Loka­þáttur af Það er komin Helgi verður sýndur næsta laugar­dag í sjón­varpi Símans. Þættirnir hafa notið gríðar­legra vin­sælda frá þeir hófust í mars og hefur Helgi Björns­son enn á ný fangað hjörtu lands­manna.

Þættir Helga byrjuðu sem ein prufu út­sending í byrjun mars sem síðan vatt heldur betur upp á sig. Þættirnir eru orðnir 19 í það heila en hafa gengið undir nokkrum ó­líkum nöfnum.

Í byrjun undir merkjum „Heima með Helga“ á meðan á sam­göngu­banni stóð í fyrstu bylgju far­aldursins, „Það er komin verslunar­manna-Helgi“ í sumar og nú í haust „Það er komin Helgi“.

Sérstakur hátíðarþáttur

Næsta laugar­dag mun Helgi sem fyrr taka á móti ein­vala liði gesta, hvort sem þeir koma úr röðum tón­listar­manna eða leikara en gestalisti Helga verður hulinn miklum leyndar­hjúp og kemur ekki í ljós fyrr en í út­­sendingunni hverjir eru gestir kvöldsins.

Öllu verður þó til tjaldað í næsta þætti sem verður í sér­stakri þakkar­gjörðar- og há­tíðar­út­gáfu og verður lengri en áður. Með­fram út­sendingunni verður einnig haldin sér­stök síma­söfnun til styrktar Mæðra­styrks­nefnd.

„Við erum alveg gríðar­lega þakk­lát því hvað Helgi og kvöld­vökurnar hans hafa fallið vel að lands­mönnum bæði síðasta vor og nú í haust. Okkur fannst við verða að nýta þessa vel­gengni þáttarins til góðra verka og í sam­einingu á­kváðum við að styðja starf­semi Mæðra­styrks­nefndar,“ segir Pálmi Guð­munds­son Dag­skrár­stjóri Sjón­varps Símans.