í vinnunni hjá Advania þar sem hann starfar við tölvuöryggismál auk þess sem hann var að koma á laggirnar svokallaðri knúsþjónustu sem er ótengd kynlífi.

„Þetta er eitthvað sem er alveg að taka Bandaríkin með stormi og ég kynntist þessu þar,“ segir Siggi sem bjó ytra í þrjátíu ár. Hann segist ekki láta neikvæð ummæli á Twitter á sig fá.

„The body shakes eru unmistakable og þau koma í flestum ef ekki öllum tilfellum og oft mörgum sinnum í einu kvöldi.“

„Það er bara eins og gengur og gerist með miðla eins og Twitter þegar þú segir eitthvað sem er eitthvað svona óvenjulegt, þá fer fólk að ráðast á þig,“ segir Siggi.

En ástarlíf þitt er gott?

„Já. Það eru sumir sem virðast eiga í erfiðleikum með að ég sé svona opinskár og það er bara þeirra vandamál. Og kannski er þetta eitthvert óöryggi,“ segir Siggi. Hann segist hreykinn af því hversu hreinskilinn hann er í samskiptum.

„Ég er meira vanur því að vera opinskár í almennum samtölum og in person,“ segir Siggi. „Og þar af leiðandi er ég náttúrulega líka opinskár í samtölum á Twitter.“

Siggi vill ekki meina að Bandaríkjamenn séu opnari um slík mál en Íslendingar. „Ég í rauninni upplifði það alveg öfugt. Mér finnst Íslendingar yfirleitt opnari en Bandaríkjamenn, um kynlíf, líkamsímynd, nekt og alls konar svona. Bandaríkjamenn eru mjög lokaðir fyrir öllu. Þetta er alveg stórt „no no“ í Bandaríkjunum, bara allt tal um nekt, eða kynlíf.“