Lára Clausen, sem tók upp myndskeiðin af heimsókn hennar og Nadíu Sif Líndal á hótel enska landsliðsins síðustu helgi, opnar sig í viðtali við breska götublaðið Daily Mail.

Þar greinir hún frá síðustu skilaboðunum sem hún fékk frá fótboltakappanum Phil Foden eftir að sóttkvíarbrot hans og Mason Greenwood komst í heimsfréttir.

Þá hafi hún lesið fréttir um að Foden og Greenwood hafi verið reknir úr liðinu eftir að þeir gerðust sekir um brot á sóttvarnarlögum. Ákvað hún að senda skilaboð á Foden í gegnum Snapchat til að spyrja hann hvernig honum liði. Af viðbrögðum hans að dæma virtist hann ekki ætla að taka ábyrgð heldur kenna Láru sjálfri um umfjöllunina.

„Hann var reiður. Hann sagði: „Hvers vegna þurftir þú að gera þetta? Hvers vegna þurftir þú að taka myndir?“ Ég reyndi að útskýra, en hann sagðist ekki eiga tíma í þetta. Það var síðasta skiptið sem við töluðum saman,“ segir Lára.

Foden hefur síðan þá beðist afsökunar fyrir að hafa brotið sóttvarnarlög.

Drusluskömmun og ljót ummæli

Konurnar tvær sem hittu leikmennina hafa orðið fyrir mikilli drusluskömmun á kommentakerfum á netinu eftir að málið komst í fréttirnar þrátt fyrir að fótboltamennirnir hafi brotið sóttkví. Nadía og Lára segjast hvorugar hafa vitað af því að mennirnir hafi verið í sóttkví.

Bryndís Líndal sagði í samtali við Fréttablaðið að síðustu dagar hafi reynst dóttur hennar, Nadíu Sif Líndal, sérstaklega erfiðir vegna fjölda ljótra ummæla sem fólk lét falla um hana í kommentakerfum fréttamiðla.

„Fjölmiðlar og allar fréttasíður eru bara búnar að loga. Það er rosalega mikið af ljótum kommentum, virkilega ljótum kommentum frá fullorðnu fólki,“ segir Bryndís í samtali við Fréttablaðið um málið en hún vakti athygli á ummælunum í garð dóttur sinnar í Facebook færslu um málið. Hún segir ummælin vera til skammar og segir ótrúlegt hvað málið hafi gengið langt.