Reykjavík stendur í ljósum 80´s-logum í laginu Reykjavík brennur þar sem Karl Orgeltríó teflir sjálfri Siggu Beinteins fram í mjög svo nostalgískum ham.

„Það er gaman að heyra rokkhliðina á Siggu aftur,“ segir Karl Olgeirsson, orgelleikari hljómsveitarinnar. „Svona var hún þegar ég heyrði hana fyrst með hljómsveitinni KIKK upp úr 1980.“

Reykjavík brennur kemur út, ásamt tónlistarmyndbandi, á fimmtudaginn í næstu viku og Karl lýsir laginu sem kraftmiklu afturhvarfi til nýbylgju og nýrómantíkur níunda áratugarins.

Sigga keyrði kraftinn upp

„Það var svo gaman daginn sem Sigga kom í hljóðverið að syngja þetta. Hún vildi meiri kraft í lagið og hafa það í sífellt hærri tóntegund þannig að við enduðum sex tónbilum ofar en við ætluðum í upphafi. Við þurftum að taka gítar og orgel upp aftur eftir á til að halda í við hana. Enda hljómar hún bara eins og tvítug Sigga.“

Karl og félagar fengu kvikmyndagerðarkonurnar Ástu Jónínu Arnardóttur og Signýju Rós til að gera tónlistarmyndbandið. „Þær ákváðu mjög fljótlega að skjóta það á gamla vídeóupptökuvél til að fá þetta 80´s lúkk. Það var mjög ánægjulegt að vinna með þeim en þrátt fyrir ungan aldur eru þær þrautreyndar og hafa unnið margskonar verkefni fyrir fjölmarga listamenn.“

Gamli leðurgallinn

Ekki spillti fyrir gleðinni að tökurnar fóru fram á skemmtilega sólríkum og heitum sumardegi í Reykjavík þannig að þau skemmtu sér konunglega við tökurnar sem fóru fram á Granda, í gamla fangelsisgarðinum á Skólavörðustíg og gámasvæði niðri á höfn. „Sigga var á suðupunkti í gamla leðurgallanum,“ segir Karl hæstánægður með þetta allt saman.

Karl segir að eftir að hafa unnið með Ragga Bjarna við síðustu stóru plötuna hans, Happy Hour, 2017 hafi hljómsveitin ákveðið að gera nokkur frumsamin lög með söngkonum. Reykjavík brennur, með Siggu, er þriðja slíka smáskífan og kemur í kjölfar What Can You Do To Me? með Rakel Sigurðardóttur og Bréfbátar með Sölku Sól. „Svo eru fimm lög í viðbót tilbúin, hvert með sinni söngkonunni. Þetta kemur allt út á vínylplötu á næsta ári en væntanlega náum við að senda nokkrar smáskífur frá okkur þangað til.“