Í sjötta Ljóðbréfi Tunglsins, sem borið verður heim til kostunarmanna undir fullu tungli 8. desember næstkomandi, má meðal annars finna nokkur óbirt ljóð eftir skáldið Eirík Guðmundsson sem lést sviplega í sumar.
Í fréttatilkynningu frá Tunglinu segir: „Eiríkur var innblásið skáld og sannur orðlistamaður, á prenti sem í útvarpi. Að honum er sjónarsviptir í íslensku menningar- og listalífi. Hin einstaka rödd hans lifir hins vegar áfram í textum hans og ljóðum.“

Einstakt ljóðskáld og orðlistamaður
Að Tunglinu standa þeir Ragnar Helgi Ólafsson og Dagur Hjartarson. Ragnar Helgi segir Eirík Guðmundsson hafa verið góðvin Tunglsins.
„Eiríkur var vinur okkar og við höfðum falast eftir ljóðum frá honum í Ljóðbréf áður. Við vissum að Eiríkur var að vinna í handriti að ljóðabók og okkur langaði að minnast hans á einhvern veg í þessu hefti því hann var nú einstakt ljóðskáld og orðlistamaður.“
Ragnar bætir því við að hann og samstarfsmaður hans hjá Tunglinu Dagur Hjartarson vilji sérstaklega þakka syni Eiríks, Kolbeini Orfeusi, fyrir að veita þeim leyfi til að birta ljóð úr handriti föður síns.
Við vissum að Eiríkur var að vinna í handriti að ljóðabók og okkur langaði að minnast hans á einhvern veg í þessu hefti því hann var nú einstakt ljóðskáld og orðlistamaður.
Í ljóðbréfinu má einnig finna ljóð eftir fjölbreyttan hóp íslenskra og erlendra skálda. Meðal höfunda í sjötta hefti eru Gyrðir Elíasson, Natasha S., Haukur Ingvarsson, Páll Haukur Björnsson, Sjón, Elísabet Jökulsdóttir, Pétur Gunnarsson, Ana Mjallhvít Drekadóttir og Anne Carson. Kanadíski rithöfundurinn og fornfræðingurinn Anne Carson er eitt þekktasta núlifandi ljóðskáld heims en hún hefur á síðustu árum komið sér fyrir á Íslandi og býr hér hluta ársins.
„Okkur Dag dreymdi um að það væri nú skemmtilegt ef það kæmi bara inn um lúguna hjá manni svona ljóðapakki og ekki endilega eitthvað sem maður þekkti sjálfur eða hefði valið sér, heldur eitthvað óvænt líka,“ segir Ragnar um upptök Ljóðbréfsins.
Þeir sem hafa áhuga á að fá sent Ljóðbréf heim til sín geta skráð sig í áskrift á tunglid.com.