Heimsmarkmiðin tóku gildi 1. janúar 2016 og gilda út árið 2030. Öll 193 ríkin sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum tóku ákvörðun um að taka upp þessi markmið.

„Megintilgangur þúsaldarmarkmiðanna var að efla stöðu fólks í þróunarríkjunum og færa þau nær iðnríkjunum. En heimsmarkmiðin taka inn fleiri þætti, ekki bara félagslega og efnahagslega þætti heldur líka umhverfismál. Það er þetta þrennt sem skapar stoðir sjálfbærrar þróunar,“ segir Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

„Heimsmarkmiðin ganga lengra en þúsaldarmarkmiðin og gilda um öll ríki heims. Þau er ekki bara hugsuð sem tæki í þróunarsamvinnu heldur eru þau hugsuð til að öll ríki heims taki þau til sín og vinni að þeim samhliða. Heimsmarkmiðin eru: Ef þú ætlar að búa í samfélagi sem er öruggt fyrir alla, þar sem aðgengi að þjónustu og atvinnu og öðru er gott þá verður líka að hafa umhverfismálin í lagi. Það er lífsviðurværið, við drögum náttúrulega allt frá náttúrunni.“

Ríkin 193 eru ekki skuldbundin því að vinna að markmiðunum að sögn Veru, en á Íslandi hafa verið gerðar áætlanir um hvernig íslenska ríkið ætlar að innleiða þau. „En það eru fleiri sem vinna að því að ná þessum markmiðum en ríkin eða Sameinuðu þjóðirnar. Þetta er verkefni sem sveitarfélög og fyrirtæki í einkageiranum hafa líka verið að vinna að,“ segir Vera.

„Hjá ríkinu eru heimsmarkmiðin til dæmis tengd inn í allar fjármálaáætlanir sem hafa verið gerðar. Þannig er hægt að mæla það beint hvort verið sé að verja nógum fjármunum í verkefni sem uppfylla heimsmarkmiðin. Ísland kynnti skýrslu um stöðuna á hérlendis hjá Sameinuðu þjóðunum í fyrrasumar. Ríkið er að vinna að verkefnum í þróunarsamvinnu sem stuðla að heimsmarkmiðunum og vinnur að því að tengja öll verkefni íslenska ríkisins við heimsmarkmiðin.“

Inni á vefsíðunni visar.hagstofa.‌is er hægt að finna upplýsingar um heimsmarkmiðin og þar er hægt að sjá mælikvarða sem mæla árangurinn á Íslandi. „Það er verið að tryggja að staðan sé sýnileg almenningi,“ útskýrir Vera og bætir við að sífellt fleiri fyrirtæki taki markmiðin inn í sínar áætlanir um samfélagsábyrgð.

„Nú eru líka fleiri og fleiri fjárfestar farnir að setja tengingu við heimsmarkmiðin og samfélagslega ábyrgð sem skilyrði fyrir fjárfestingu.“

Heimsmarkmiðin í heild eru 17 og undirmarkmiðin eru 169.

Hægt er að lesa um þau öll á vefsíðunni heimsmarkmidin.is. Þar er líka listi yfir verkefni sem sveitarfélög og fyrirtæki og aðrir aðilar sem eru að vinna verkefni sem tengjast heimsmarkmiðunum hafa skráð inn.