„Ég byrjaði að skrifa bókina þegar ég var nýorðin tólf ára 2019 og fékk þá bara innblásturinn frá því að loftslagsbreytingarnar voru það eina sem var verið að tala um á samfélagsmiðlum og bara út um allt,“ segir Eva Björg Logadóttir, fjórtán ára nemandi í Snælandsskóla í Kópavogi og höfundur bókarinnar Síðasta tækifærið.

Bókin segir frá vinkonunum Söndru og Karen sem ferðast aftur í tíma eftir afdrifaríkt spjall við Braghildi gömlu. Þar bíða þeirra síðan alls kyns óvæntar uppákomur í æsilegu kapphlaupi við tímann þegar þær fá síðasta tækifærið til þess að bjarga heiminum frá loftslagsbreytingunum hættulegu.

Þversögn á ögurstundu

„Þetta var bara svona saga og ég ætlaði ekkert lengra með hana af því að ég hef skrifað mikið af sögum um ævina sem hafa aldrei farið neitt lengra en að vera bara sögur á blaði heima hjá mér, skilurðu? Ég hugsaði aldrei út í það þannig, en mig hefur dreymt um að vera rithöfundur alveg síðan ég var bara kornung,“ segir Eva Björg og leggur áherslu á að hún hafi alls ekki lagt í þennan leiðangur með útgáfu í huga.

„Þetta er svolítið mikið og stórt ævintýri. Ég myndi segja að þetta væri bara svona ævintýraskáldsaga fyrir krakka á nánast öllum aldri,“ segir Eva Björg og bætir aðspurð við að yrkisefnið brenni mjög á hennar kynslóð.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu og þetta er erfitt. Sérstaklega líka af því það er oft sagt að þetta sé í okkar höndum af því að framtíðin er okkar. Það er náttúrlega alltaf eitthvað sem við getum gert en það er bara svo lítið. Eins og við getum ekki breytt því hvað búðirnar selja eða neinu þannig,“ segir Eva Björg áfram og víkur að þeirri þversögn að nú á ögurstundu hafi krakkarnir takmörkuð áhrif til þess að gera eitthvað sem vegur þungt.

Magnað tækifæri

„Sagan varð bara alltaf lengri og lengri og ég skrifaði alltaf meira og meira og hún varð bara það löng þannig að ég leyfði fjölskyldunni og vinum að lesa hana. Þau sem fengu að lesa bókina sögðu öll að þetta væri virkilega góð saga og að ég ætti kannski bara að fara eitthvað lengra með hana.“

Eva Björg segist þá hafa horft til þess að Guðjón Ari, bróðir hennar, hafi fengið bók sína, Náðu árangri – í námi og lífi, útgefna í fyrra. „Það ýtti svolítið undir hugmyndina hjá mér um að ég gæti kannski gefið út bók eftir allt saman og sendi hana á útgáfur til að sjá hvert það myndi leiða.“

Þá segist Eva Björg vitaskuld ekki hafa séð fyrir sér að Síðasta tækifærið myndi skjóta upp kollinum í 8. sæti á metsölulista Eymundsson í barnabókaflokki, eins og raunin varð í síðustu viku. „Mér finnst það alveg magnað. Þetta er að ganga bara eins og í sögu,“ segir rithöfundurinn ungi og hlær.“

Varst þú að gefa út bók?

Eva Björg segist aðspurð þegar hafa fengið góð viðbrögð við bókinni frá fleira fólki en úr hennar nánasta hring. „Já, já. Ég hef samt ekki verið alveg nógu dugleg að auglýsa þetta, en síðan verður fólk oft bara gáttað þegar það kemst að þessu: Ha? Varst þú að gefa út bók,“ segir Eva Björg og hlær.

„Það er gaman að fá þannig viðbrögð en síðan eru auðvitað sumir sem eru ekki með eins góð viðbrögð. Ég veit ekki hvort það sé afbrýðisemi eða hvað. En það eru alltaf einhverjir þannig,“ segir Eva Björg sem reynir að leiða slíkt hjá sér og heldur sínu striki.

„Já, já, já. Ég er byrjuð á annarri sögu sem verður vonandi bara í besta falli gefin út á næsta ári. Þannig að það er spennandi,“ segir grunnskólastelpan sem lét rithöfundadrauminn rætast og ætlar ekki að láta fyrsta tækifærið verða það síðasta.

Heiða Rún Jónsdóttir myndskreytir ævintýri Söndru og Karenar.
Mynd/Leó Bókaútgáfa