Æ fleiri stór tískuhús eru hætt að nota loðfeld dýra og hönnuðurinn Tom Ford var að bætast í hópinn. Tom Ford greindi nýverið frá því að hann væri hættur að nota ekta loðfeld í hönnun sína og myndi í stað þess nota gervifeld en hingað til hefur feldur verið afar áberandi í hönnun hans.

Sjálfur er Tom Ford á vegan-mataræði og hann segir að það sé eðlileg þróun fyrir hann að endurskoða þau efni sem hann notar í hönnun sinni. Þessu greindi hann frá í viðtali við Womans Wear Daily. Hann kvaðst þá ætla að halda áfram að nota leður svo lengi sem það er aukaafurð kjötframleiðslu.

En með þessu skrefi, að hætta að nota loðfeld, er Tom Ford þá að feta sömu leið og hönnuðir og tískuhús á borð við Gucci, Armani, Calvin Klein, Tommy Hilfiger, Vivienne Westwood og Ralph Lauren sem öll eru hætt að nota ekta loðfeld.

Valgerður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Grænmetisæta, er auðvitað himinlifandi með að sífellt fleiri áhrifavaldar innan tískuheimsins séu að taka skref í rétta átt. Hún væri til í að sjá fleiri íslenska hönnuði og fyrirtæki taka sér þetta til fyrirmyndar. „Það væri óskandi ef fyrirtæki í fataframleiðslu á Íslandi myndu taka sér erlendu tískuhúsin til fyrirmyndar og hætta notkun á dýrafeldum enda er ekki á nokkurn hátt hægt að réttlæta svo grimmdarlega meðhöndlun eins og dýr í loðdýrarækt þurfa að sæta. Gervi-loðfeldir eru orðnir mjög raunverulegir í útliti og í góðum gæðum og auðvelt að skipta yfir í þá. Bretland, Austurríki, Holland, Þýskaland og fleiri ríki heims hafa þegar bannað lodýrarækt og Noregur er nú einnig með það til skoðunar, ég vona að við fetum fljótlega í þeirra fótspor á Íslandi,“ segir Valgerður.